Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Sveitarstjórn, fundur nr. 158

Dags. 20.2.2018

Hljóðupptaka fundarins:

 

158. fundur sveitarstjórnar haldinn  í stjórnsýsluhúsinu í Búðardal, 20. febrúar 2018 og hófst hann kl. 18:00


Fundinn sátu:
Jóhannes Haukur Hauksson oddviti, Halla S. Steinólfsdóttir, Eyþór Jón Gíslason, Ingveldur Guðmundsdóttir, Þorkell Cýrusson, Sigurður Bjarni Gilbertsson, Eyjólfur Ingvi Bjarnason varamaður og Sveinn Pálsson sveitarstjóri.

 

Fundargerð ritaði:  Sveinn Pálsson,

 

Oddviti leggur til að á dagskrá verði bætt máli nr. 1802027, Sala á Laugum og Sælingsdalstungu.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 

Dagskrá:

 

1.  Samgöngumál - 1801018

Sveitarfélög og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa að undanförnu ályktað um ástand Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Í aðgerðaáætlun sveitarstjórnar vegna íbúafækkunar sem samþykkt var í september 2017 og hefur m.a. verið send samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er lögð áhersla á úrbætur í samgöngumálum.

 

Tillaga að bókun:
Sveitarstjórn Dalabyggðar tekur undir áskorun annarra sveitarfélaga á Vesturlandi og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi þess efnis að samgönguyfirvöld bregðist þegar við ástandi Vesturlandvegar á Kjalarnesi og veiti auknu fjármagni til endurbóta vegarins og undirbúnings tvöföldunar.
Jafnframt minnir sveitarstjórn Dalabyggðar á að yfir 70% vega í Dalabyggð eru enn með malarslitlagi, þar á meðal vegur um Skógarströnd sem þó er hluti af stofnvegakerfi landsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram vilji til að hraða uppbyggingu í vegamálum þar sem sérstaklega verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.
Sveitarstjórn hvetur til að samgönguyfirvöld hraði uppbyggingu malarvega og leggi þá bundnu slitlagi. Horft verði sérstaklega til svæða þar sem mikill hluti vega er en með malarslitlagi, öryggissjónarmiða og umferðaraukningar. Þar hljóta vegir í Dalabyggð að koma til skoðunar.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 


2.  Opinber störf í Dalabyggð - 1802025

Þau tíðindi hafa borist að Sýslumaðurinn á Vesturlandi hafi sagt upp tveimur starfsmönnum af þremur á starfsstöðinni í Búðardal.

 

Tillaga að bókun:
Með lögum nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem tóku gildi 1. janúar 2015 var m.a. kveðið á um ný umdæmi sýslumanna þar sem t.d. eldri sýslumannsembætti á Vesturlandi runnu í embætti Sýslumannsins á Vesturlandi. Í skjölum ráðuneytisins frá þessum tíma kemur m.a. fram að leitast væri við að sem minnst röskun verði á skipulagi og starfsemi nýrra sýslumannsembætta og að tryggð verði áframhaldandi öflug þjónusta m.a. með því að tryggja að starfsemi verði áfram það sem hún var fyrir við setningu laganna.


Sett var reglugerð nr. 1151/2014 þar sem m.a. kemur fram að útibú skuli vera í Búðardal.


Í umsögn byggðarráðs Dalabyggðar um drög að reglugerðinni var ,,þess krafist að starfsstöðin í Búðardal verði sýsluskrifstofa eins og áður enda hefur ítrekað verið lofað að ekki verði um skerðingu á þjónustu að ræða við breytingarnar."
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur vissan skilning á því að auka þurfi rekstrarafgang ríkissjóðs en mótmælir því að til þess þurfi ríkisvaldið að ganga á bak orða sinna á svo augljósan hátt og ná inn hagræðingu með því að skera svo gróflega niður opinber störf í sveitarfélaginu.


Í aðgerðaráætlun sveitarstjórnar vegna íbúaþróunar sem samþykkt var í september 2017 og kynnt hefur verið alþingismönnum og ráðuneytum er m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að efla opinberar stofnanir í Dalabyggð með fjölgun starfa um 2-3. Góð aðstaða og húsnæði er fyrir hendi til að færa verkefni t.d. til skrifstofu Sýslumannsembættisins í Búðardal.


Það eru því sár vonbrigði að upplifa þennan niðurskurð hjá útibúi Sýslumannsins í Búðardal skömmu eftir sameiningu embættanna sem kynnt var sem aðgerð til styrkingar en hefur þveröfug áhrif í Dalabyggð.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


3.  Viljayfirlýsing stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. - 1802005

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. janúar 2018 var lögð fram eftirfarandi viljayfirlýsing um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:


"Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélög til að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og annarra félaga sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga, því að félögin setji sér siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að félög sýni fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í starfi sínu. Séu slíkar reglur nú þegar til staðar hvetur stjórn sambandsins sveitarfélög til að yfirfara stefnur sínar með þetta í huga."

 

Lagt til að félögum sem njóta styrkja frá Dalabyggð verði send tilmæli um að taka samþykkt stjórnar sambandsins til greina.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


4.  Samningur um sýningarhönnun - 1802019

Frá 198. fundi byggðarráðs.
Byggðarráð lagði til að sveitarstjórn staðfesti fram lagðan samning við Hugmynd ehf. um hönnun sýningar í Leifsbúð. Verkefnið er að miklu leyti fjármagnað með framlögum annarra en Dalabyggðar.

 

Lagt til að sveitarstjórn heimili sveitarstjóra að undirrita samninginn.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


5.  Styrkur vegna kvikmyndagerðar - 1802026

Óskað er eftir styrk í formi niðurfellingar/lækkunar húsaleigu fyrir Árblik vegna kvikmyndarinnar Héraðið eftir Grím Hákonarson.

 

Lagt til að erindið verði samþykkt en gert verði ráð fyrir að umsækjandi standi straum af rekstrarkostnaði s.s. ræstingu og rafmagnskostnaði.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


6.  Þörf fyrir þriggja fasa rafmagn - 1802016

Með bréfi dags. 8. febrúar 2018 tilkynnir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að skipaður hafi verið starfshópur til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli með áherslu á þrífösun rafmagns.

 
Starfshópurinn óskar eftir að sveitarstjórn veiti upplýsingar um hvar sé mest og brýnust þörf á tengingu við þriggja fasa rafmagn í sveitarfélaginu og til hvaða starfsemi.

 

Lagt til að umsjónarmanni framkvæmda verði falið að taka til umbeðnar upplýsingar í samráði við byggingarfulltrúa og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 


7.  Sala á Laugum og Sælingsdalstungu - Ósk um umsögn - 1802027

Með bréfi dags. 14. febrúar 2018 upplýsir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um kvörtun Bjarna Ásgeirssonar frá 6. febrúar varðandi fyrirhugaða sölu sveitarfélagsins á jörðunum Laugum og Sælingsdalstungu. Með vísan í 133. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 óskar ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins um efni kvörtunarinnar og jafnframt upplýsingum um aðdraganda og meðferð málsins í stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Til máls tók: Eyjólfur,


Lögð fram tillaga:
Sveitarstjóra falið að taka saman drög að svarbréfi til ráðuneytisins og bera undir sveitarstjórn.

Samþykkt með sex atkvæðum. Einn situr hjá (EIB)

 

Eyjólfur leggur til að bréf ráðuneytisins og svarbréf Dalabyggðar verði birt á vef Dalabyggðar.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 

Eyjólfur lagði fram bókun:
Ég tel stjórnsýsluna kringum söluferlið ekki nógu skýra og er núna mótfallinn sölu eigna á þeim forsendum sem hún var afgreidd á 157. fundi sveitarstjórnar 16. janúar sl., þó ég hafi veitt hlutleysi mitt þar. Eins velti ég fyrir mér umboði okkar sveitarstjórnarmanna, hvert er okkar bakland þegar ræða þarf stór mál. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum var kjörsókn rúm 56% í sveitarfélaginu og viðhaft persónukjör. Síðast þegar var viðhöfð listakosning árið 2006 var kjörsókn 85% og 88% árið 2002, einnig listakosning þá. Þetta er minn 20 sveitarstjórnarfundur á kjörtímabilinu 2014-2018 sem fyrsti varamaður í sveitarstjórn. Einu sinni á kjörtímabilinu hafa allir aðal- og varamenn verið boðaðir saman á fund, í júní 2014, þar sem óskað er eftir að allir mæti en aldrei síðan að ég best veit. Aðal- og varamenn voru aldrei boðaðir saman til að ræða sölu eigna sveitarfélagsins. Sennilega stærsta mál sem hefur verið afgreitt af sveitarstjórn á síðari árum. Ég hef síðustu vikur skynjað talsverða ólgu í samfélaginu vegna þessa máls og tel að betra upplýsingaflæði hefði verið farsælla fyrir afgreiðslu þess. Ef væri viðhöfð listakosning hefði bakland listans væntanlega rætt saman eða ég geri ráð fyrir því. Þá væri væntanlega víðtækari sátt um málsmeðferðina. Af þeim sökum velti ég fyrir mér umboði okkar þó svo við séum löglega kjörin miðað við gildandi lög um kjör sveitarstjórnarmanna.
 


8.  Aðalskipulag Dalabyggðar 2004-2016 Breyting - 1708016

Frá 79. fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar.


Nefndin samþykkti að auglýsa eftirfarandi tillögur að breytingum á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016:

 
- Íbúðarsvæði í Búðardal, nýjar lóðir við Borgarbraut og lenging á Bakkahvammi.
- Stækkun verslunar- og þjónustusvæðis við Vesturbraut
- Frístundasvæði í landi Hlíðar í Hörðudal.

 

Tillaga:
Sveitarstjórn vísar athugasemdum nefndarinnar við tillögur er varða íbúðarsvæði í Búðardal til umræðu um nýtt aðalskipulag þar sem ekki er um að ræða atriði sem tengjast aðalskipulagsbreytingu.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 

Lagt til að tillaga nefndarinnar verði samþykkt að öðru leyti.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


9.  Vindorkugarður - gagnaver - 1802012

Frá 79. fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar.


Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til að áður en ákvörðun verði tekin um framhald breytinga á gildandi aðalskipulagi varðandi nýtingu vindorku og stækkunar byggðalínu, verði mótuð stefna um nýtingu vindorku í sveitarfélaginu. Verkefnið verði tengt heildarendurskoðun aðalskipulags sem sveitarstjórn áformar að hefja á árinu og óskað verði stuðnings Skipulagsstofnunar/Skipulagssjóðs vegna þessa. Breytingu á aðalskipulagi vegna iðnaðarlóðar (gagnavers) verði einnig frestað þar til ofangreind stefna hefur verið mótuð.

 
Borist hefur bréf frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvar málið er statt.

 

Lagt til að tillaga nefndarinnar verði samþykkt.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 

Sveitarstjóra verði falið að svara erindi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


10.  Viðmiðunarlaun sveitarstjórnarmanna - 1606029

Frá 198. fundi byggðarráðs
Sveitarstjóri lagði fram yfirlit yfir laun sveitarstjórnarmanna í samburði við nágrannasveitarfélög og viðmiðun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2016. Einnig drög að reglum Dalabyggðar um þóknun sveitarstjórnarmanna.


Byggðarráð vísaði málinu til sveitarstjórnar.

 

Lagt til að frá upphafi nýs kjörtímabils verði greitt skv. launaflokki 122 með 6% álagi skv. samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og SDS.

 

Samþykkt í einu hljóði.

 

Lagt til að sveitarstjórn samþykki fyrirliggjandi reglur með áorðnum breytingum.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


11.  Brunavarnaáætlun - 1512012

Með bréfi dags. 3. janúar 2018 minnir Mannvirkjastofnun á að gildistími brunavarnaráætlunar Dalabyggðar sé útrunninn. Stofnunin hefur áður sent frá sér bréf sama efnis.

 

Lögð fram tillaga:
Slökkviliðsstjóra og umsjónarmanni framkvæmda (eldvarnareftirlitsmanni) falið að gera drög að endurnýjun brunavarnaráætlunar og leggja fyrir sveitarstjórn.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


12.  Húsnæðisáætlun - 1709024

Fulltrúar Íbúðalánasjóðs komu til fundar við sveitarstjórn fyrr í dag og kynntu reglur sjóðsins um stofnframlög og hugsanlegar breytingar á þeim.

 

Til kynningar.
 


13.  Tjaldsvæði - rekstur - 1611005

Frá 64. fundi Menningar- og ferðamálanefndar.
Nefndin leggur til að reksturinn verði boðinn út í vor. Einnig að gjaldskrá verði hækkuð og verði 1.500 krónur á mann og 1.200 fyrir eldri borgara og öryrkja.

 

Aðrir gjaldaliðir verði óbreyttir.

 

Lögð fram tillaga:


Sveitarstjórn felur ferðamálafulltrúa að bjóða út reksturinn og samþykkir hækkun gjaldskrár.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


14.  Héraðsbókasafn - 1708010

Frá 64. fundi menningar- og ferðamálanefndar.


Nefndin leggur til að 50% staða bókavarðar verði auglýst og stefnt skuli að því að ráða fagmann á bókasafns- og upplýsingasviði.

 

Lögð fram tillaga:


Sveitarstjórn samþykki tillögu nefndarinnar.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


15.  Frumvörp til umsagnar - 1802002

Nefndasvið Alþingis sendir eftirfarandi mál til umsagnar:
9. mál, 34., 35., 42. 50., 52., 128. og 133. mál.

 

Lagt fram til kynningar.
 


16.  Samþykkt um stjórn Dalabyggðar - 1711013

Á 157. fundi sveitarstjórnar var fjallað um breytingar á samþykktum um stjórn Dalabyggðar og vísað til síðari umræðu.

 

Lagt til að afgreiðslu verði frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


17.  Byggðarráð Dalabyggðar - 198 - 1801002F

198. fundur byggðarráðs var haldinn 13. febrúar sl.

Til máls tók: Eyþór.


Á fundinum var fjallað um húsnæðisáætlun, framkvæmdir, umsóknir um stöðu íþrótta- og tómstundafulltrúa, úthlutun íbúða aldraðra o. fl.

 

Lagt til að sveitarstjórn staðfesti fundargerðina.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


18.  Menningar- og ferðamálanefnd Dalabyggðar - 64 - 1711011F

64. fundur Menningar- og ferðamálanefndar var haldinn 12. febrúar sl.

Á fundinum var m.a. fjallað um áfangastaðaáætlun DMP, rekstur tjaldsvæðis og kynningarmál.

 

Lagt til að sveitarstjórn staðfesti fundargerðina.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


19.  Stjórn Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns - 13 - 1802001F

13. fundur stjórnar Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns var haldinn 14. febrúar sl.

 

Á fundunum var m.a. fjallað um stöðu hjúkrunarforstjóra og gæðahandbók Silfurtúns.


Stjórn þakkaði Kristínu S. Þórarinsdóttur vel unnin störf og óskaði henni velfarnaðar.

 

Lagt til að sveitarstjórn staðfesti fundargerðina og taki undir þakkir til Kristínar.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


20.  Umhverfis- og skipulagsnefnd - 79 - 1801004F 2

79. fundur Umhverfis- og skipulagsnefndar var haldinn 15. febrúar sl.

 
Á fundinum var m.a. samþykkt að stofna frístundalóðir og stækka fyrirliggjandi frístundalóð skv. deiliskipulagi fyrir Lauga. Einnig samþykkt að stækka lóð umhverfis vatnsból á Svínadal í landi Sælingsdalstungu . Þá var samþykkt minni háttar breyting á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal.

 

Til máls tók: Eyjólfur
Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar varðandi stofnun og stækkun lóða í landi Lauga og Sælingsdalstungu og breytingu á að deiliskipulagi fyrir Ólafsdal.

 

Samþykkt með sex atkvæðum. Einn er á móti (EIB).

 

Eyjólfur leggur fram bókun:
Á 151. fundi sveitarstjórnar, 19. september sl. ákvað sveitarstjórn að skoða fleiri kosti varðandi sölu Lauga og eftir atvikum annarra eigna. Á 152. fundi sveitarstjórnar, 24 október sl. var sveitarstjóra heimilað að kanna fleiri kosti við sölu eigna. Þremur dögum seinna kemur fyrsta tilboð í eignir á Laugum. Í dag er sveitarstjórn Dalabyggðar að afgreiða stofnun lóða á Laugum og lóð um vatnsból á Svínadal svo hægt sé að ganga frá kaupsamningi ef ég skil hlutina rétt. Ég sat hjá við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsnefnd þar sem ég tel þetta óeðlilega stjórnsýslu af hálfu stjórnsýslustigs sem sveitarfélag er. Eðlilegra hefði verið að ganga frá málum varðandi stofnun lóða og fleira í október og auglýsa svo eignir í stað þess að fara í þann tilboðsleik sem var loks afgreiddur á 157. fundi sveitarstjórnar 16. janúar sl. Ýmislegt varðandi stjórnsýslu sölu eigna sveitarfélagsins væri skiljanlegt ef um væri að ræða sölu eigna innan einkahlutafélags en svo er ekki - Dalabyggð er opinbert stjórnsýslustig og þar gilda ákveðnar leikreglur.

 

 


21.  Fundargerðir Eiríksstaðanefndar - 1801011

Fundargerðir 7., 8., 9. og 10. fundar Eiríksstaðanefndar lagðar fram.

 

Lagt til að sveitarstjórn staðfesti fundargerðirnar.

 

Samþykkt í einu hljóði.
 


22.  Fundargerð 856. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga - 1802003

Fundargerð 856. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögð fram til kynningar.
 


23.  Leigusamningur Leifsbúð - 1604019

Með bréfi dags. 1. janúar 2018 minnir Hafliði Elíasson á að hann er með samning um veitingarekstur í Leifsbúð til loka árs 2019. Hafliði leggur áherslu á að fyrirhuguðum framkvæmdum verði hagað þannig að þær verði utan opnunartíma veitingastaðarins þ.e. á tímabilinu september til maí.

 

Lagt fram til kynningar.
 


24.  20. ársfundur Umhverfisstofnunar - Samantekt - 1801014

Samantekt umræðna frá 20. fundi Umhverfisstofnunar, náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og forstöðumanna náttúrustofa lögð fram til kynningar.
 


25.  Sveitarstjórnarkosningar 2018 - 1802014

Með bréfi dags. 6. febrúar 2018 tilkynnir Þjóðskrá Íslands breytingar á skráningu námsmanna á Norðurlöndum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingarnar felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að sækja um það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að vera teknir á kjörskrá fyrir kosningarnar.

 

Lagt fram til kynningar.
 


26.  Skýrsla sveitarstjóra - 1801004

Sveitarstjóri flytur skýrslu sína.
 

Vegna tæknilegra vandamála var ekki unnt að yfirfara og staðfesta fundargerðina en það verður gert í upphafi næsta fundar.
 
Gert er ráð fyrir að næsti fundur sveitarstjórnar verði 20. mars nk.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:00

 


 


 Til baka