Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur um félagslega heimaþjónustu í Dalabyggð


 

Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 og lögum um málefni fatlaðs fólks  nr. 59/1992 og öðlast þegar gildi.

 

1.gr.

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður.

 

2. gr.

Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita:

a) Aðstoð við heimilishald.

b) Aðstoð við persónulega umhirðu.

c) Félagslegan stuðning.

d) Aðstoð við umönnun barna.

 

3. gr.

Skilyrði þess að geta fengið félagslega heimaþjónustu er að aðstoðarþegi búi í heimahúsi og að hvorki hann né aðrir heimilismenn geti hjálparlaust séð um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Réttur til félagslegrar heimaþjónustu er háður því að eiga lögheimili í Dalabyggð.

 

Að jafnaði er ekki veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn 18 ára og eldri geta annast, en á því eru eftirfarandi undantekningar:

a) Heimili sem þurfa mikla umönnun frá öðrum fjölskyldumeðlimum vegna alvarlegra veikinda eða slysa.

b) Heimili fatlaðra og langveikra barna sem þurfa mikla ummönnun.

c) Horft er á heildarmynd þjónustu við heimilið áður en ákvörðun er tekin að veita heimaþjónustu.

 

4.gr.

Gerður skal þjónustusamningur við umsækjanda um félagslega heimaþjónustu þar sem fram kemur hvaða þjónusta verði veitt, tímafjöldi, verkefni og vinnutilhögun.             

 

Þjónustusamningur er gerður til 6 mánaða við fyrsta mat en við endurnýjun gildir hann alla jafna í 12 mánuði. Verði breyting á þörfum fyrir heimaþjónustu á tímabilinu fer fram endurmat. Félagsmálanefnd fer með stjórn félagslegrar heimaþjónustu á vegum Dalabyggðar.

 

5.gr.

Verkefnistjóri heimaþjónustu  Dalabyggðar annast daglegan rekstur.

 

6. gr.

Áður en aðstoð er veitt skal verkefnisstjóri heimaþjónustunnar meta þjónustuþörf, þegar við á í samráði við félagsmálanefnd , heilsugæslu og aðra fagaðila.

 

Meta skal hvert einstaka tilvik og skal leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir.

 

Læknisvottorð skal liggja fyrir, ef ástæða þykir til.

 

7. gr.

Félagsmálanefnd skal setja reglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu, þar sem m.a. eru nánar tiltekin verkefni starfsmanna, skyldur þeirra og réttindi. Kynna skal reglur þessar fyrir starfsfólki og aðstoðarþegum.

 

8. gr.

Starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu eru ráðnir af verkstjóra heimaþjónustunnar og taka laun sín frá Dalabyggð og gilda þar launakjör samkvæmt samningi milli Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness.

 

Starfsmönnum er óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá aðstoðarþegum. Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir verða vísir í starfi sínu um einkamál manna og heimilishald.

 

Starfsmönnum er óheimilt að geyma lykla að heimilum þjónustuþega. Þjónustuþegi skal vera heima meðan starfsmaður er við störf.

 

9. gr.

Ef starfsmaður þarf vegna vinnu sinnar að aka lengri vegalengd en 5 kílómetra til og frá vinnustað greiðir sveitarfélagið akstur umfram þá vegalengd skv. aksturstaxta ríkisins. Starfsmanni er óheimil notkun bifreiðar aðstoðarþega.

 

10. gr.

Heimaþjónusta skal að jafnaði veitt á dagvinnutíma frá mánudegi til föstudags. Þjónusta utan þess tíma skal eingöngu veitt ef fyrir liggur samþykki félagsmálanefndar að undangengnu mati á aðstoðarþörf sbr. 6. gr.

 

11. gr.

Ekki er tekin greiðsla fyrir félagslega heimaþjónustu í Dalabyggð.

 

Samþykkt í félagsmálanefnd Dalabyggðar 5. apríl 2017

Samþykkt í sveitarstjórn Dalabyggðar 18. apríl 2017

Reglurnar taka þegar gildi og um leið falla úr gildi eldri reglur frá 2003.

 

Skilgreiningar þjónustuþátta

Aðstoð við heimilishald er veitt þeim sem ekki geta sinnt heimilishaldi án aðstoðar, vegna hreyfihömlunar, veikinda, skertrar færni eða skertrar andlegrar getu, sbr. 3. grein. Gert er ráð fyrir að umsækjandi og aðrir heimilismenn taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er. Aðstoð við heimilisþrif takmarkast við þau herbergi sem eru í daglegri notkun s.s. eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. Heimilisþrif eru almennt innt af hendi aðra  hverja viku nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Ekki er veitt aðstoð við stórhreingerningar.

 

Gert er ráð fyrir að umsækjandi fari með starfsmanni í innkaupaferðir. Geti umsækjandi það ekki vegna hreyfihömlunar eða skertrar færni er hann hvattur til að nýta sér reiknings-viðskipti hjá matvöruverslunum, heimsendingu matvæla og/eða lyfja. Í undantekningartilfellum er heimilt að gera samning um að starfsmaður heimaþjónustu sjái um innkaup á nauðsynjavörum, þó ekki oftar en einu sinni í viku.  Æskilegt er að þjónustunotandi fari með annars skal skila kvittun til þjónustunotanda. Þjónustunotandi ber alla ábyrgð á því að skil á fjármunum séu rétt.

 

Þrif

Með þrifum er átt við að ryksuga, þvo gólf, þrífa baðherbergi, þ.e.a.s. vask, salerni, bað/sturtu og veggi þar í kring, þrífa vaskaskáp, ísskáp (í sérstökum tilfellum) og í kringum eldavél. Þurrkað skal af þegar viðkomandi getur það ekki sjálfur. Ekki eru bónuð gólf. Aðstoð við almenn heimilisþrif takmarkast við þau herbergi sem eru í daglegri notkun þjónustunotandans, s.s. eldhús, salerni, ganga, svefnherbergi viðkomandi, stofu og borðstofu. Í einstaka tilfellum er veitt aðstoð við að skipta á/búa um rúm. Þar sem unglingar eru á heimili er ekki þrifið í þeirra herbergjum. Í sérstökum tilfellum eru gluggar þvegnir að innan. Aðstoð er veitt við þvott á léttari gluggatjöldum, t.d. eldhús- og baðherbergisgluggum. Um annan gardínuþvott skal semja sérstaklega. Ekki eru þvegin rimlagluggatjöld. Matseld og uppvask telst ekki hluti af almennum heimilisþrifum, heldur þarf að semja um það sérstaklega. Í sérstökum tilfellu skal aðstoð veitt við að setja þvott í vél og við frágang. Gert er ráð fyrir að umsækjandi taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er.

 

Vinnuaðstæður

Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum merkir vinnustaður það umhverfi innanhúss og utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um starfa sinna vegna. Þar skal fyllsta öryggis gætt og góður aðbúnaður tryggður. Vinna starfsmanna í heimaþjónustu fer fram á einkaheimilum og þarf umsækjandi eða umbjóðandi hans að fallast á að aðstæður séu þannig að áðurnefndum atriðum sé fullnægt. Skapist þær aðstæður inni á heimilinu að öryggi notanda eða starfsfólks sé ógnað, t.d. vegna skorts á nauðsynlegum hjálpartækjum, vegna óreglu, áreitni eða ógnandi hegðunar, þarf tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir. Fresta getur þurft þjónustu á meðan leitað er ráðgjafar og aðstoðar við að finna viðeigandi lausnir. Starfsmönnum er óheimilt að reykja inni á heimilum notenda og notendur gangast inn á að reykja ekki meðan starfsmenn eru inni á heimilinu.

 

Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi. Starfsmönnum ber þó að láta yfirmann vita verði hann var við versnandi heilsufar skjólstæðinga eins og t.d. minnisglöp.

 

Við ráðningu undirrita starfsmenn þagnarheit og helst þagnarskylda þó starfsmaður láti af störfum.