Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Samþykkt um hundahald í Dalabyggð


1. grein

Hundahald í Dalabyggð sæti þeim takmörkunum sem tilgreind eru í samþykkt þessari.

2. grein

Hundahald í þéttbýli (Búðardal) sæti eftirfarandi takmörkunum:

a)  Eiganda er skylt að skrá hund sinn á hreppsskrifstofu.  Við skráningu fær eigandi hundsins afhenta þar til gerða plötu með skráningarnúmeri hundsins. Við skráningu skal hundaeigandi undirrita yfirlýsingu um að hann skuli í einu og öllu fara með hund sinn eftir fyrirmælum þessarar samþykktar, eins og hún er nú og síðar kann að verða breytt.

 

b)  Eiganda er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingarfélagi, þannig að tryggt sé að tryggingin taki til alls tjóns sem hundur kann að valda án nokkurra óeðlilegra skilyrða að mati hreppsnefndar.

 

c)  Óheimilt er með öllu að láta hunda ganga lausa, en heimilt er að hafa þá í taumi úti við, í fylgd með manni, sem hefur fullt vald yfir þeim.  Eigi er heimilt að hafa með sér hund, þótt í taumi sé inn í skólahús, leikvelli, almennar skrifstofur, opinberar stofnanir, samkomuhús, verslanir eða starfsstöðvar hverju nafni sem nefnast, þar sem úrvinnsla, meðferð eða geymsla matvæla á sér stað.

 

d)  Hundaeigendum er skylt að sjá svo um, að hundar raski ekki ró manna eða verði mönnum til óþæginda.  Skylt er leyfishafa að fjarlægja saur eftir hundinn.

 

e)  Til að standa straum af kostnaði hreppsins við skráningu og eftirlit með hundum í Búðardal, skal hver hundaeigandi greiða árlegt gjald til sveitarsjóðs.  Gjaldið greiðist fyrirfram við skráningu hundsins til næstkomandi marsmánaðar,  og síðan árlega 1. mars fyrir eitt ár í senn.  Hreppsnefnd ákveður fjárhæð í gjaldskrá, sem birt er í B-deild stjórnatíðinda.  Af hundum sem blindir menn og öryrkjar þurfa á að halda vegna fötlunar sinnar,  skal ekkert gjald greiða.  Við greiðslu gjalds þessa ber hundeiganda að sýna vátryggingarskírteini, vottorð dýralæknis um að hundurinn sé ekki haldinn smitandi sjúkdómi, og hafi verið hreinsaður af band-ormum, svo og öll skilríki sem máli skipta.

 

f)  Sé hundeigandi undir 16 ára aldri verður honum ekki veitt leyfi til hundahalds nema forráðandi ábyrgist allar skyldur hans samkvæmt samþykkt þessari og áriti sérstaka yfirlýsingu þar um.

 

g)  Ef sótt er um leyfi til að halda hund í sambýlishúsi, skal skriflegt samþykki sameigenda/stjórnar húsfélagsins í húsinu fylgja umsókn, sbr. lög nr. 26/1994 um fjöleignahús

3. grein

Hundaeigendum í dreifbýli er skylt að láta hreinsa hunda sína,  á eigin kostnað,  einu sinni á ári. 

 

Hundeiganda er skylt, að geta staðfest hvenær sem er,  að hundur hans hafi verið hreinsaður á s.l. 12 mánuðum.

 

Eigandi er ábyrgur fyrir hverju því tjóni sem hundur hans kann að valda.

4.  grein

Fyrir minni háttar brot á samþykkt þessari skal hundeigandi sæta skriflegri áminningu, og greiða allan kostnað sem leiðir af brotinu.  Ef um ítrekað brot er að ræða eða meiriháttar brot hefur hundaeigandi fyrirgert rétti sínum til að halda hund í Búðardal.  Skal hann greiða allan kostnað vegna brotsins og afhenda hund sinn til lögreglu,  sem síðan ákveður hvað skuli gert við hundinn.

5.  grein

Hundar úr aðliggjandi sveitum, sem ekki eru í fylgd með eiganda eða umráðamanni svo og aðrir ómerktir flækingshundar, skulu teknir úr umferð.  Gefi eigandi sig ekki fram og/eða vitjar ekki hundsins innan 3 daga hefur lögreglan heimild til þess að lóga áviðkomandi hundi þegar í stað.  Merktir hundar á flækingi skulu einnig teknir úr umferð.  Ef eigendur vitja þeirra ekki innan 3 daga og svara ekki til saka fyrir brot á samþykkt þessari, sé um slíkt að ræða hefur lögreglan heimild til  þess að lóga hundinum án frekari fyrirvara.

 

Hunda sem ráðast á menn eða skepnur skal fjarlægja og er heimilt að lóga þeim þegar í stað.

6.  grein

Lögreglustjóri og heilbrigðisnefnd hafa eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar og skulu þessir aðilar tilkynna hreppsnefnd án tafar um allar kærur sem þeim berast vegna brota á samþykktinni.

 

Farið skal með brot á samþykktinni samkv. ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustu-hætti og mengunarvarnir.

7.  grein

Hunda sem ganga lausir á almannafæri, skal handsama. Við ítrekað brot skal hundinum lógað. Kostnaður við töku hunda skal ákveðinn af sveitarstjórn og að fullu greiddur af eiganda.

8. grein

Ofangreind samþykkt Sveitarstjórnar Dalabyggðar staðfestist hér með samkv.  ákvæðum laga nr.25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast gildi þegar við birtingu.

 

Jafnframt fellur úr gildi samþykkt um hundahald í Dalabyggð frá 16. desember, 1997

 

Samþykkt af  sveitastjórn 15. október 2002.