Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur um sérstakan stuðning í húsnæðismálum


 

Reglur um sérstakan stuðning í húsnæðismálum í Dalabyggð skv. 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, m.s.br.

 

1. gr.

Stuðningur í húsnæðismálum

Dalabyggð veitir eftirfarandi stuðning í húsnæðismálum með hliðsjón af aðstæðum hvers og eins.

a) Sérstakar húsaleigubætur.

b) Sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára ungmenna.

 

2. gr.

Skilgreiningar

Sérstakar húsaleigubætureru ætlaðar þeim einstaklingum og fjölskyldum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrði og/eða annarra félagslegra erfiðleika.

 

Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna 15-17 ára barna er ætlaður foreldrum/forsjáraðilum 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist, á námsgörðum, eða leiguherbergi á almennum markaði og njóta ekki vegna aldurs réttar til húsnæðisbóta.

 

3. gr.

Skilyrði vegna sérstakra húsaleigubóta

Umsækjandi þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að umsókn öðlist gildi.

 

a)  Umsækjandi hefur fengið samþykkta umsókn um húsnæðisbætur.

b) Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Dalabyggð.

c) Umsækjandi býr við félagslega erfiðleika.

 

4. gr.

Upplýsingar um aðstæður

Viðtakandi sérstakra húsaleigubóta skal strax gera grein fyrir öllum breytingum sem verða á aðstæðum hans og kunna að hafa áhrif á rétt hans til bótanna.

 

5. gr.

Endurskoðun greiðslna sérstakra húsaleigubóta

Viðtakandi sérstakra húsaleigubóta verður að fullnægja öllum skilyrðum 3. gr. allt það tímabil sem ákvörðun um bætur gildir. Ef skilyrðum er ekki lengur fullnægt skal viðtakandi gera grein fyrir því án tafar og verður greiðslu sérstakra húsaleigubóta hætt. Láti viðtakandi hjá líða að gera grein fyrir bættum aðstæðum ber honum að endurgreiða ofgreiddar bætur.

 

6. gr.

Tekju- og eignamörk vegna umsókna um sérstakar húsaleigubætur

Umsækjandi uppfylli eftirfarandi skilyrði um tekju- og eignamörk.

 

a)Tekjumörk:

 

 

 

 

Fjöldi heimilismanna

 

Neðri mörk

á ári

 

Efri mörk

á ári

 

Neðri mörk

á mánuði

 

Efri mörk

á mánuði

 

1

3.515.400

4.394.250

292.950

366.205

2

4.649.400

5.811.750

387.450

484.312

3

5.443.200

6.804.000

453.600

567.000

4 eða fleiri

5.896.800

7.371.000

491.400

614.250

b)Eignamörk:

Samanlagðar eignir heimilismanna nemi ekki hærri fjárhæð en 5.126.000 í lok næstliðins árs.

 

7. gr.

Undanþágur frá skilyrðum

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum 6. gr. um tekjuviðmið ef umsækjandi á samkvæmt faglegu mati í mjög miklum félagslegum erfiðleikum.

 

Umsóknir um undanþágur skulu vera skriflegar þar sem gerð er grein fyrir ástæðu undanþágubeiðni. Félagsmálanefnd Dalabyggðar úrskurðar um undanþágur.

 

8. gr.

Fjárhæðir

Sérstakar húsaleigubætur eru reiknaðar sem ákveðið hlutfall af almennum húsnæðisbótum þannig að fyrir hverjar kr. 1.000,- fær leigjandi kr. 1.300- í sérstakar húsaleigubætur.

 

Húsnæðisbætur og sérstakar húsaleigubætur geta aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 75.000,- og aldrei farið yfir 75% af leigufjárhæð. Sérstökum húsaleigubótum verður ekki beitt til að greiða niður húsaleigu umfram það viðmið að leigjandi beri kr. 45.000 í kostnað af húsaleigu.

 

9. gr.

Sérstakur stuðningur vegna 15 - 17 ára leigjenda á heimavistum/námsgörðum/ almennum markaði

Foreldrar/forsjáraðilar sem greiða húsaleigu vegna 15–17 ára barna sinna á heimavist, á námsgörðum eða í leiguherbergi hjá óskyldum vegna náms hér á landi fjarri lögheimili eiga rétt á húsnæðisstuðningi sé sambærilegt nám ekki í boði í sveitarfélaginu.

 

 Stuðningurinn er óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og getur numið allt að 50% af leigufjárhæð. Fjárhæð styrks skal þó aldrei nema hærri upphæð en 20.000 kr. á mánuði. Lágmarksgreiðsla foreldra eða forsjáraðila skal vera 10.000 kr. á mánuði.

 

Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Umsókn skal berast fyrir 15. þess mánaðar sem greitt er fyrir, ekki er greitt aftur í tímann. Umsókn gildir fyrir hverja skólaönn.

 

10. gr.

Umsóknir, afgreiðsla/umsóknarfrestir

Umsóknir skulu berast á þar til gerðum eyðublöðum. Sótt er um um sérstakar húsaleigubætur hjá starfsmönnum félagsþjónustu sem afgreiða þær.

 

Sótt er sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15 – 17 ára hjá skrifstofu Dalabyggðar sem afgreiðir þær.

 

Umsóknir sem berast fyrir 15. dag mánaðar skulu afgreiddar fyrir næstu mánaðarmót og skal niðurstaða kynnt umsækjanda. Ekki er greitt aftur í tímann.

 

Umsókn um sérstakar húsaleigubætur gildir út almanaksárið, en umsókn um stuðning vegna 15-17 ára leigjenda gildir út önnina.

 

11. gr.

Málsmeðferð

Meðferð máls er skv. ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

 

Könnun á aðstæðum, öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við og með vitund umsækjanda.

 

Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan í viðeigandi ákvæði þessara reglna og upplýsingar veittar um áfrýjunarleiðir og áfrýjunarfresti. Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til félagsmálanefndar frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. félagsmálanefnd skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er. Ákvörðun félagsmálanefndar skal kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots.

 

Umsækjandi getur skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun velferðarnefndar.

 

12. gr.

Endurskoðun

Reglur þessar skulu endurskoðaðar fyrir 31. janúar 2018.

 

13. gr

Gildistaka

Reglur þessar taka gildi við staðfestingu sveitarstjórnar.

 

Samþykkt í félagsmálanefnd Dalabyggðar 16. ágúst 2017.

Staðfest af sveitarstjórn Dalabyggðar 22. ágúst 2017