Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Byggðasafn Dalamanna

Daði fróði Níelsson

1809-1856


Teikning: Sigurður Guðmundsson málari 1847

Daði fæddist um 22. júlí 1809 á Kleifum í Gilsfirði. Foreldrar hans voru Níels Sveinsson bóndi og Sesselja Jónsdóttir á Kleifum. Níels dó snögglega 1810 og eftir það fór Daði til skyldfólks síns þar sem móðir hans var bláfátæk. Ólst hann upp við misjafn atlæti og um fjögurra ára skeið (1818-1822) dvelur hann aftur hjá móðir sinni við lítið betra atlæti.

 

Árið 1822 er hann fermdur og hafði þá lært að lesa af eigin ástundun. Dvelur eitt ár á öðru heimili og síðan hjá móður sinni aftur í 2 ár. Sextán ára fór hann í vist til vandalausra, mest við fjárgæslu. Um tvítugt byrjar hann að læra að skrifa og lesa dönsku af sjálfum sér. Notaðist hann við prentstíl og bar rithönd hans því ætið merki, stirðleg, þétt og stafirnir beinir.

 

Snemma kemur löngunin til ritstarfa fram og fyrstu verk hans er að taka saman annál, en hættir þeim störfum þar sem honum fannst heimildirnar óáreiðanlegar og bera meira vott af kjaftasögum en staðreyndum. Í framhaldinu yrkir hann tíðavísur fyrir árin 1835-´41.

 

Fljótlega eftir að hættir ritun annála hefst hann handa í stórvirkið að rita prestatal fyrir Skálholtsstifti.

 

1837 fer hann að Stað í Hrútafirði, 1838 til sr. Sveins bróður síns að Blöndudalshólum, þaðan að Gunnsteinsstöðum í Langadal, en vorið 1840 að Gautsdal í Bólsstaðarhliðarhreppi og gerist þar ráðsmaður hjá Helgu Jónsdóttur ekkju og er þar í 5-6 ár. Skipti hann næstu ár oft um vistar- og verustaði og vinnur að kappi að prestasögum sínum. Á tímabili er hann samtíða Gísla Konráðssyni í vist að Húsabakka í Skagafirði. Lýkur hann ritun prestasögunnar 1851.

 

Meðal annarra fræðirita Daða má nefna Andvöku, æfisögur 23  merkra Íslendinga, Tímatal frá byggingu Íslands til 1837, Fjörtíu hugvekjur út af Sigurljóðum Kristjáns prófasts Jóhannssonar. Auk þess þýddi hann talsvert af erlendum ritum, Kirkjusögu Evsebiusar, Æfisögu Luthers eftir NM Petersen, Sögu Struenses og Griffenfelds og Sögur af Danmerkurdrottningum.

 

Hann orti og 35 rímnaflokka, talsvert af kvæðum og erfiljóðum.  

 

Var á ýmsum stöðum um ævina, síðast á Akureyri. Varð úti í bóksöluferð á Skagaströnd. Grímur Thomsen skáld orti eftir hann erfiljóð.

 

Ítarefni

Jón Jónsson. 1910. Daði Níelsson "fróði". Aldarminning". Skírnir 84. árg. 1910