Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Byggðasafn Dalamanna
    
Skáldatal

Jón Sigurðsson Dalaskáld um 1685-1720


Jón Sigurðsson var fæddur um 1685. Foreldrar hans voru Sigurður Gíslason Dalaskáld og Kristín Guðmundsdóttir í Stóraskógi. 

Jón þótti snemma efnilegur og hagmæltur. Einhverju sinni kom Páll lögmaður Vídalín að Stóraskógi. Honum þótti börn Sigurðar efnileg og kastaði fram vísu þessari til að erta Sigurð;

    

Hvert er þetta þrælalið,

er þyrpist hópum saman?

Hvað gekk til þess himnasmið

að hafa það svona´ í framan.

 

Jón var þá ungur en svaraði þegar;

    

Skaparann ekki skortir neitt,

skynja megið þér orðin mín.

Ætli´ að hann hafi engum veitt

utan Páli Vídalín?

 

Aðrir segja að hann hafi kveðið þessa vísu;

    

Það í hug þér láttu leitt,

lífs þér herrann kenni,

fleiri mót hann átti en eitt

að þér, væskilmenni.

 

Jón lærði skólalærdóm og gerðist skrifari Odds lögmanns. Oddur fékk honum lögsögn í Dölum 1712-´17. Bjó Jón í Bæ í Miðdölum.

Oddur bjó að Narfeyri með Sigríði móður sinni og systur. Jón lagði hug á heimasætuna og unnust þau hugástum. Oddi og Sigríði gast illa að þessum samdrætti þeirra því Sigríði þótti Jón fátækur. Unnusta Jóns lagði sig til svefns í rökkrinum fram í baðstofu og kom Jón oft til hennar og fór svo um hríð. Eitt kvöld skipaði Sigríður dóttur sinni að leggjast í sitt rúm en lagðist sjálf í rúmið sem dóttir hennar svaf í. Jón kom þar að og brá mjög þegar hann sá hver lá rúminu. Oddur barði systur sína eftir áeggjan móður sinnar svo hún hlaut bana af. Þetta gramdist Jóni svo að hann kvað Tímarímu.

 

Jón Sigurðsson Dalaskáld var áleitinn í kveðskap. Einu sinni þegar hann gekk framhjá tjaldi Páls lögmanns Vídalíns á Alþingi og hattur lögmanns hékk á tjaldsúlunni mælti hann:

    

Margir brúka menn hér hött,

mest þá skartið þvingar;

eiga skylt við urðarkött

allir Norðlendingar.

 

Páll spretti af skörum og kvað í móti;

    

Kauðinn sá sem kvæði spjó

ketti er skyldur blauða;

honum var nær að sækja í sjó

Sigurð þann hinn dauða.

Seinna lofaðist Jón Helgu Jónsdóttur heimasætu á Stóra-Vatnshorni í Haukadal. Áður en Jón hélt seinast manntalsþing að Jörfa (1720), kom hann að Vatnshorni og ætlaði að hitta Helgu, en hún vildi ekki láta hann sjá sig því maður að nafni Egill kotruvinningur hafði barnað hana. Jón grunaði hvernig ástatt var svo hann hljóp í veg fyrir Helgu og kvað;

    

Lofaður mér að líta´ á þig,

láttu nú ekki svona.

Er það svo, sem uggir mig,

að orðin sértu kona?

 

Jón reið þá á þingið, en þegar hann reið af því kvað hann;

    

Lífið er í herrans hönd,

hvað skal hér til segja.

Að láni höfum allir önd,

eitt sinn skulum deyja.

 

Jón vildi komast sem fyrst til Vatnshorns og reið Haukadalsá á vaðleysu og drukknaði í þeirri ferð. Þingmenn náðu líki Jóns og báru það í kirkju á Vatnshorni.

Jón sonur þeirra Helgu og Egils varð bóndi á Stóra-Vatnshorni og varð afar kynsæll. Egill barnsfaðir Helgu fór til Vestfjarða. Helga giftist síðar Magnúsi Einarssyni á Jörfa. Þau voru barnlaus og skildu. Helga stóð fyrir búi á Jörfa í 40 ár.