Dalir og Hólar 2010 – ferðateikningar

Dalir og Hólar 2010 – ferðateikningar er myndlistarsýning í Dölum og Reykhólahreppi 24. júlí til 8. ágúst 2010.
Sýningin kallast á við sýningarnar Dalir og Hólar 2008 og 2009 að því leyti að hún hefur að markmiði að taka þátt í mannlífi svæðisins, efna til samstarfs við heimamenn og leiða sýningargesti í ferðalag um þetta fjölbreyta og fallega svæði. En hún kallast jafnframt á við ákveðna alþjóðlega hefð innan myndlistarinnar. Það sem listamennirnir sýna er nokkuð sem kalla mætti ferðateikningar; teikningar sem skrásetja eða segja frá ferðalagi á einhvern hátt – hugleiðing, hugmynd eða raunveruleg ferð sýnd- fjalla um ferðalagið og/eða staðina sem farið er til.
Grundvöllur sýningarinnar er þannig í anda ákveðinnar hefðar sem listamenn eins og Collingwood og Ásgrímur Jónsson voru hluti af svo dæmi sé tekið, en báðir gerðu þeir teikningar á ferðum sínum um landið. Hjá sumum listamönnum sem unnu í anda þessarar hefðar var þetta undirbúningur fyrir stærri verk, aðrir voru e.t.v einungis að festa útsýnið í minni sér og hjá enn öðrum var þetta fag og fjölmiðlun; gerðar voru ætingar eftir teikningum þeirra og þær prentaðar í ferðabókum eða dagblöðum sem fjölluðu um viðkomandi lönd eða svæði. Í myndlist og bókmenntum á 20. og 21. öld hefur ferðalagið hins vegar oft yfirfærða merkingu; þá er ferðalagið ekki endilega áþreifanlegt en hefur vísun í huglægt ástand eða tilfærslu.
Við Breiðafjörð og í Dölum hafa margir listamenn sögunnar og samtíðarinnar slitið bernskuskóm eða unnið lífsverk sitt. Svæðið býr yfir fjölskrúðugri náttúru, fjölbreyttu dýralífi, menningu og sögu, sem enn er ótæmandi uppspretta nýrra verka og nýsköpunar í listum.
Sýningarstjórn:
Kristinn G. Harðarson, Þóra Sigurðardóttir og Helgi Þorgils Friðjónsson.
Sýningarstaðir:
Ólafsdalur í Gilsfirði, Króksfjarðarnes, Nýp og Röðull á Skarðsströnd.
Sýningin er hluti af Nýpurhyrnu; viðburðafléttu á sviði lista og fræða: www.nyp.is/dalirogholar2010
Sýningin er styrkt af Menningarráði Vesturlands, Menningarráði Vestfjarða, Ólafsdalsfélaginu, Kulturkontakt Nord og Statens Kunstråd (DK).

Sýnendur:

Anna Guðjónsdóttir f. 1958

Kveikjan að verkum Önnu fyrir sýninguna Dalir og Hólar 2010 er m.a. bréf Collingwood til 11 ára gamallar dóttur sinnar, Dóru, sem hann skrifaði henni frá svæðinu við Breiðafjörð árið 1897. Anna Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík en býr og vinnur í Hamborg, Þýskalandi. Hún stundaði nám í Hochschule für Bildende Kunste þar sem aðaleiðbeinandi hennar var Franz Erhard Walter. Anna er stofnandi Gallerie für Landschaftskunst í Hamborg. Hún hefur reglulega tekið þátt í samsýningum og sýnt verk sín á einkasýningum í Evrópu og á Íslandi.

Anne Thorseth f. 1952

Verk Anne á sýningunni Dalir og Hólar 2010 eru út frá skissum og ljósmyndum sem Anne hefur unnið á gönguferðum sínum við Breiðafjörð. Anne hefur verið tíður gestur á Íslandi síðan 1994 og hefur nýtt áhrif frá landslagi og víðáttu í verkum sínum. Ferðalagið sem slíkt og gönguferðir á norðurslóðum – þ.á m. á fjalllendinu fyrir ofan Skarðsströnd – hafa orðið Anne viðfangsefni og drjúgur efniviður. Anne Thorseth býr og vinnur í Kaupmannahöfn. Hún hefur verið virk í myndlistalífi Kaupmannahafnar síðan hún lauk námi við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og hefur sýnt reglulega í Danmörku og víðar. Anne vinnur með málverk, teikningu, ljósmyndir og rými.

Dagbjört Drífa Thorlacius f. 1980

Vegna sýningarinnar Dalir og Hólar 2010 hefur Dagbjört lagt í ferðalag um sveitina – á kunnugar heimslóðir sínar – og teiknað unga bændur. Ferðalagið á sér stað í miðjum sauðburði þar sem, eins og gefur að skilja, eru miklar annir. Útkoman verður efni sýningarinnar. Dagbjört er uppalin í Dalasýslu og hún útskrifaðist frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2004. Dagbjört lauk kennsluréttindanámi frá LHÍ árið 2006.

Helgi Þ. Friðjónsson f. 1953

Fyrir sýninguna Dalir og Hólar 2010 hefur Helgi Þorgils unnið að 3 verkefnum: Hann hefur haft skissubókina með og skrásett ferð út í Breiðafjarðareyjar fyrstu helgina í maí, þegar hann hefur tínt egg og fleira gómsætt ásamt vinum og vandamönnum og gert veislu úr því. Annað verkefni er skrásetning rústa gamla bæjarins að Ytra-Felli á Fellsströnd í vinnubækur og þriðja verkefnið er skrásetning göngu frá Kjallaksstöðum yfir fjallveg, að kirkjunni á Skarði, Skarðsströnd. Helgi Þorgils Friðjónsson er fæddur og uppalinn í Búðardal og sveitum
Dalasýslu. Hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, The Free Academy, Den Haage, Hollandi og í Jan Van Eyck Academie, Maastricht, Hollandi.

Kristinn G. Harðarson f.1955

Kristinn sýnir teikningar gerðar á sl. þremur árum á ferðum hans um Dalasýslu og þá aðallega um Skarðsströnd og Gilsfjörð. Þetta eru landslagsmyndir unnar með vatnslit og ýmiss konar teiknáhöldum Þær eru
öðrum þræði tæki til þess að skoða hin ýmsu fyrirbæri í náttúrunni með athygli og njóta útiverunnar um leið. Undanfarin ár hefur Kristinn unnið innan hinnar raunsæju hefðar í myndlist, bæði hvað varðar stíl, frásagnaraðferðir og umfjöllunarefni. Oft eru þetta lýsingar og umfjallanir um umhverfið og þá oftar en ekki nærumhverfi listamannsins. Kristinn er menntaður í Myndlista og handíðaskóla Íslands og The Free Academy, Den Haag, Hollandi.

Kristín Rúnarsdóttir. f. 1984

Kristín hefur lagt ákveðna áherslu á teikningu í vinnu sinni. Meðal viðfangsefna hennar eru tengsl fagurfræði og hagnýti. Síðastliðin ár hefur hún unnið teikningar sem skírskota í hvers kyns útskýringarteikningar fyrir rými og kerfi, þ.e. hagnýtar teikningar af ýmsum gerðum sem hafa ákveðna fagurfræðilega eiginleika; einkennast af beinum línum og eru unnar með ákveðnum aðferðum auk þess að fela í sér sérhæfð táknkerfi sem tengjast viðfangsefninu hverju sinni. Teikningin er þá að vissu leyti notuð sem tæki til að skrásetja/kortleggja umhverfi og hugarheim. Kristín útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2009. Hún er virkur meðlimur í Gallerí Crymo við Laugaveg 41a, Reykjavík.

Þorri Hringsson f. 1966

Undanfarin ár hefur Þorri aðallega sótt myndefni sitt í Aðaldal í Þingeyjarsýslu þar sem hann hefur vinnuaðstöðu. Verkefni sýningarinnar Dalir og Hólar 2010 eru unnin út frá umhverfi Breiðafjarðar og nágrennis og er þetta í fyrsta skipti sem hann glímir við landslag utan Þingeyjarsýslunnar. Frá hugmynd til myndar er ferðalag, stundum stutt og stundum langt og stundum heldur ferðalagið áfram frá mynd til myndar þar sem ein mynd elur af sér aðra og þá sjaldnast í beinni línu eða rökréttu samhengi. Rétt eins og göngutúr í náttúrunni er myndlistin ferð sem á sér upphaf og endi en oftar en ekki er sá punktur langt frá þeim stað er lagt var upp frá. Þorri stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan Van Eyck Akademíuna.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei