Fjárhagsáætlun 2015-2018

Dalabyggð Fréttir

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árin 2015-2018 á fundi sínum 16. desember 2014.
Útsvarshlutfall árið 2015 verður jafnt leyfilegu hámarki skv. tekjustofnalögum nr. 30/1995 eða 14,52%.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts verður eftirfarandi skv. 3. gr. laga nr. 4/1995:
Skv. a-lið – 0,5% af álagningarstofni íbúðarhúsa, útihúsa og sumarbústaða ásamt lóðarleiguréttindum og jarðeigna.
Skv. b-lið – 1,32% af álagningarstofni opinbers húsnæðis.
Skv. c-lið – 1,5% af álagningarstofni allra annarra fasteigna og lóða. Þetta er óbreytt frá árinu 2014.
Lóðarleiga verður 1,7% af fasteignamati íbúðarhúsalóða og 2,0% af fasteignamati atvinnulóða sem einnig er óbreytt frá fyrra ári.
Viðmiðunarupphæðir vegna afsláttar aldraðra af fasteignaskatti og holræsagjaldi hækka um 5,7% skv. breytingu á launavísitölu.
Veittur verður 5% staðgreiðsluafsláttur til þeirra sem greiða öll fasteignagjöld og þjónustugjöld sem innheimt eru með fasteignagjöldum fyrir 15. febrúar.
Mötuneytisgjöld Auðarskóla verða óbreytt frá 2014 en aðrar gjaldskrár hækka almennt um 1,9% þar sem ekki eru ákvæði um annað í viðkomandi gjaldskrá. Þá liggur fyrir ný gjaldskrá fyrir slökkvilið og endurnýjuð gjaldskrá fyrir hundahald þar sem gert er ráð fyrir að ábyrgðartrygging, örmerking og hundahreinsun sé innifalin í árlegu gjaldi.
Gert er ráð fyrir að rekstarniðurstaða Dalabyggðar verði lítillega jákvæð á hverju ári á áætlunartímabilinu og að skuldahlutfall verði áfram um 70% og að fjárhagsleg viðmið sem sett eru fram í sveitarstjórnarlögum séu þannig uppfyllt. Til að þetta sé mögulegt þarf áfram að sýna töluvert aðhald í rekstri sveitarfélagsins.
Á árinu 2015 er gert ráð fyrir að heildartekjur A- og B- hluta sveitarsjóðs verði um 713 millj. kr. en heildargjöld án fjármagnsliða um 689 millj. kr. Fjármagnsliðir verða neikvæðir um 19 millj. kr. og rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 5 millj. kr. Gert er ráð fyrir að rekstarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 18 millj. kr.
Gert er ráð fyrir að fjárfesta fyrir um 25 millj. kr. og að ný lántaka verði einnig allt að 25 millj. kr. Gert er ráð fyrir að koma upp urðunarstað í landi Höskuldsstaða, ljúka stækkun tjaldsvæðis í Búðardal og koma upp nýju aðstöðuhúsi, halda áfram framkvæmdum við fráveitukerfi í hesthúsahverfi og endurnýja rotþró við Tjarnarlund. Um 2,5 millj. kr. fara til endurnýjunar búnaðar og innréttinga í Auðarskóla umfram hefðbundið árlegt viðhald og um 1,6 millj. kr. fara í endurnýjun búnaðar á íþróttavelli og búnaðarkaup fyrir félagsmiðstöð. Gert er ráð fyrir að endurnýja glugga og svalahurðir í annarri herbergjaálmu Silfurtúns ef mótframlag fæst frá Framkvæmdasjóði aldraðra.
Gert er ráð fyrir að veltufjárhlutfall verði 1,13, framlegðarhlutfall um 7% og handbært fé í árslok verði um 39 millj. kr.

Fjárhagsáætlun 2015-2017

Gjaldskrár

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei