Fyrsti útkallsbíllinn sérsmíðaður á landinu með One-Seven kerfi.

Fyrr í vikunni var skrifað undir samning við SUT ehf., Selfossi, vegna kaupa á útkallsbíl fyrir slökkvilið Dalabyggðar. Hér mun vera um að ræða bíl með svokallað One-Seven kerfi sem er tvöfalt froðukerfi.
Útkallsbíllinn mun verða nýttur sem fyrsti bíll á vettvang við hvers konar bílslys, eld eða eitrunarslys. Útkallsbíll með froðukerfi sem þetta mun henta afar vel í dreifðum byggðarlögum s.s. Dalabyggð þar sem fjarlægðir eru miklar og því nauðsynlegt að stytta viðbragðstíma sem mest. Með kaupum á þessum útkallsbíl er leitast við að stytta viðbragðstímann með öflugum búnaði og liprum útkallsbíl. Í bílnum er öflugt tvöfalt froðukerfi sem margfaldar slökkvimátt bílsins miðað við efnisnotkun hefðbundinna kerfa nánast án nokkurrar mengunar af völdum froðunnar.
Í umsögn Björns Karlssonar hjá Brunamálastofnun um slökkvibifreiðina segir m.a: ,,Um er að ræða slökkvibifreið af gerðinni Ford F450 með tvöföldu húsi. Því er pláss fyrir 2+2 reykkafara eða 1+3 reykkafara í bílnum. Mesta leyfða heildarþyngd bílsins er 7.257 kg. Vélin er 6,0L 325 hp V8 Turbo Intercooler Diesel vél (243 kW), 772 Nm við 2.000 snúninga, sem þýðir 22 kg á hestafl fyrir fullhlaðinn bíl. Bíllinn er því með mjög öfluga vél miðað við þyngd. . . vatnstankurinn er 1.000 lítra, tveir froðutankar eru í bílnum, A froða 60 lítrar og B froða 40 lítrar. Í bílnum er ONE-SEVEN OS2400 kerfi. . . Slökkvibifreiðin er búin sérstöku One-Seven froðukerfi sem er mjög hentugt þar sem erfitt er að ná í slökkvivatn.” 1.000 lítrar vatns er sama og 8.000 lítrar af slökkviefni.
Ennfremur er í bílnum 4,97 rúmmetra skápapláss sem nýtist meðal annars fyrir klippu- og glennubúnað sem notaður er til að ná fastklemmdu fólki út úr bílum vegna umferðarslysa og við ýmis slík björgunarverkefni.
Bíllinn er hannaður og smíðaður af SUT ehf. á Selfossi. Stefnt er að því að hann verði afhentur í mars næstkomandi.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei