Haustfagnaður FSD laugardag

Dalabyggð Fréttir

Eftir vel heppnaða hrútasýningu á Valþúfu og sviðaveislu á Laugum verður haustfagnaði fram haldið í dag, laugardag.
Dagurinn hefst á lambhrútasýningu í Bæ í Miðdölum kl. 10 þar sem rjóminn af hrútum Suðurdalamanna verður sýndur. Og í íþróttahúsinu á Laugum hefst á sama tíma opna hrútamótið í innanhússknattspyrnu á sama tíma.
Reiðhöllin í Búðardal verður síðan opnuð kl. 13, en í millitíðinni hefur gestum vonandi gefist kostur á að finna eitthvað að snæða á þeim veitingastöðum sem er að finna í Búðardal.
Hönnunarkeppni FSD og Ístex, handverks- og heimavinnslumarkaður, vélasýningar, barnadagskrá, ullarvinnsla, veitingasala og fleira hefst um kl. 13.
Íslandsmeisstarmótið í rúningi hefst um kl. 14 og stefnir í spennandi keppni, enda 15 keppendur skráðir og þar af margir heimamenn.
Ullarmatskynning hefst um kl. 14:30 eftir að fyrstu reifin fara að skila sér frá rúningsmönnunum. Um kl. 16 verða úrslit kynnt í hönnunarkeppninni og úrslit í rúningsmótinu ættu að vera kunn. Og þá er enn ónefndur bændafitness.
Haustfagnaði FSD lýkur síðan með grillveislu í Dalabúð kl. 18:30 þar sem verður boðið upp á grillað lambakjöt. Þá verða verðlaunaafhendingar fyrir bestu lambhrútana og bestu fimm vetra ærnar í héraði. Að lokum verður stórdansleikur með Hvanndalsbræðrum.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei