Héraðsskjalasafn Dalasýslu

Dalabyggð Fréttir

Athygli er vakin á skilaskyldu á skjölum sveitarfélaga og sóknarnefnda til Héraðsskjalasafns Dalasýslu. Sama gildir um embætti, stofnanir og fyrirtæki á vegum þessara aðila.
Þeir sem hafa í fórum sínum skjöl tengd hrepps- eða sóknarnefndum eru beðnir um að skila þeim hið fyrsta til héraðskjalasafns, núverandi sóknarnefnda eða skrifstofu Dalabyggðar.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu tekur einnig á móti skjölum og gögnum frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum á starfsvæðinu. Þannig eru varðveitt á héraðsskjalasafninu skjöl ungmennafélaga, íþróttafélaga, kvenfélaga, búnaðarfélaga, kaupfélaga og fleiri.
Mörg skjalasöfn félagasamtaka eru varðveitt við misjafnar aðstæður og oft á tíðum í heimahúsum stjórnarmanna, núverandi og fyrrverandi. Þeir sem hafa í fórum sínum skjöl félagasamtaka er bent á að koma þeim í vörslu héraðskjalasafnsins eða núverandi stjórnar félagsins.
Með skjölum er átt við fundagerðabækur, sendibréf, tölvupóst, ljósmyndir, félagaskrár, mótaskrár, ársskýrslur, reikningar, kynningarefni og annað markvert tengt sögu viðkomandi.
Héraðsskjalasöfn veita almenningi aðgang að skjölum nema á þeim hvíli leynd samkvæmt lögum eða sérstökum ákvæðum þar að lútandi.
Verið er að vinna í því að gera aðfangaskrár safnsins aðgengilegar á heimasíðu Dalabyggðar. M.a. er þar að finna upplýsingar um skjöl ungmenna- og íþróttafélaga.
Engir fastir opnunartímar eru á Héraðsskjalasafni Dalasýslu, heldur er það opið eftir samkomulagi við héraðsskjalavörð. Netfangið er safnamal@dalir.is og síminn 430 4700.

Héraðskjalasafn Dalasýslu

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei