Jarðir í Dalabyggð

Dalabyggð Fréttir

Fjármálaráðuneytið hefur fengið frest til 1. mars 2015 til að skila kröfum í þjóðlendur í Dalasýslu, Snæfellsnessýslu, og fyrrum Bæjar-, Broddanes- og Kolbeinsstaðahreppum. Áður hafa komið kröfur í hluta af jörðum Dalamanna er liggja í Mýrasýslu.
Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 18. nóvember 2014 var samþykkt að starfshlutfall héraðsskjalavarðar yrði aukið tímabundið til að athuga hvað væri til af gögnum sem sannað gætu eignarrétti á landi í Dalabyggð.
Almennt eru þessi gögn ekki varðveitt á héraðsskjalasöfnum, heldur á Þjóðskjalasafni Íslands og er hluti þeirra aðgengilegur á jarðavefnum. Til að auðvelda leit í landamerkjabókum hefur Héraðsskjalasafn Dalasýslu gert nafnaskrá yfir þær jarðir sem landamerki eru skráðar í þær bækur.
Þá er verið að vinna heimildaskrá um landamerki, örnefni, nytjar og fleira tengt jörðum í Dalabyggð. Sú skrá ætti að nýtast varðandi þjóðlendumál. En einnig til að svara fjölda fyrirspurna árlega varðandi landamerki og fleira tengt nýtingu jarða í sveitarfélaginu. Er þessi heimildaskrá uppfærð eftir því sem tími gefst til að vinna í henni.
Heimildir tengdar landamerkjum, örnefnum og nýtingu jarða er að finna á heimasíðu Héraðsskjalasafns Dalasýslu hér á vef Dalabyggðar. Allar ábendingar, leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar á netfangið safnamal@dalir.is.
Að öðru leyti verður þess beðið að fjármálaráðuneytið skili kröfum sínum 1. mars og áframhaldandi vinna skipulögð í samræmi við þær kröfur.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei