Laugafjör

UDN stóð fyrir samveruhelgi (undir heitinu „Laugafjör”) fyrir börn og unglinga á sambandssvæðinu um síðustu helgi að Laugum í Sælingsdal.
UDN (Ungmennasamband Dalamanna og norður Breiðfirðinga) bauð öllum grunnskólanemum í 5 – 10 bekk í Dalabyggð og Reyhólahreppi að taka þátt í samverustund í sólarhring að Laugum í Sælingsdal 26.-27. janúar sl. Þessi samvera var ekki hugsuð sem íþróttakeppni, heldur meira sem tækifæri fyrir krakkana af svæðinu til að kynnast og leika sér saman við spil, sund og leiki, m.a. boltaleiki, badminton og hanaslag. Alls tóku 62 nemendur þátt í dagskránni í lengri eða skemmri tíma en það eru 75% af heildarfjölda nemenda þeirra bekkja.
Börnin mættu að Laugum kl. 16:00 á föstudegi og var þeim strax skipt upp í þrjá hópa og fór einn hópur í leiki utandyra, annar í boltaleiki o.fl. í íþróttasal og þriðji settist við ýmsar gerðir af spilum. Eftir kvöldmat fóru allir í sundlaugarparty með diskómúsik og tilheyrandi ljósagangi. Að loknu sundi var gott að fá kvöldhressingu áður en farið var í karokí, borðtennis o.fl. fyrir háttinn. Allir krakkarnir voru virkir í hópastarfinu og skemmtu sér vel þó misjafnlega gengi, en sundlaugarpartýið er eitt af því sem þau segja að verði ógleymanlegt.
Flestir nemendurnir gistu á staðnum um nóttina til að vera klár í slaginn strax eftir morgunmat á laugardegi, en nokkrir ákváðu að sofa frekar heima. Á laugardagsmorgun þá hélt hópastarfið áfram og þau fóru aftur í sömu hópa, en í næstu tvö verkefni. Eftir hádegisverð fengu krakkarnir síðan að velja hvort þau vildu fara í sund, badminton eða slappa af í tómstundaherbergi.
Stjórn UDN ásamt starfsmönnum Ungmenna- og tómstundabúðanna að Laugum og nokkrum foreldrum sáu um framkvæmd dagskrár og gæslu og gekk verkefnið framar björtustu vonum og stóðu krakkarnir sig allir með stakri prýði.
Það voru glaðir en þreyttir krakkar sem fóru heim um kaffileytið eftir stanslausa keyrslu í einn sólarhring mörg þeirra spurðu hvort svona helgi yrði ekki örugglega endurtekin fyrr en síðar.

Myndir frá helginni er hægt að skoða undir „Myndir > Laugafjör janúar 2007” hér á vef Dalabyggðar.
Margrét Jóhannsdóttir,
ritari UDN.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei