Lillulundur og Grænfáninn

Dalabyggð Fréttir

Fimmtudaginn 12. september kl. 17:15 bjóða Ungmenna- og tómstundabúðirnar Dalamönnum og öðrum áhugasömum að koma og fagna með þeim afhendingu Grænfánans og vígslu Lillulundar að Laugum í Sælingsdal.
Ungmenna- og tómstundabúðirnar hafa verið skóli á grænni grein síðan í nóvember 2010 og núna höfum við stigið „skrefin sjö“ og því unnið til alþjóðlegrar viðurkenningar, Grænfánans, sem staðfestingu á góðum ásetningi og virku í umhverfisverndarstarfi.
Gerður Magnúsdóttir verkefnastjóri „Skólar á grænni grein“ Grænfánaverkefnis Landverndar afhendir fánann og verður Grænfáninn dregin að húni kl. 17:15.
Undanfarnar vikur hefur hópur frá sjálfboðaliðasamtökunum Seeds verið á Laugum að vinna í útisvæðinu. Búið er að endurbæta svæðið og bæta við mikado braut, setja bekk og önnur spennandi útiverkefni.
Útisvæðið hefur hlotið nafnið Lillulundur í minningu Lillu á Hofakri, Guðrúnar Aðalheiðar Aðalsteinsdóttur 1940-2011. Verður formleg vígsla eftir að Grænfánanum hefur verið flaggað.
Boðið verður upp á skúffuköku og kakó í tilefni dagsins og starfsmenn Ungmennabúðanna verða með leiki og verkefni á útisvæðinu að vígslu lokinni.
Sælingsdalslaug verður opin frá kl. 15:30 – 20:00 og verður ókeypis í sund í tilefni dagsins.
Dalamenn eru sérstaklega hvattir til koma, sjá Lillulund og samgleðjast okkur.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei