Seinkun á útsendingu greiðsluseðla fasteignagjalda

Að sögn innheimtufulltrúa Dalabyggðar, Margrétar Jóhannsdóttur, verður einhver seinkun á útsendingu álagningarseðla fasteignagjalda og greiðsluseðla fyrsta gjalddaga fasteignagjalda vegna tafa frá Fasteignamati ríkisins (FMR) við uppsetningu og frágang nýs tölvukerfis þar á bæ. Mun þetta eiga við flest sveitarfélög á landinu.
Hjá FMR er verið að taka í notkun nýtt tölvukerfi sem hlaða þarf öllum forsendum álagningarinnar inn í áður en álagning er möguleg, þ.e.a.s. upplýsingum um allar fasteignir í sveitarfélaginu og hvaða gjöld fylgja hverri eign o.fl. gögnum. Mikil handavinna fylgir þessu við að yfirfara flutt gögn, leiðrétta og bæta inn upplýsingum svo álagningin megi vera sem réttust.
Á síðustu árum hefur álagningin og framkvæmd hennar verið unnin heima í hverju sveitarfélagi fyrir sig en er nú komin undir einn hatt hjá FMR þar sem hönnunarvinna á nýja tölvukerfinu hefur verið í gangi frá því snemma á síðasta ári. Vonir standa til að allri undirbúningsvinnu álagningarinnar ljúki snemma í febrúarmánuði.
Við breytingu sem þessa á tölvukerfum þarf jafnframt að gæta þess að samvirkni ýmissa kerfa virki rétt með nýja tölvukerfinu hjá FMR. Er hér um að ræða tölvukerfi sem skiptast á upplýsingum vegna innheimtu gjaldanna, s.s. við innheimtukerfin, banka, og bókhald.
Þessi seinkun mun hvorki valda breytingu á gjalddaga né eindaga fyrsta hluta álagningarinnar að sögn Margrétar.
Forsendur álagningarinnar, þ.e. prósentur og krónutölur er hægt að skoða á vef Dalabyggðar (www.dalir.is) og þar undir „Stjórnsýsla > Gjaldskrár > Álagning 2007”.
25. janúar 2007,
Finnbjörn Gíslason finnbjorn@dalir.is.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei