Staðreyndir fela raunveruleikann um hjúkrunarrými

5. desember 2006 var birt frétt á netsíðu Skessuhorns með fyrirsögninni „Flest hjúkrunarrými á íbúa í Dalabyggð”. Í fréttinni segir m.a. „Flest hjúkrunarrými á hverja þúsund íbúa eru í Dalabyggð eða 49,5 talsins. Þetta kemur fram í svari Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar þingmanns Samfylkingarinnar. Þingmaðurinn spurði um hversu mörg hjúkrunarrými væru í landinu á hverja þúsund íbúa, skipt eftir sveitarfélögum og hvert landsmeðaltalið væri. . .”
Væntanlega er þessi fjöldi hjúkrunarrýma rétt reiknaður sé miðað við ‘kerfismál’ ráðherra þar sem talað er um þjónustuhóp Dalabyggðar. Það sem villir um fyrir lesendanum er það að í þjónustuhópi Dalabyggðar er annars vegar sveitarfélagið Dalabyggð og hins vegar Reykhólahreppur, sem ítrekað hefur hafnað sameiningu við Dalabyggð þegar um það hefur verið kosið. Það sem villir ennfremur fyrir lesendanum er það til hvers rýmin eru ætluð og hve mörg rými eru í raun nýtt.
Staðreyndirnar eru þessar: Áætlaður íbúafjöldi 1. október 2006, skv. Hagstofu Íslands, er 689 í Dalabyggð og 239 í Reykhólahreppi eða samtals 928 íbúar í þessum tveimur sveitarfélögum.
Í Dalabyggð eru tvö hjúkrunarheimili með algjörlega aðskylda markhópa. Annars vegar er Dvalarheimilið Silfurtún með 7 hjúkrunarrými ætluð til öldrunarþjónustu og hins vegar Hjúkrunarheimilið Fellsendi með 28 hjúkrunarrýmum sem eru svo vitnað sé til Þórðar Ingólfssonar héraðslæknis: „. . . sérhæfð fyrir miðaldra og aldraða geðsjúklinga sem koma allstaðar að af landinu. Þessi rými eru ekki á nokkurn hátt sérstaklega ætluð íbúum Dalabyggðar og þjónustuhópur aldraðra í Dalabyggð og Reykhólahreppi hefur ekkert með innlagnir þar að gera. Þar fyrir utan má taka fram að á Fellsenda eru ekki nema 18 rými nýtt enn sem komið er af því að stofnunin er nýflutt í nýtt og glæsilegt húsnæði sem vissulega rúmar 28 vistmenn (miðað við 17 í gamla húsinu) en ekki stendur til að fjölga íbúum nema smám saman um leið og starfsfólki fjölgar og þjónustan verður aukin.” Í Reykhólahreppi er Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð með 13 hjúkrunarrýmum.
Samtals gerir þetta því 48 hjúkrunarrými í þessum tveimur sveitarfélögum en af þeim eru aðeins 7 í sveitarfélaginu Dalabyggð sem eyrnamerkt eru fyrir öldrunarþjónustu. Sé þessi fjöldi öldrunarrýma uppreiknaður m.v. þúsund íbúa í Dalabyggð þá er fjöldinn 10,16 í sveitarflaginu. Þessi fjöldi er u.þ.b. sá sami og í Grundarfirði sem er með 10,30 hjúkrunarrými og aðeins yfir landsmeðaltalinu sem er 8,50 samkvæmt frétt Skessuhorns. Í sveitarfélögunum tveimur, Reykhólahreppi og Dalabyggð, eru samanlagt 21,55 hjúkrunarrými ætluð öldrunarþjónustu m.v. þúsund íbúa, en sé aðeins Reykhólahreppur uppreiknaður m.v. þúsund íbúa þá eru þar 54,39 hjúkrunarrými sem er tæplega sjö sinnum hærra en landsmeðaltalið.
Svona er auðvelt að leika sér með staðreyndir til að fela raunveruleikann án þess að segja á nokkurn hátt frá þörfinni eins og hún er sannleikanum samkvæmt.
Dvalarheimilið Silfurtún í Búðardal hefur sótt um að fá 8 dvalarrýmum sem þar eru breytt í hjúkrunarrými vegna brýnnar þarfar í sveitarfélaginu Dalabyggð. Því geta staðreyndir sem settar eru fram á Alþingi á verulega villandi hátt spillt fyrir framgangi þessarar umsóknar.
F.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar,
Gunnólfur Lárusson,
sveitarstjóri.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei