Ungmennaráð Dalabyggðar

Dalabyggð Fréttir

Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti erindisbréf fyrir ungmennaráð Dalabyggðar á fundi sínum 15. nóvember.
Ungmennaráð er skipað samkvæmt 11. grein æskulýðslaga nr. 70/2007 og heyrir undir fræðslunefnd.
Hlutverk ungmennaráðs er að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu og koma skoðunum og tillögum ungs fólks til skila til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagins.
Ungmennaráð á þannig að veita ungu fólki fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum, efla tengsl ungmenna í sveitarfélaginu og við stjórnkerfi sveitarfélagins.
Í ungmennaráði eiga sæti þrír aðalfulltrúar og þrír varafulltrúar á aldrinum 14 – 20 ára. Þeir eru skipaðir til eins árs í senn og geta í mesta lagi setið samfellt í tvö ár.
Stjórn UDN velur fjóra fulltrúa, tvo aðalmenn og tvo varamenn og nemendafélag Auðarskóla velur tvo fulltrúa, einn aðalmann og einn varamann fyrir 15. september ár hvert.
Fræðslunefnd staðfestir val í ungmennaráð á reglulegum fundi í október ár hvert. Ungmennaráð Dalabyggðar starfar með og undir leiðsögn fræðslunefndar. Formaður fræðslunefndar er tengiliður við sveitarstjórn og er til aðstoðar ef þurfa þykir.
Auk kjörinna fulltrúa eiga formaður fræðslunefndar og sveitarstjóri rétt á að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.
Ekki hefur enn verið skipað í ráðið.

Erindisbréf fyrir ungmennaráð Dalabyggðar

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei