Vorferð Stíganda

Dalabyggð Fréttir

Ferðasaga frá skátafélaginu Stíganda.

Það voru 42 ferðafélagar; skátar, foreldrar og aðrir gestir sem tóku þátt í vorferðinni okkar, sem hófst kl. 10 á annan í hvítasunnu. Ákveðið var að skoða sig um í heimabyggð, finna leynda staði og njóta þess að vera saman.
Eins og í öðrum ferðum okkar nutum við góðvildar Sveins á Staðarfelli með rúturnar og stýrði hann annarri þeirra og Binni var bílstjóri á hinni.
Fyrsta stopp var við Skuggafoss, sem liggur falinn, spotta frá veginum. Flottur foss sem gaman var að sjá. Þá ókum við leið sem heitir Efribyggðarvegur, við stoppuðum þar og nutum útsýnisins yfir á Snæfellsnes og Snæfellsjökull skartaði sínu fegursta.
Við tókum nestispásu í Ytrafellsskógi, þar var mikil blíða. Drekaskátar stjórnuðu leikjum.
Þá lá leiðin að Dagverðarnesi. Vegslóði liggur út á nesið og þar er kirkja sem heitir Dagverðarneskirkja. Selma Kjartansdóttir sem er formaður sóknarnefndar tók á móti okkur og sagði okkur sögur frá því að hún var barn og ólst upp í Langey. Staðurinn hefur verið í eyði síðan 1980. Í kirkjunni er messað einu sinn á ári. Selma kom einu sinni á ári til messu sem barn og var það um sumar. Þetta voru hátíðarstundir og mikil tilbreyting fyrir eyjaskeggja.
Að lokinni dvöl á Dagverðarnesi stoppuðum við hjá Klofningi og skoðuðum útsýnisskífuna. Trausti Bjarnason á Á beið okkar á Skarðsströndinni og fór með okkur í kolanámurnar á Tindum sem hann vann í árið 1954. Þær voru að mestu starfræktar það eina ár. Það liggja enn þó nokkuð að minjum um starfsemi kolanámanna í fjöruborðinu og hluti af bryggjunni stendur enn.
Síðasta stoppið okkar var Laugar. Þar fengu allir að fara í sund í góða veðrinu og að lokum grillaði Binni pylsur ofan í mannskapinn. Helga og Anna kvöddu skátana og þökkuðu þeim fyrir góðan vetur. Um klukkan 18 voru allir á leið heim eftir vel heppnaða vorferð um Strandir.
Skátafélagið þakkar öllum þeim sem löguð okkur lið við þessa ferð kærlega fyrir.
Stjórn og foringjar skátafélagsins Stíganda í Dalabyggð
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei