Til bakaPrenta
Umhverfis- og skipulagsnefnd Dalabyggðar - 108

Haldinn í stjórnsýsluhúsinu í Búðardal,
02.10.2020 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Hörður Hjartarson formaður,
Bjarnheiður Jóhannsdóttir ritari,
Ragnheiður Pálsdóttir varaformaður,
Vilhjálmur Arnórsson aðalmaður,
Jón Egill Jónsson aðalmaður,
Þórður Már Sigfússon Skipulagsfulltrúi,
Grettir Örn Ásmundsson byggingarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Þórður Már Sigfússon, Skipulagsfulltrúi


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2005008 - Fjárhagsáætlun 2021 - 2024
Rafræn drög fjárhagsáætlunar Dalabyggðar tímabilið 2021 - 2024.
Ingibjörg Jóhannsdóttir, bókari sveitarfélagsins, kom og útskýrði þann hluta fjárhagsáætlunar sem snýr að umhverfis- og skipulagsmálum Dalabyggðar. Athugasemd var gerð við þann hluta er snýr að kostnaði í tengslum við svæðisskipulagsvinnu en ráðgert er að svæðisskipulagsnefnd, sem Dalabyggð er aðili að, fundi á komandi misserum með tilheyrandi kostnaði.
2. 2003023 - Áætlun um refaveiðar 2020-2022
Áætlun um refaveiðar 2020-2022 sem hluti af fjárhagsáætlun.
Nefndin gerir athugasemd við að greiðslur til veiðimanna fyrir veidd dýr hafi staðið í stað í tæplega tvo áratugi. Kostnaður veiðimanna hefur á sama tíma haldið í við verðlag og veiðar standa því ekki undir kostnaði. Nefndin beinir því til sveitarstjórnar og Umhverfisstofnunar að þetta þarfnist endurskoðunar.

Vegna friðunar á refastofninum norðan við Dalabyggð hefur ágangur refa stóraukist í sveitarfélaginu. Eðlilegt væri að auka kvóta veiddra dýra í samræmi við það.

Nefndin bendir á að endurgreiðsluhlutfall Umhverfisstofnunar er ekki í samræmi við núverandi stærð sveitarfélagsins og breyttar aðstæður.

Nefndin telur eðlilegt að Náttúrufræðistofnun Íslands standi straum af þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirra sýna sem stofnunin kallar eftir.

Nefndin bendir á að vegna breyttra aðstæðna með minkasíur þarf að endurskoða verklag um minkaveiðar þar sem meira er farið að sjást af mink á svæðinu.
Hörður og Vilhjálmur viku af fundi undir þessum lið og Viðar Ólafsson sat fundinn undir þessum lið.
3. 2009014 - Ósk um umsögn v.breytingar aðalskipulags og nýs deiliskipulags í Reykhólahreppi
Óskað er eftir umsögn við tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018 og nýs deiliskipulags vegna vatnsaflsvirkjunar í Garpsdal í samræmi við 31. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við auglýsta tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018 og nýs deiliskipulags vegna vatnsaflsvirkjunar í Garpsdal.
4. 2003042 - Hróðnýjarstaðir - breyting á aðalskipulagi vegna vindorkuvers
Þann 22. júní sl. samþykkti sveitarstjórn að aðalskipulagsbreytingin skuli auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eftir yfirferð skipulagsgagna beinir Skipulagsstofnun því til sveitarfélagsins að bíða með að auglýsa tillögu að aðalskipulagsbreytingu þar til tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu hefur verið lögð fram til kynningar. Þannig geti sveitarstjórn kannað hvernig stefna og skipulagsákvæði um vindorkuver á Hróðnýjarstöðum samræmast henni og brugðist við af tilefni. Stefnt er að því að viðauki við landsskipulagsstefnu verði auglýst í haust og verður þá til kynningar í 8 vikur.
Til að forðast allan tvíverknað, kostnað og tafir í ferlinu leggur nefndin til við sveitarstjórn að farið verði eftir beiðni Skipulagsstofnunar um að bíða með auglýsingu skipulagstillögunar, þar til viðauki landsskipulagsstefnu liggur fyrir til kynningar.
5. 2003041 - Sólheimar - breyting á aðalskipulagi vegna vindorkuvers
Þann 22. júní sl. samþykkti sveitarstjórn að aðalskipulagsbreytingin skuli auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eftir yfirferð skipulagsgagna beinir Skipulagsstofnun því til sveitarfélagsins að bíða með að auglýsa tillögu að aðalskipulagsbreytingu þar til tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu hefur verið lögð fram til kynningar. Þannig geti sveitarstjórn kannað hvernig stefna og skipulagsákvæði um vindorkuver á Sólheimum samræmast henni og brugðist við af tilefni. Stefnt er að því að viðauki við landsskipulagsstefnu verði auglýst í haust og verður þá til kynningar í 8 vikur.
Til að forðast allan tvíverknað, kostnað og tafir í ferlinu leggur nefndin til við sveitarstjórn að farið verði eftir beiðni Skipulagsstofnunar um að bíða með auglýsingu skipulagstillögunar, þar til viðauki landsskipulagsstefnu liggur fyrir til kynningar.
6. 2010005 - Ytra-Fell - óveruleg breyting á deiliskipulagi
Eigendur Ytrafells óska eftir leyfi til að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í Ytra-Felli. Breytingin felst í minnkun lóðar og stækkun byggingarreits. Lóð (nr. 2) minnkar úr 1,3 ha í 1 ha og byggingarreiturinn á henni stækkar lítillega.
Nefndin metur það svo að um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi og er því ekki talin ástæða til meðferðar málsins skv. 1. mgr. 5.8.1. gr. skipulagsreglugerðar. Jafnframt eru allir hagsmunaaðilar (landeigendur) samþykkir þessari breytingu og er því ekki þörf á grenndarkynningu. Hins vegar liggja ekki fyrir öll gögn í málinu og óskar nefndin eftir ítarlegri gögnum sem lúta að óverulegri breytingu á deiliskipulagi og undirskrift/samþykki allra landeigenda.
7. 2009017 - Endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar
Sveitarstjórn Borgarbyggðar óskar eftir umsögn við skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun aðalskipulag Borgarbyggðar.

Umhverfis- og skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu fyrir endurskoðun Borgarbyggðar.
8. 2010004 - Fremri-Hrafnabjörg - umsókn um byggingarleyfi fyrir frístundahús
Veiðifélag Hörðudalsár sækir um byggingarleyfi fyrir Frístundahús í landi Fremri-Hrafnabjarga.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið og felur byggingarfulltrúa að afgreiða málið.
Hörður vék af fundi undir þessum lið.
9. 2009022 - Tilboð í sorptunnuskýli og festingar
Íbúar hafa leitað til sveitarfélagsins vegna komandi breytinga á sorptunnukerfi. Óskað er eftir því að leitað verði tilboða eða afsláttar vegna kaupa íbúa á sorptunnuskýlum og/eða festingum þar sem sorptunnum verður fjölgað með nýju fyrirkomulagi.
Nefndin tekur vel í erindið og leggur til að sveitarstjórn kalli eftir tilboði frá sorphirðuaðila þegar hann hefur verið valinn.
10. 2009030 - Deiliskipulag í landi Hróðnýjarstaða
Storm Orka ehf. óskar eftir að hefja vinnu að tillögu að deiliskipulagi fyrir vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða í samræmi við áætlanir fyrirtækisins um uppbyggingu vindorkuvers á jörðinni.

Tillaga að deiliskipulagi yrði unnin í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 þar sem afmarkað er iðnaðarsvæði fyrir vindorkuver á jörð Hróðnýjarstaða.

Storm Orka telur ekki þörf á vinnslu lýsingar á deiliskipulagi þar sem allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi, í samræmi við 5.2.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.

Óskað er eftir afstöðu sveitarstjórnar varðandi gerð lýsingar deiliskipulags.

Nefndin leggst ekki gegn því að hafin verði vinna að nýju deiliskipulagi í landi Hróðnýjarstaða en bendir á að nýtt deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að breyting á aðalskipulagi hefur öðlast gildi.
11. 2010003 - Umsókn um niðurrif útihúsa á Staðarhóli
Sótt er um leyfi fyrir niðurrifi útihúsa á Staðarhóli.
Nefndin leggst ekki gegn framkvæmdunum en bendir á að förgun skal vera í samræmi við lög og reglugerðir.
12. 2010002 - Innri-Fagridalur - umsókn um stofnun lóðar
Sótt er um að stofna lóð úr landi Innri-Fagradals.
Nefndin gerir ekki athugasemdir við erindið.
13. 2009031 - Framlenging á stöðuleyfi
Storm Orka ehf. leggur fram ósk um framlengingu á stöðuleyfi fyrir vindmælingamöstur í landi Hróðnýjarstaða. Núgildandi leyfi rennur út 25. október.

Ástæða þess að þörf er á framlengingu leyfis er að sökum veðurs reyndist ekki unnt að koma möstrunum upp eins fljótt og áætlað var og dróst verkið því talsvert.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að stöðuleyfi fyrir vindmælingamöstur í landi Hróðnýjarstaða verði framlengt um eitt ár, frá 25. október 2020 til 25. október 2021.
Mál til kynningar
14. 2009018 - Hvalreki við Álftafjörð
Lagt fram til kynningar.
15. 1904034 - Sorphreinsun - útboð 2020 - 2022
Opnunarskýrsla lögð fram til kynningar þar sem m.a. kom fram að útboð voru opnuð 18. september sl. og tók sveitarstjórn ákvörðun um það 28. september að taka hagstæðasta tilboðinu.
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:00 

Til bakaPrenta
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei