Reglur Dalabyggðar um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum skólaárið 2020 – 2021

Í fjáraukalögum fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020, nr. 36/2020, um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins, var samþykkt 600 m.kr. framlag til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir.

Reglur þessar gilda um úthlutun sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja í Dalabyggð.

 

1. gr.
Börn fædd á árunum 2005 til 2014 sem eiga lögheimili á heimili þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars til júlí 2020 eiga rétt á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrk vegna kostnaðar við íþrótta- og tómstundastarf á skólaárinu 2020-2021. Skilyrði fyrir styrk er að styrkþegi eigi lögheimili í Dalabyggð og að hann sé nýttur til frístundaiðkunar í Dalabyggð.

2. gr.
Áður en umsækjandi sækir um styrkinn kannar hann rétt sinn hjá Ísland.is. Þar fær hann sjálfvirka niðurstöðu um hvort hann uppfylli tekjuviðmið ásamt leiðbeiningum um næstu skref. Þegar sjálfvirk niðurstaða liggur fyrir sækir umsækjandi um styrkinn. Dalabyggð mun fá yfirlit yfir þá sem eiga rétt á styrknum frá Ísland.is sem verður eingöngu notað til samanburðar við innsendar umsóknir, farið verður með upplýsingar þessar samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

3. gr.

Umsóknir skulu berast fyrir 31. júlí 2021 á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má á skrifstofu Dalabyggðar. Umsóknum skal skila á skrifstofuna og þeim skulu fylgja gögn um kostnað umsækjanda við íþrótta- og tómstundastarf barnsins á árinu 2020-2021.

4. gr.

Um skilgreiningu á íþrótta- og tómstundastarfi fer eftir reglum Dalabyggðar um frístundastyrki. Þar er átt við skipulagt frístundastarf sem stundað er undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, dans í dansskólum, skátastarf og annað reglubundið frístundastarf. Einnig má nýta hann fyrir: íþrótta- og tómstundanámskeið barna í leikskóla, 1. og 2. bekk. (íþróttaskóla), leikjanámskeið að sumri, nám í tónlistarskóla sem er samfellt í a.m.k. 8 vikur og árskort eða 3 mánaðakort í líkamsræktarstöðvar eða 20 skipta kort í sund.

5. gr.
Íþrótta- og tómstundastyrkir verða greiddir samkvæmt umsóknum til sveitarfélags. Styrkur getur að hámarki verið 45.000 kr.- fyrir hvert barn. Ef sækja á um almennan frístundastyrk hjá sveitarfélaginu skal fylgja reglum þar um, ekki er hægt að nota sömu gögn í þeirri umsókn og skilað er með umsókn um sérstakan styrk sem hérna er fjallað um.

6. gr.
Sé umsækjandi ósáttur við niðurstöðu styrkveitingar getur hann sent skriflegt erindi þess efnis til byggðarráðs eftir að niðurstaða hefur verið kynnt. Byggðarráð skal fjalla um málið og skila áliti eigi síðar en 30 dögum eftir að erindið berst.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei