Jörvagleði

Er haldin í sumarbyrjun annað hvort ár, á oddatölu.

Gleðin er kennd við bæinn Jörva í Haukadal í Dalasýslu. Á 17.-18.öld var mikið um veislur og almenna gleði á Jörva og er bærinn þekktur fyrir þær. Svokölluð Jörvagleði var haldin á krossmessu og var þá einskonar töðugjöld. Ástæða þess að gleðin var haldin á Jörva frekar en öðrum bæjum hefur eflaust verið sú að Jörvi hefur talist til betri bæja eins og segir í Árbók Ferðafélagsins frá 1947. „Á Jörva bjuggu jafnan efnamenn og hýstu stórmannlega.” Sótti þangað fjöldi fólks til skemmtanar. Þar var dansað, mikið um gleði og leiki.

Ekki er hægt að segja að yfirvaldið hafi verið ánægt með þessar skemmtanir enda voru sögur af lauslæti oft tengdar þeim. Þrátt fyrir að Björn Jónsson sýslumaður á Staðarfelli hafi bannað Jörvagleðina virðist hún hafa haldið áfram a.m.k. eru heimildir fyrir síðustu Jörvagleðinni árið 1708, þar áttu að hafa komið undir nítján börn.

Jörvagleði var svo endurvakin fyrir nokkrum árum og tengdu Dalamenn hana þá við vorið og sumarbyrjun. Dalamenn hampa þá menningu, tónlist og listum, stíga dans (þó ekki vikivaka eins og sögur fara af að hafi verið gert fyrr á öldum) og svífa þannig saman inn í sumarið.

 

Jörvagleði 2025

DAGSKRÁ 

 MIÐVIKUDAGURINN 23. APRÍL – Síðasti vetrardagur 

10:00 – 17:00 – Opið á Eiríksstöðum í Haukadal
Hægt að skoða svæðið eða kaupa leiðsögn og drekka í sig sögulegt umhverfi staðarins.

11:00 – 17:00 – Opið hjá Handverkshópnum Bolla, Vesturbraut 12c
Mikið úrval af fallegu handverki handverksfólks á öllum aldri í Dölunum.

13:00 – 17:00 – Opið hjá Rjómabúinu Erpsstöðum.
Afurðir beint frá býli, leiksvæði fyrir börnin. Gaman að kíkja á dýrin á bænum.

17:00 – „Fallegt samfélag: Hvað get ég gert?“ í Nýsköpunarsetrinu, Miðbraut 11
Sigursteinn Sigurðsson, arkitekt og menningarfulltrúi Vesturlands kemur með erindi/hugvekju fyrir upphaf sumars.
Þar sem Stóri Plokkdagurinn er sunnudaginn 27. apríl mun vera hægt að nálgast á þessum viðburði poka og hanska til að plokka.

17:00 – 22:00 – Sundlaugin á Laugum í Sælingsdal opin.

19:00/22:00 – Kvölddagskrá í Dalíu, Miðbraut 15
Húsið opnar kl. 19:00, Gummi Sveinn spilar frá kl. 22:00. Barinn opinn. Frábært tækifæri til að hita upp fyrir helgina!

 FIMMTUDAGURINN 24. APRÍL – Sumardagurinn fyrsti 

 10:00 – 17:00 – Opið á Eiríksstöðum í Haukadal
Hægt að skoða svæðið eða kaupa leiðsögn og drekka í sig sögulegt umhverfi staðarins.

11:00 – 17:00 – Opið hjá Handverkshópnum Bolla, Vesturbraut 12c
Mikið úrval af fallegu handverki handverksfólks á öllum aldri í Dölunum.

12:00 – Firmakeppni Hestaeigendafélags Búðardals

 13:00 – Opnunarhátíð hjá Urði Ullarvinnslu að Rauðbarðaholti í Hvammssveit.
Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Einar Hlöðver Erlingsson opna nýja ullarvinnslu sem þau hafa komið upp á jörðinni.

 13:30 – 15:00 – Skátastuð Stíganda hjá Stjórnsýsluhúsinu, Miðbraut 11
Skátafélagið Stígandi með fjör af sinni alkunnu snilld fyrir stuðpinna á öllum aldri.

 15:00 – Setning Jörvagleði 2025 í Dalíu, Miðbraut 15
Gaman væri að sjá sem flesta skarta íslenska þjóðbúningnum.

 15:10 – Dimmalimm í Dalíu, Miðbraut 15
Ástsælasta ævintýri þjóðarinnar í rómaðri uppsetningu Kómedíuleikhússins. Ókeypis aðgangur í boði Dalabyggðar.

16:15 – Erindi um Hrein Friðfinnsson í Dalíu, Miðbraut 15
Hreinn Friðfinnsson frá Bæ (1943-2024) er án efa þekktasti myndlistarmaður sem Dalabyggð hefur alið. Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, frá Brautarholti, heldur erindi um þennan sveitunga sinn þar sem hann mun freista þess að draga saman nokkur helstu stef og hugmyndir listamannsins, eins og þau þróuðust í tímans rás. Og sýna hvernig heimahagarnir urðu honum æ hugleiknari eftir því sem tímar liðu.

17:00 – Vilborg Davíðsdóttir í Dalíu, Miðbraut 15
Laxdæla hefur um aldir verið ein ástsælasta Íslendingasagan. Þar er allt vaðandi í hjónaskilnuðum og einnig spádómum sem sjaldnast er þó skeytt um. Vilborg rýnir í þessa þætti Laxdælu.

17:00 – Spurt og spjallað fyrir forvitna krakka á Eiríksstöðum í Haukadal
Hvernig voru Dalirnir fyrir 1000 árum? Hvernig var fólkið? Hvernig voru krakkarnir? Skemmtileg stund fyrir börnin – öll velkomin.

20:00 – Pétur Jóhann – Uppistand í Dalabúð
Uppistand þar sem „rugl“ verður lögmál og „skipulag“ verður bara óþarft orð. Ef þú átt erfitt með að hlæja þá er þetta eitthvað fyrir þig – ef þú átt auðvelt með það, þá skaltu koma með varamaga. Miðaverð: 5.990 í forsölu og 7.500 við innganginn.
Forsala í Dalabúð 22., 23. og 24. apríl frá kl. 16-18 alla dagana. Athugið, enginn posi. Hraðbanka er að finna í Krambúðinni við Vesturbraut.

 FÖSTUDAGURINN 25. APRÍL 

 10:00 – 17:00 – Opið á Eiríksstöðum í Haukadal
Hægt að skoða svæðið eða kaupa leiðsögn og drekka í sig sögulegt umhverfi staðarins.

11:00 – 17:00 – Opið hjá Handverkshópnum Bolla, Vesturbraut 12c
Mikið úrval af fallegu handverki handverksfólks á öllum aldri í Dölunum.

14:00 – 01:00 – Opið í Sælukotinu Árbliki í Suðurdölum.
Kaffi og kökur að hætti Estu. Sjá dagskrá að deginum til hér fyrir neðan.
Músík Bingó hefst kl. 21:00 og opið til kl. 01:00, sjá síðar í dagskránni.

14:00 – Dagskrá í Sælukotinu Árbliki í Suðurdölum
– Ljósmyndasýningin „Mundi“ – Gríma Kristinsdóttir
Gríma opnar sýningu sína: „Á Ströndum, endamörkum veraldar við Trékyllisvík. Myndaði ég Munda frá Finnbogastöðum. Bændasamfélagið með faðminn opinn, velgjörðir á borðum, tignarleg fjöllin, hafið bláa, veg okkar allra. Birtuna og hverfulleikann“. Sýningin verður svo opin áfram á opnunartíma Árbliks.
– Sr. Snævar Jón Andrésson fjallar um séra Gunnar Pálsson skólameistara, skáld og prest í Hjarðarholti.
– Tónlistaratriði og fleira áhugavert.

16:00 – 19:00 – Sundlaugin á Laugum í Sælingsdal opin.

 18:00 – Atli Freyr – D&D í Rauða kross húsinu
Upplifðu æsispennandi heim Dungeons & Dragons!
Í leiknum taka leikmenn að sér hlutverk gæludýra galdrakarls sem verða að vinna saman til að vinna gegn áhrifum gallaðs galdradrykkjar sem hefur breytt galdrakarli þeirra í slím. Verður spilað að mestu leiti á ensku
Ekki er hægt að mæta með eigin karaktera fyrir þetta ævintýri en hægt verður að velja milli 15 mismunandi tilbúinna karaktera – fyrstur kemur fyrstur fær. Einungis verða 6 sæti í boði. Svo lengi sem það er laust pláss við borðið verður hægt að mæta á staðinn og taka þátt en þeir sem hafa pantað hafa forgang. Skráning á atli.freyr@audarskoli.is

19:30 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Halla Sigríður Steinólfsdóttir frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd kynnir landbúnaðarafurðir beint frá býli sínu.

20:00 – Tónleikar: „Á heimaslóðum“ – Hanna Dóra Sturludóttir í Dalíu
Söngkonan Hanna Dóra Sturludóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari flytja fallega tónlist úr ýmsum áttum og spjalla við áheyrendur á milli laga. Efnisskrá með eitthvað fyrir alla. Miðaverð: 4.000 kr.- greitt við hurð, enginn posi.

20:30 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Rímnatónleikar. Úrvals kvæðafólk úr aðildarfélögum Stemmu kemur fram og flytur meðal annars nýjar rímur.

21:00 – Músík Bingó í Árbliki
Það verður biluð stemning þegar Fanney heldur sitt víðfræga Músík Bingó. Eins og venjulegt bingó nema í stað þess að lesa upp tölur þá spilar hún lög sem að fólk þarf að þekkja. 2.000kr inn, bingóspjald fylgir.

 LAUGARDAGURINN 26. APRÍL 

 10:00 – 17:00 – Opið á Eiríksstöðum í Haukadal
Hægt að skoða svæðið eða kaupa leiðsögn og drekka í sig sögulegt umhverfi staðarins.

10:00 – 16:00 – Opið hjá Urði Ullarvinnslu að Rauðbarðaholti í Hvammssveit.
Hægt að skoða vélar, ferli og afurð vinnslunnar.

 10:00 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Bára Grímsdóttir kennir rímnalög og fjallar um kvæðamenn og skáld af Vesturlandi með hljóðdæmum.

11:00 – 17:00 – Opið hjá Handverkshópnum Bolla, Vesturbraut 12c
Mikið úrval af fallegu handverki handverksfólks á öllum aldri í Dölunum

12:00 – 16:00 – Listasmiðja fyrir börn á öllum aldri í Dalíu, Miðbraut 15 (Gamla Búnaðarabankanum).
Smiðjan hentar öllum sem vilja virkja hugmyndaflugið og láta sköpunargleðina skína. Hægt verður að teikna, mála og móta hin ýmsu listaverk með tilsögn og handleiðslu.
Efnisgjald kr. 1.500

13:00 – 17:00 – Sundlaugin á Laugum í Sælingsdal opin

13:00 – 18:00 – Opið í Sælukotinu Árbliki í Suðurdölum.
Kaffi og kökur að hætti Estu. Ljósmyndasýning Grímu Kristinsdóttur er opin á sama tíma.

13:00 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Gunnar J. Straumland kynnir hvernig hann notar háttbundinn kveðskap í tengslum við myndlýsingar í kennslu.

13:00 – Davíðsmót í bridge – Tjarnarlundi í Saurbæ
Spiluð verða 28 spil. Yfirdómari verður Ágúst Þorsteinsson. Skráning fer fram á bridge.is og kjarlak@simnet.is eða í 434-1521. Kaffiveitingar. Spilagjald er 5.000 kr.- á par.

13:30 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Stefán Skafti Steinólfsson frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd fjallar um hagyrðinga og skáld í Dölum.

14:00 – 17:00 – Handverk og tónlist í Stóra-Vatnshornskirkju
64 ára saga saumaklúbbsins í Haukadal. Sýning á handverki Haukadalskvenna. Tónlist og sögur. Vinkonurnar Dallilja Sæmundsdóttir og Jónína Björg Magnúsdóttir spila og syngja fyrir gesti. Kirkjukaffi. Frítt inn.

14:00 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Chris Foster kynnir langspil, sögu þess og hvernig hægt er að spila á það. Þátttakendur fá að prófa að spila. Þeir sem eiga langspil eru hvattir til að koma með það ef kostur er á. Chris Foster og Bára Grímsdóttir verða með stutta tónleika í lokin.

16:00 – Stemma – Landsmót kvæðamanna í Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal
Bókakynningar

20:00 – Tónleikar: Rokkkórinn frá Húnaþingi Vestra í Dalabúð
Dagskráin mun spanna lög yfir 50 ára tímabil og því um fjölbreytta dagskrá að ræða. 25 manna kór með hljómsveit. Miðaverð: 5.000kr.- Miðasala í Dalabúð 24., 25. og 26. apríl frá kl. 16-18 alla dagana. Athugið, enginn posi. Hægt að greiða með pening eða millifærslu.

22:00 – Jóna Margrét og Björgvin á Vínlandssetri
Þau munu syngja og skemmta fram á kvöld sem endar svo í karókí.

 SUNNUDAGURINN 27. APRÍL 

 27. apríl er Stóri Plokkdagurinn.
Dagurinn markar upphaf plokk tímabilsins, snjó farið að leysa, plast og pappír bíða eftir að vera plokkað og flokkað. Hvetjum alla íbúa til að plokka.

10:00 – 17:00 – Opið á Eiríksstöðum í Haukadal
Hægt að skoða svæðið eða kaupa leiðsögn og drekka í sig sögulegt umhverfi staðarins.

10:00 – 16:00 – Opið hjá Urði Ullarvinnslu að Rauðbarðaholti í Hvammssveit.
Hægt að skoða vélar, ferli og afurð vinnslunnar.

11:00 – 17:00 – Opið hjá Handverkshópnum Bolla, Vesturbraut 12c
Mikið úrval af fallegu handverki handverksfólks á öllum aldri í Dölunum.

13:00 – 18:00 – Opið í Sælukotinu Árbliki í Suðurdölum.
Kaffi og kökur að hætti Estu. Ljósmyndasýning Grímu Kristinsdóttur er opin á sama tíma.

13:00 – 15:00 – Fyrstu jólasveinarnir afhjúpaðir – dagskrá í Árbliki
Afhjúpun á fyrstu jólasveinunum í verkefninu „Íslensku jólasveinarnir eru úr Dölunum“.
Meðal dagskráratriða eru: Árni Björnsson, erindi. Sönghópurinn Kvika syngur nokkur lög við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Þorgrímur Einar Guðbjartsson segir frá tilurð verkefnisins. Einar Svansson afabarn Jóhannesar segir lítillega frá skáldinu og fl. Kaffi og meðlæti að sveitasið í lok dagskrár.

13:00 – 15:00 – Handverk í Stóra-Vatnshornskirkju
64 ára saga saumaklúbbsins í Haukadal. Sýning á handverki Haukadalskvenna. Heitt á könnunni. Frítt inn.

Hlökkum til að sjá ykkur í Dölunum! 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei