Endurvinnsla

Flokkun og endurnýting á sorpi

Endurvinnslustöðin í Búðardal er staðsett að Vesturbraut 22, 370 Búðardal og hefur verið starfrækt frá 23. september 2010.

Opnunartímar endurvinnslustöðvarinnar

þriðjudagar 13 18
fimmtudagar 13 17
laugardagar 11 14

Tilgangurinn með endurvinnslustöð er að auka möguleika á flokkun og endurvinnslu úrgangs og koma þar með til móts við auknar kröfur þar um.

Á endurvinnslustöðinni er hægt að að flokka í alla úrgangsflokka sem falla undir úrvinnslusjóð, auk hefðbundinnar flokkunar.

Auk þess er hægt að skila í flokkunarkrær allan sólarhringinn og alla daga vikunnar algengustu flokka sorps.

Í flokkunarkrá er hægt að láta frá sér eftirfarandi sorpflokka:

 • Bylgjupappi og sléttur pappi.
 • Plastfilma og pokar.
 • Fernur.
 • Dagblöð, tímarit og annar pappír.
 • Málmar / niðursuðudósir.
 • Rafhlöður.
 • Plastbrúsar og aðrar plastumbúðir.
 • Kertavax

Flokkunarkráin verður aðgengileg allan sólarhringinn, en annað endurvinnsluefni og úrgang s.s. stærri hluti, spilliefni, frauðplast, timbur, járn og gler þarf eftir sem áður að láta frá sér á opnunartíma flokkunarstöðvarinnar (gámavallar).

Starfsmenn sveitarfélagsins sjá um móttöku og skráningu. 

—————————————————————————————-

Af hverju ættum við að flokka?

Forsenda endurnýtingar og endurvinnslu er vönduð flokkun úrgangs. Úrgangur sem er vandlega flokkaður er hráefni í nýjar vörur en ef úrgangurinn er blandaður er hann ónýtanlegur og fer á urðunarstað.

Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Úrgangur er ýmist brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum og við það losna efni af ýmsum toga eða þá brotna nær ekkert niður og safnast þá upp í miklu magni. Flokkun og endurvinnsla er því algjört lykilatriði í því að forða hráefnum frá því að verða mengunarþáttur.

Hvað er hægt að endurvinna?

Langflest það sem við notum á degi hverjum er hægt að endurvinna. Ef nefna ætti eitthvað sem ekki er hægt að endurvinna þá væri það til dæmis tyggigúmmí, svampur eða einnota bleyjur. Timbur, plast, gler og pappír missa ekki eiginleika sína þó að við höfum ekki lengur not fyrir það og málma er hægt að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki. Pappír er einnig mjög hentugur til endurvinnslu en hann er hægt að endurvinna fjórum til sjö sinnum án þess að hann tapi gæðum.

Sumt af því sem við notum inniheldur skaðleg efni og kallast sá flokkur efna og vöru einu nafni – spilliefni. Slíka hluti verður að flokka og skila inn til endurvinnslu því það er einfaldlega bannað að urða þá eða brenna. Þar má nefna rafhlöður, olíumálningu, terpentínu, tjöruleysi, lyf og margt fleira.

Hérna má nálgast sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009 -2020.

Skilgreiningar á hugtökum

Úrgangur

Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við, ætla að losa sig við eða er gert að losa sig við. Allan úrgang ber að færa til endurnýtingar eða förgunar.

Lífrænn úrgangur

Einungis lífbrjótanlegur (e. biodegradable) garðaúrgangur og matar– og eldhúsúrgangur.

Hér er um að ræða breytingu frá eldri skilgreiningu sem tók til alls lífbrjótanlegs úrgangs. Breytingin hefur í för með sér að ýmsir lífbrjótanlegir úrgangsflokkar sem áður töldust til lífræns úrgangs gera það ekki lengur, t.d. sláturúrgangur, fiskúrgangur, húsdýraskítur, seyra, timbur, pappír og pappi.

Endurnýting

Úrgangur er nýttur með þeim hætti að aðalútkoman er sú að hann verður til gagns. Úrgangurinn er þannig notaður í stað efniviðar sem annars hefði verið notaður. Undir skilgreininguna fellur einnig meðhöndlun sem felur í sér að úrgangur er útbúinn til slíkrar notkunar, t.d. geymsla úrgangs áður en hann fer til endurnýtingar. Endurnýting skiptist í undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu.

Hér er grundvallarbreyting frá eldri skilgreiningu að gert er að skilyrði að viðkomandi endurnýting þjóni sérstökum tilgangi, öðrum en að losna við úrgang. Með nýrri skilgreiningu eru því dregin skarpari skil á milli förgunar og lögmætrar endurnýtingar.

Úrgangur sem fer í gegnum einhverja tegund endurnýtingar getur hætt að vera úrgangur og orðið aftur að efni eða hlut, sbr. reglugerð um lok úrgangsfasa og reglugerð um endurnýtingu úrgangs. Til að þetta gerist þarf úrgangurinn að fara í gegnum endurnýtingaraðgerð og uppfylla viðmið sem koma fram í viðeigandi reglugerð. Ekki er nóg að uppfylla skilyrðin sem koma fram í lögum um meðhöndlun úrgangs (21. gr.) Í reglugerð um lok úrgangsfasa koma fram sérstök viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tilteknar gerðir brotajárns, glerbrot og koparrusl. Reglugerð um endurnýtingu úrgangs gildir um endurnýtingu úrgangs sem ekki eru til viðmið um lok úrgangsfasa fyrir.

Undirbúningur fyrir endurnotkun

Vörur eða íhlutir fara í gegnum sérstaka meðhöndlun, sem felst í skoðun, hreinsun eða viðgerð, áður en þau eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð í upphafi. Vörur eða íhlutir sem falla hér undir teljast úrgangur. Undirbúningur fyrir endurnotkun telst til endurnýtingar.

Að mati Umhverfisstofnunar tekur hugtakið til þeirra sem hafa atvinnu af að taka á móti úrgangi og undirbúa hann fyrir endurnotkun, en tekur ekki til stakra vara eða íhluta sem ganga beint frá einum einstaklingi til annars, jafnvel þótt eigendaskiptin kalli á skoðun, hreinsun eða viðgerð. Að mati stofnunarinnar fellur slíkt undir endurnotkun.

Dæmi

 • Bilað raftæki sem fagaðili tekur við, bilanagreinir, gerir við og setur á markað.
 • Úr sér gengið ökutæki sem fagaðili tekur við, gerir upp og setur á markað.
 • Íhlutir úr raftækjum og úr sér gengnum ökutækjum sem fagaðili tekur við, skoðar, hreinsar eða gerir við og setur á markað.

Endurvinnsla

Úrgangur er unninn í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Endurvinnsla telst til endurnýtingar.

Vinnsla á orku eða eldsneyti úr úrgangi fellur ekki undir endurvinnslu, heldur undir endurnýtingu. Það sama gildir um notkun úrgangs til fyllingar, t.d. við landfyllingu í sjó eða við frágang gamallar námu.

Dæmi

 • Plastumbúðir eru bræddar upp og framleidd úr þeim vörubretti.
 • Molta er framleidd úr lífrænum úrgangi.

Önnur endurnýting

Önnur endurnýting en undirbúningur fyrir endurnotkun eða endurvinnsla.

Dæmi

 • Framleiðsla eldsneytis úr úrgangi.
 • Óvirkur úrgangur er nýttur við að fylla upp í gamla grjótnámu og endurheimta upprunalegt landslag. Tryggt er að úrgangurinn kemur í stað efnis sem annars hefði verið notað til að fylla upp í námuna, þ.e. þörfin til landmótunar liggur til grundvallar en ekki þörfin til að losna við úrgang.
 • Seyra er nýtt til áburðar á jörð og tryggt er að notkun seyrunnar fylgi ávinningur fyrir landbúnað eða vistfræði viðkomandi svæðis.
 • Brennsla úrgangs í brennslustöð þar sem orkunýtni er 60–65% eða hærri.

Förgun

Ef úrgangur fer til meðhöndlunar sem fellur ekki undir að vera endurnýting þá telst það förgun, þ.e. aðalútkoman er ekki að úrgangur verði til gagns. Gildir þá einu þótt viðkomandi meðhöndlun hafi aukalega í för með sér endurheimt efna eða orku.

Dæmi

 • Úrgangur er urðaður.
 • Brennsla úrgangs í brennslustöð þar sem orkunýtni er lægri en 60–65%.
 • Lífrænn úrgangur er urðaður og hauggasi er safnað og það nýtt til eldsneytisframleiðslu.
 • Var efni síðunnar hjálplegt?
 • Nei