Jafnréttisáætlun

Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Dalabyggðar 2023 – 2026

Samþykkt á 235. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar

Tilgangur og markmið

Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri til að vinna að jafnri stöðu íbúa sveitarfélagsins á öllum sviðum samfélagsins. Áætlun um jafnréttismál með skýrum markmiðum og tímasettri aðgerðaáætlun þar sem ábyrgð og eftirfylgni er tryggð gegnir veigamiklu hlutverki þegar unnið er að jafnrétti. Virk áætlun um jafnréttismál á öllum sviðum sveitarfélagsins stuðlar að réttlátara og eftirsóknarverðara samfélagi fyrir alla.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála skulu sveitarstjórnir að afloknum sveitarstjórnarkosningum sjá til þess að sveitarfélagið setji sér áætlun um jafnréttismál fyrir nýtt kjörtímabil. Áætlunin skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, hún rædd árlega í sveitarstjórn og endurskoðuð eftir þörfum.

Jafnréttisáætlun Dalabyggðar byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Tilgangurinn með jafnréttisáætlun Dalabyggðar er að vekja athygli á rétti hvers einstaklings til jafnra tækifæra og að það sé hagur samfélagsins í heild að virðing sé borin fyrir öllum. Með áætlun þessari lýsir sveitarstjórn Dalabyggðar vilja sínum til þess að stuðla að jafnrétti sem stjórnvald, vinnuveitandi og þjónustuveitandi, með sérstökum aðgerðum.

Jafnrétti í starfi Dalabyggðar

Í lögum er kveðið á um að sveitarfélög skipi jafnréttisnefndir og geri jafnréttisáætlanir með framkvæmdaáætlun. Jafnframt kemur þar fram að heimilt sé að fela annarri nefnd þennan málaflokk. Í Dalabyggð er það félagsmálanefnd sem fer með störf jafnréttisnefndar sbr. A-hluta 48. gr. samþykkta um stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðar 391/2018. Sveitarstjórn Dalabyggðar ber ábyrgð á jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og er sveitarstjóri jafnan til ráðgjafar fyrir sveitarstjórn í málaflokknum.

Kostnaður við framkvæmd áætlunarinnar liggur aðallega í launum starfsmanna sem koma að framfylgni hennar. Fyrir umræður sveitarstjórnar um áætlunina í desember ár hvert verði búið að fara yfir framkvæmdaáætlun og hver staða hennar er, hvernig hefur gengið að framfylgja henni og hvort endurskoðunar sé þörf fyrir lok gildistíma.

Framkvæmdaáætlun Dalabyggðar 2023 – 2026

Hér fyrir neðan er að finna framkvæmdaáætlun Dalabyggðar þar sem fram kemur hvað eigi að gera, hver beri ábyrgðina og hvenær aðgerðinni skuli vera lokið:

Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Dalabyggðar 2023-2026

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei