Fyrir nýja íbúa

Dalabyggð leggur áherslu á samhent fjölskylduvænt samfélag þar sem allir íbúar geta unað vel.

 

Það er gott að búa í Dalabyggð. Boðleiðir eru stuttar, félagslíf er fjölbreytt og svæðið fullkomið fyrir þá sem vilja búa fjarri erli og óþarfa áreiti.
Verið velkomin í Dalabyggð!

 

Hér eru helstu upplýsingar fyrir þá sem ætla að flytja í Dalabyggð:

Ráðhús:

Stjórnsýsluhús Dalabyggðar stendur að Miðbraut 11 í Búðardal og er opið virka daga frá kl.9 til 13.
Símanúmer skrifstofu er 430-4700 og einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar á netfangið dalir@dalir.is

Skrifstofa Dalabyggðar veitir allar almennar upplýsingar um þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins. Þar er einnig hægt að nálgast öll eyðublöð, ganga frá umsóknum, nálgast samþykktir, fundargerðir og ýmsar upplýsingar um sveitarfélagið og rekstur þess. 

Í Stjórnsýsluhúsinu er skrifstofa Dalabyggðar, þar hafa vinnustöð starfsmenn hennar og auk þess er þar að finna Skjalasafn Dalabyggðar, afgreiðslu Sýslumanns, lögreglu, Héraðsbókasafn Dalasýslu og Nýsköpunarsetur Dalabyggðar.

Flutningstilkynningar:

Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár Íslands innan sjö daga frá flutningi. Það er hægt að gera rafrænt á vefsíðu Þjóðskrár.
Ekki gleyma að tilkynna Póstinum um breytt heimilisfang, því þeim berast ekki sjálfvirkar tilkynningar um flutning.

Þjónusta og umsóknir:

Upplýsingar um þjónustu Dalabyggðar og umsóknareyðublöð er hægt að nálgast hér:
Eyðublöð
Gjaldskrár

Húsnæði:

Ef þú vilt byggja: Endilega skoðaðu deiliskipulag íbúðarsvæða í Dalabyggð.
Einnig má hafa samband við byggingafulltrúa okkar á netfangið: byggingafulltrui@strandabyggd.is og skipulagsfulltrúa á netfangið: skipulag@dalir.is

Leigjendur: Í Búðardal eru m.a. leiguíbúðir í eigu Alma Leigufélag, Brák hses. og Leigufélagsins Bríet. Þá má einnig benda á ýmsa hópa á Facebook þar sem hægt er að auglýsa eftir húsnæði.
Upplýsingar varðandi sérstakar húsaleigubætur má nálgast hér: Sérstakur stuðningur í húsnæðismálum í Dalabyggð

Kaupendur: Það eru hinir ýmsu fasteignasalar sem sjá um sölu á húsnæði og jörðum í Dalabyggð. Við bendum m.a. á að fylgjast með á fasteignasíðum fjölmiðla.
Upplýsingar um fasteignagjöld má finna hér: Fasteignagjöld 2022

 

Umhverfismál og sorphirða:

Í Dalabyggð flokka íbúar sorp og leggja sig fram við að urða sem minnst. Upplýsingar um flokkun, gjaldtöku og fleira má finna hér: Sorphirða
Bendum einnig á söfnunarstöð að Vesturbraut 22 í Búðardal, upplýsingar um opnunartíma og þjónustu má finna hér: Söfnunarstöð
Dalabyggð hefur sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri stofnana sveitarfélagsins: Umhverfis- og loftslagsstefna Dalabyggðar
Flöskumóttaka er hjá KM þjónustunni að Vesturbraut 20 og þá eru ýmis félög dugleg við að safna flöskum til styrktar starfi sínu.

Börn og unglingar:

Auðarskóli var stofnaður þann 1. ágúst 2009. Skólinn varð til við sameiningu allra skólastofnana í Dalabyggð. Skólinn er því samrekinn skóli með fjórar fjárhagslega sjálfstæðar deildir; leikskóla, tónlistarskóla, grunnskóla og mötuneyti.
Á heimasíðu skólans www.audarskoli.is er hægt að nálgast helstu upplýsingar er varða skólastarfið. Skrifstofa Auðarskóla er í húsnæði grunnskólans að Miðbraut 10, sími: 430 4757

 

Íþróttir og tómstundir fyrir börn og unglinga:

Sjá einnig: Íþróttir- og tómstundir í Dalabyggð

Björgunarsveitin Ósk, Glímufélag Dalamanna, Skátafélagið Stígandi, Badmintonfélag Dalamanna, íþróttafélagið Undri, ungmennafélögin innan UDN, Hestamannafélagið Glaður o.fl. eru með skipulagt tómstundastarf fyrir börn og unglinga. Þá eru knattspyrnuæfingar, félagsmiðstöð, fjálsíþróttaæfingar og körfuboltaæfingar í boði.

Sjá einnig: Íþróttir- og tómstundir í Dalabyggð

 

Almennt félagsstarf:

Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga:
Núverandi aðildarfélög UDN eru Umf. Æskan, Umf. Ólafur Pái, Umf. Dögun, Umf. Stjarnan, Umf. Afturelding, Hestamannafélagið Glaður, Glímufélag Dalamanna og Íþróttafélagið Undri.
Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga er aðili að UMFÍ og ÍSÍ.

Hestamannafélagið Glaður:
Hestamannafélagið Glaður er með heimasíðu þar sem má nálgast gagnlegar upplýsingar og kort af reiðleiðum í Dalabyggð.

Fjöldi félaga er um allar sveitir tengd búskap, búnaðarfélög, sauðfjárræktarfélög, Hrossaræktarsamband Dalamanna. Fjölmennast þeirra er Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu, sem stendur m.a. fyrir Haustfagnaði sauðfjárbænda fyrsta vetrardag ár hvert. Kúabændur í Dölum sem tilheyra aðildarfélagi hjá Landssambandi kúabænda eru í Félagi nautgripabænda við Breiðafjörð.

Lionsklúbbur Búðardals:
Lions er stærsta alþjóðlega þjónustu-hreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum 1917. Í dag starfa yfir 1,4 milljónir Lions-félaga, í 46.000 Lionsklúbbum í 206 löndum. Lions er óháð stjórnmálaflokkum og trúfélögum.  Í Lions eru  mörg tilboð um fræðslu og gagnast hún ekki aðeins til starfa í Lions, heldur einnig í atvinnulífinu og í daglegu lífi. Lions býður upp á fjölbreytt félagslíf, fræðslu, skemmtanir, verkefni, fundi og ferðalög með vinum og fjölskyldum.

Kvenfélög: Kvenfélagið Fjólan starfar í Suðurdölum, Þorgerður Egilsdóttir í Laxárdal og Hvöt á Fellsströnd. Þessi kvenfélög ásamt kvenfélögum í Austur-Barðastrandarsýslu mynda Samband breiðfirskra kvenna.

Slysavarnadeild Dalasýslu og Rauði Krossinn eru einnig með virkt starf í Dalabyggð.

Leikklúbbur Laxdæla starfar í Dalabyggð, félagið setur upp sýningar og tekur þátt í ýmsum menningarviðburðum.

Þá eru starfandi Sögufélag Dalamanna og Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna.

Félag eldri borgara í Dalbyggð og Reykhólahreppi – FEBDOR:
Félag eldri borgara í Dalbyggð og Reykhólahreppi stendur fyrir fjölbreyttu félagsstarfi í þessum tveimur sveitarfélögum.

Landbúnaðartengd félög eru m.a.:

 • Búnaðarsamtök Vesturlands
 • Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu
 • Félag nautgripabænda við Breiðafjörð
 • Hrossaræktarsamband Dalamanna
 • Búnaðarfélag Hörðudals
 • Bf. Miðdæla
 • Bf. Laxárdals
 • Bf. Hvammsfjarðar
 • Bf. Saurbæinga
 • Fjárræktarfélagið
 • Fjárræktarfélagið Geirmundur

Hátíðir:

Bæjarhátíð er haldin annað hvort ár (á sléttri tölu) og Jörvagleði er haldin annað hver ár á móti (á oddatölu).
Ár hvert að hausti stendur Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu fyrir haustfagnaði sem er mikil hátíð.

Í Dalabyggð búa einnig listamenn sem eru duglegir við að leyfa samfélaginu að njóta vera sinna. Ýmsir tónlistarmenn, leikfélög og aðrir heimsækja Dalabyggð og leyfa okkur að njóta verka sinna.

Hérðasbókasafn og héraðsskjalasafn eru starftæk í Búðardal.

Verslun og þjónusta:

Í Búðardal er Krambúðin með verslun. Innan bæjarmarka má einnig finna apótekið Lyfju, Vínbúð ÁTVR, pósthús, verkstæði og verslun KM þjónustunnar, dýralæknir og heilsugæslu, veitingastaðinn Dalakot, blómabúðina og kaffihúsið Blómalindin, skrifstofu sýslumannsins á Vesturlandi, handverksverslunina Bolla og svo mætti lengi telja. N1 er með sjálfsafgreiðslustöð við aðalgötu.

Heilbrigðisþjónusta:

Heilsugæslustöðin Búðardal er staðsett að Gunnarsbraut 2, 370 Búðardal. Sími: 432 1450

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Silfurtún er að Gunnarsbraut 8, 370 Búðardal. Sími: 432 1490 Netfang hjúkrunarforstjóra: kristin.g.arnardottir@hve.is

 

 

Dalabyggð hlaut jafnlaunavottun í byrjun árs 2021. Vottunin staðfestir að sveitarfélagið hefur komið sér upp jafnlaunakerfi sem tryggir að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir og að allir starfsmenn njóti þannig jafnra launa og kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vottunin er hluti af jafnréttisáætlun Dalabyggðar og því einstaklega gleðilegt að Dalabyggð hafi hlotið þessa staðfestingu.

 • Var efni síðunnar hjálplegt?
 • Nei