Aðalskipulag

Skipulags- og byggingamál

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og skal taka til alls lands innan marka sveitarfélagsins.
Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál.
Aðalskipulagið tekur til alls lands innan sveitarfélagsmarka Dalabyggðar, þ.e. til þéttbýlisins í Búðardal og dreifbýlisins.

Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar.
Við gerð aðalskipulags skal byggt á markmiðum laga þessara, landsskipulagsstefnu, svæðisskipulagi, liggi það fyrir, og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins. Þá skal jafnframt gætt að samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga.
Í aðalskipulagi skal marka stefnu til a.m.k. tólf ára en jafnframt gera grein fyrir samhengi skipulagsáætlunarinnar og einstakra þátta hennar við langtímaþróun sveitarfélagsins.

Sveitarfélög skulu á hverjum tíma hafa í gildi aðalskipulag. Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og endurskoðun aðalskipulags. Afgreiðsla á svæðis- og aðalskipulagi er ávallt háð samþykki sveitarstjórnar.

Vinna við endurskoðun Aðalskipulags Dalabyggðar 2020 – 2023

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 5. mars 2020 var lögð fram og samþykkt til kynningar skipulags- og matslýsing vegna endurskoðunar Aðalskipulags Dalabyggðar 2004-2016.
Í skipulagslýsingunni er m.a. gerð grein fyrir tildrögum og ástæðum endurskoðunar aðalskipulagsáætlunarinnar, helstu viðfangsefnum, forsendum, stöðu og gildandi stefnu, samráði, tímaferli og umhverfismati áætlunar.

Skipulagsfulltrúi, formaður og varaformaður umhverfis- og skipulagsnefndar og ráðgjafi mynduðu verkefnisstjórn sem hélt utan um vinnuna við endurskoðun aðalskipulagsins. Dalabyggð samdi í janúar 2020 við Verkís um ráðgjöf vegna skipulagsvinnunnar.
Rík áhersla var lögð á aðkomu íbúa og hagsmunaaðila að skipulagsvinnunni. Leitað var álits sérfræðinga þegar þörf er á faglegu mati eða öðrum sérhæfðum upplýsingum vegna skipulagsvinnunnar.
Ákveðið var að hafa allt ferlið opið og gegnsætt og upplýsa íbúa og aðra hagsmunaaðila um gang mála. Einnig var boðið upp á beina þátttöku íbúa og hagsmunaaðila við gerð skipulagstillögunnar. Aðstæður í þjóðfélaginu og tíðar samkomutakmarkanir settu samráðsvinnunni nokkrar skorður. Í stað opinna vinnustofa, sem til stóð að halda, var þungi samráðsins færður í minni fjarfundi á netinu og nefndir og ráð í sveitarfélaginu virkjuð í meiri mæli.

Á 234. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 11. maí 2023 var eftirfarandi bókun samþykkt:

Framlagt bréf Skipulagsstofnunar dags. 25. apríl 2023 um afgreiðslu Aðalskipulags Dalabyggðar 2020-2032 sbr. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Skipulagsstofnun bendir í bréfi sínu á atriði sem þarf að bregðast við áður en stofnunin staðfestir aðalskipulagið.
Umhverfis- og skipulagsnefnd hefur farið yfir bréf Skipulagsstofnunar og leggur til að skipulagsgögnin verði lagfærð í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar, sbr. minnisblað Verkís.
Samþykkt samhljóða.

Þann 10. júlí 2023 birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2023, nr. 734/2023, með staðfestingu Skipulagsstofnunar frá 23. júní 2023.


Aðalskipulag Dalabyggðar 2020 – 2032

Aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2032 er nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og jafnframt heildarendurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016. Fyrra skipulag var staðfest árið 2009 og frá þeim tíma hafa tekið gildi ný skipulagslög nr. 123/2010 og ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2032 er unnið samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 en samkvæmt síðarnefndu lögunum er aðalskipulagið háð umhverfismati áætlana. Umhverfismatið, þ.m.t. kynningar- og samráðsferlið og greiningarvinna, var unnið samhliða endurskoðun aðalskipulagsins. Umfjöllun um einstaka þætti umhverfismatsins er fléttuð inn í greinargerðina en nánari upplýsingar um umhverfismatið, svo sem forsendur þess, aðferðir og niðurstöður, er að finna í umhverfismatsskýrslu. Aðalskipulagið er sett fram sem greinargerð og skipulagsuppdrættir auk umhverfismatsskýrslu.

Aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2032 – Greinargerð

Aðalskipulag Dalabyggðar 2020-2032 – Umhverfismatsskýrsla

Aðalskipulagsuppdráttur 1/5

Aðalskipulagsuppdráttur 2/5

Aðalskipulagsuppdráttur 3/5

Aðalskipulagsuppdráttur 4/5 og 5/5


Eldra aðalskipulag

Aðalskipulag Dalabyggðar 2004 – 2016
Skipulagstillaga 2004 – 2016
Forsendur skipulags 2004 – 2016

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei