Byggðasafn Dalamanna


Laugum í Sælingsdal, 371 Búðardalur
Sími: 430 4700
Safnvörður: Valdís Einarsdóttir

Opnunartímar

Byggðasafn Dalamanna er ekki opið. Unnið er að því að finna safninu nýja staðsetningu.

Munir og ljósmyndir

Upplýsingar um skráða muni og ljósmyndir má finna í gagnagrunninum Sarp, www.sarpur.is
Hafi aðilar muni eða ljósmyndir sem þeir telja að eigi heima á safninu skal hafa samband við safnvörð.

Saga safnsins

Frumkvöðull að stofnun Byggðasafns Dalamanna var Magnús Gestsson (1909-2000) frá Ormsstöðum á Fellsströnd. Magnús var búfræðingur frá Hvanneyri, stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti og var trésmíðameistari frá Iðnskólanum. Hann var bóndi á Ormsstöðum 1931-´36,  en starfaði lengst af sem trésmiður og kennari víða um land. Magnús ritaði bækurnar Látrabjarg 1971, Mannlíf og mórar í Dölum 1972 og Úr vesturbyggðum Barðastrandarsýslu 1973.

Magnús hóf undirbúning að stofnun Byggðasafns Dalamanna 1968 og safnaði munum í samvinnu við Sýslunefnd Dalasýslu. Munirnir voru síðan geymdir í kjallara Dalabúðar til ársins 1975, að safnið fékk inni í kjallara undir kennsluálmu á Laugum í Sælingsdal.

Fyrsta sýning safnsins var þjóðhátíðarárið 1974. Voru þá sýndir í Dalabúð nokkrir munir í sex sýningarkössum, en þeir sýningarkassar eru enn í notkun á safninu. Sumardaginn fyrsta 1977 var safnið fyrst opnað almenningi og hefur verið árleg sumaropnun ár hvert síðan. Formlega var safnið þó ekki vígt fyrr en sumardaginn fyrsta árið 1979 af Kristjáni Eldjárn forseta Íslands.

Magnús Gestsson var safnvörður við safnið frá stofnun til ársins 1998. Magnús var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 1985 fyrir störf sína að safninu. Frá því Magnús Gestsson lét af störfum 1998 hafa nokkrir starfað við safnið að sumrinu, að mestu tengt sumaropnun þess. Lengst af Eyjólfur Ingvi Bjarnason í Ásgarði og Birna K. Lárusdóttir á Efri-Brunná. Árið 2010  var ráðinn safnvörður í 50% starf og núverandi safnvörður er Valdís Einarsdóttir á Lambeyrum.

Í upphafi var safnið í eigu Sýslunefndar Dalasýslu, síðan Héraðsnefndar Dalasýslu og nú sveitarfélagsins Dalabyggðar.

Nær allir munir safnsins eru tengdir Dölunum og þá einkum gamla bændasamfélaginu og handverki í lok 19. aldar og upphafi 20. aldar. Nokkuð er einnig af munum tengdum skólahaldi í Ólafsdal, Staðarfelli og Laugum. Auk menningarminja eru auk þess steina- og fuglasafn. Fyrst og fremst er safnað munum tengdum sögu og náttúru Dalanna. Áhersla er lögð annars vegar daglegt líf gamla bændasamfélagsins og hlunnindanýtingu. En hins vegar handverk og hugvit Dalamanna af öllu tagi.

Sameiginlegt ljósmyndasafn er fyrir Byggðasafn Dalamanna og Héraðsskjalasafn Dalasýslu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei