Kosningar

Sveitarstjórnarkosningar 2022

Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga í Dalabyggð verður í Dalabúð laugardaginn 14. maí 2022 kl. 10-20.

Í Dalabyggð verða óbundnar kosningar (persónukjör). Allir kjósendur eru því í kjöri. Löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan kjöri eru þeir sem áður hafa setið í sveitarstjórn. Halla Sigríður Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal skorast undan að taka kjöri.

Kjörskrá fyrir Dalabyggð vegna sveitarstjórnarkosninga liggur frammi til kjördags á skrifstofu Dalabyggðar, Miðbraut 11 í Búðardal, mánudaga – föstudaga kl. 9:00 – 13:00.

Skrifa skal nöfn og heimili 7 aðalmanna og 7 varamanna. Atkvæði telst gilt þó sleppt sé sé fornafni, eftirnafni eða heimilisfangi ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt. Auðar línur á kjörseðli ógilda ekki greidd atkvæði.

Kjósandi á rétt til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Aðstoð skal veitt af þeim úr kjörstjórn sem kjósandi tilnefnir eða aðstoðarmanni sem fylgir kjósanda á kjörstað. Aðstoðarmanni kjósanda er óheimilt að gerast aðstoðarmaður fleiri en þriggja kjósenda við sömu kosningar.

Óski kjörstjórn þess, ber kjósanda að framvísa persónuskilríkum á kjörstað.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin og fer fram hjá afgreiðslu Sýslumannsins á Vesturlandi í Búðardal. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á  þriðjudögum og fimmtudögum kl. 9:30-13. Dagsetningar utankjörfundaratkvæðagreiðslu eru 19. apríl, 26. apríl, 28. apríl, 3. maí, 5. maí, 10. maí og 12. maí.

Kynningarfundur vegna sveitarstjórnakosninga var haldinn í Dalabúð miðvikudaginn 4. maí sl. Upptöku af fundinum má finna hér: Kynningarfundur – upptaka

Hér fyrir neðan má svo nálgast upplýsingar um frambjóðendur. Ef þú hefur áhuga á að bjóða þig fram er hægt að senda póst á johanna@dalir.is, kynningar verða birtar í þeirri röð sem þær berast.
Gott er að miða við að kynningin sé ekki lengri en um 400 orð og að mynd af viðkomandi fylgi með til birtingar.

 

FRAMBJÓÐENDUR:

 

Sindri Geir Sigurðarson sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar sem 1. varamaður í sveitarstjórn:

Ég er 24 ára og er uppalinn í Geirshlíð. Ég bý nú ásamt unnustu sinni og barni í foreldrahúsum.

Ég var alla mína leik- og grunnskólagöngu í Búðardal. Ég útskrifaðist sem stúdent af félagsfræðabraut úr Framhaldsskóla Vesturlands á Akranesi árið 2018. Síðan þá hef ég starfað sem skólaliði í Auðarskóla, einnig er ég í Slökkviliði Dalabyggðar. Auk þess sem hef ég séð um knattspyrnuþjálfun fyrir krakka. Ég er einn stofenda Íþróttafélagsins Undra sem var stofnað á síðasta ári með það að leiðarljósi að efla íþróttastarf í Dalabyggð. Ég sit einnig í stjórn Æskunnar og sat í stjórn UDN árin 2018-2021. Ég er líka stjórnarmaður í Björgunarsveitinni Ósk.

Ég hef setið sem 7. varamaður í sveitastjórn Dalabyggðar frá síðustu kosningum. Ég er einnig varamaður í fræðslunefnd og stjórn Bakkahvamms hses.

Íþróttamiðstöðin í Búðardal er eitthvað sem þarf að ganga frá á þessu kjörtímabili og stefnir nú allt í það en það þarf að fylgja verkinu vel eftir. Björgunarmiðstöð fyrir alla okkar góðu viðbragðsaðila er löngu orðin þörf. Björgunarsveitin, slökkviliðið og sjúkrabílarnir eru allir löngu búin að fylla uppí sín húsnæði og standast því ekki nútímakröfur.

Nú stefnir í sameiningu sveitarfélaga og þarf að velja vel hvað hentar öllum aðilum best til þess að nýju sveitarfélagi vegni sem best. Húsnæðisskortur er nú í sveitarfélaginu og þarf að leysa þann vanda til þess að geta fyllt í öll þau störf sem eru í boði hér. Samningur Bakkahvamms hses. við HMS mun vonandi hjálpa til í að búa til pláss fyrir nýja íbúa og einnig fyrir þá sem vilja minnka við sig.

Halda þarf áfram að ýta á yfirvöld að bæta vegina hér um sveitarfélagið og vonandi hjálpar sameining við það, hvort sem það er Laxárdalsheiði sem tengir okkur við Húnaþing vestra eða Skógarströnd sem tengir okkur við Snæfellsnesið. Skógrækt er ört stækkandi atvinnugrein og tel ég að nóg sé af plássi sem hægt er að nýta án þess að þrengja að öðrum landbúnaði.

 

Einar Jón Geirsson sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ég er 46 ára og hef búið í Búðardal í tuttugu ár. Ég er giftur Herdísi Ernu Gunnarsdóttur skólastjóra Auðarskóla, til samans eigum við sex börn og tvö barnabörn. Ég er fæddur á Selfossi en ólst að mestu upp í Hafnarfirði. Útskrifaðist sem stúdent úr Flensborgarskóla og sem íþróttakennari frá Laugarvatni árið 1998. Hef starfað sem slíkur frá útskrift, fyrst á Raufarhöfn(1998-2000), síðan Þórshöfn(2000-2002). Og svo frá 2002 við Auðarskóla í Búðardal. Að auki hef ég unnið sem sjúkraflutningamaður hjá HVE frá 2009 og héraðslögreglumaður síðan 2005.

Ég hef setið í sveitarstjórn síðasta kjörtímabil og þar af í byggðarráði síðustu tvö ár. Á þessu kjörtímabili hef ég setið í fjölda nefnda og stjórna á vegum sveitarfélagsins. Bakgrunnur minn í félagsstörfum kemur úr íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni. Var formaður Ungmennasambands Norður Þingeyinga frá 1999-2003 og UDN frá 2003-2007, sat í stjórn UMFÍ frá 2003-2009.

Verkefni komandi kjörtímabils eru fjölmörg og krefjandi. Ég vil sjá lífsgæði og þjónustu vaxa og dafna í sveitarfélaginu okkar. Ég er hlynntur sameiningu. Áfram þarf að vinna að uppbyggingu íbúarhúsnæðis. Klára þarf söluna á Laugum og ljúka þarf uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ég mun áfram vinna samviskusamlega og af heilindum í sveitarstjórn og leggja mig fram við öll þau störf sem mér verða falin nái ég kjöri.

 

Ingibjörg Þóranna Steinudóttir sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ingibjörg heiti ég en vil helst láta kalla mig Ingu. Ég býð fram krafta mína í sveitarstjórn fyrir komandi kjörtímabil. Ég er 38 ára gömul, gift og á tvær dætur sem eru 8 ára og 5 ára. Ég er uppalin í Hafnarfirði en flutti í Dalabyggð fyrir tæpu ári síðan í Rauðbarðaholt 2 í Hvammsveit og hér finnst mér dásamlegt að vera. Þökk sé covid faraldrinum komst heimavinna á kortið hjá atvinnurekendum og ég fékk að taka vinnuna mína með mér hingað vestur sem gerði okkur fjölskyldunni kleift að flytja hingað.

Ég er verkfræðimenntuð og hef starfað hjá Nox Medical í 12 ár. Nox Medical hannar og framleiðir svefngreiningatæki til greiningar á svefnsjúkdómum eins og t.d. kæfisvefni. Ég gegni hlutverki reglugerðasérfræðings hjá fyrirtækinu sem þýðir að ég sé til þess að hönnun tækjanna uppfylli allar kröfur sem settar eru á lækningatæki í gegnum staðla og reglugerðir svo hægt sé að selja þau um allan heim. Ég hef setið í og stýrt hópum í mörgum fjölbreyttum og flóknum verkefnum þar sem mikilvægt er að geta séð heildarmyndina og ekki síst að missa ekki sjónar af lokamarkmiðinu.

Að mínu mati er heimavinna komin til að vera og mun færast í aukanna á komandi árum. Að búa í dreifbýli hefur marga kosti. Þar má helst nefna skólabíla fyrir bæði leikskóla- og grunnskólabörn, litlir bekkir og þar af leiðandi færri börn á hvern kennara, börn allt niður í 1 árs fá leikskólavist. Þetta eru atriði sem Dalabyggð gæti notað meira til að kynna sig sem góðan stað til að búa á.

Markmið mitt sem foreldri er að ala upp börn sem vilja koma heim þegar þau eru vaxin úr grasi. Það er markmið sem ég vil yfirfæra yfir á samfélagið okkar í heild sinni. Mín áherslumál eru hugsuð til að stuðla að þessu markmiði.

Ég vil leggja áherslu á skólamál. Skólinn er og á alltaf að vera stolt samfélagsins. Það komu margar góðar hugmyndir á íbúaþinginu fyrir brothættar byggðir um daginn sem ég vil tryggja að verði unnið áfram með í samvinnu við starfsfólk skólans, nemendur og foreldra. Einnig vil ég að börnum verði gert kleift að stunda framhaldsskólanám í heimabyggð.

Það er mér mikið hjartans mál að öll börn fái tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir við sitt hæfi. Mitt markmið er að hafa frístundabíl á milli Búðardals og Lauga á meðan íþróttaæfingar eru stundaðar þar. Einnig vil ég leggja áherslu á að íþróttaiðkun barna verði stunduð á skólatíma. Þá vil ég koma á frístundabíl á sumrin. Það mun gefa foreldrum tækifæri til að senda börn sín í leikskóla yfir sumartímann, yngri grunnskólabörn hafa tækifæri á að sækja leikjanámskeið og íþróttaæfingar, eldri grunnskólabörn, menntskælingar og aðrir fá tækifæri til að sækja vinnu.

Húsnæðismál eru eitthvað sem ekki er hjá komist að nefna. Það er engin spurning að hér þarf að byggja upp meira húsnæði til að eiga möguleika á að efla atvinnulíf og fjölga fólki. Ég vil að búið verði til nýtt starf flutningsfulltrúa í Dalabyggð. Ein manneskja sem er með eða getur útvegað svör við öllu sem tilvonandi íbúar Dalabyggðar gætu mögulega þurft svör við, t.d. varðandi atvinnu og húsnæðismál.

Við sem búum hér í Dalabyggð getum verið stolt og hreykin af því sem samfélagið hefur upp á að bjóða en það má lengi gera góða hluti betri. Ég tel að reynsla mín úr atvinnulífinu muni nýtast vel í öllum þeim verðugu verkefnum sem sveitarstjórn hefur fyrir höndum. Ég hef trú á að áherslumál mín muni stuðla að ennþá betra og fjölskylduvænna samfélagi. Ég vona að ég fái tækifæri til að fá að vinna með ykkur og fyrir ykkur í þágu Dalabyggðar á komandi kjörtímabili.

 

Jón Egill Jónsson sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ég er 38 ára, giftur Stefaníu Björg Jónsdóttur og við búum að Lækjarhvammi 4 í Búðardal ásamt börnunum okkar Alexöndru og Sigurjóni. Ég er stúdent frá FVA, og hef unnið seinustu 4 ár sem íþrótta- og tómstundafulltrúi Dalabyggðar.

Ég hef verið virkur í félagsmálum, er í stjórn Rauða kross deilar Dala- og reykhólahrepps, er í stjórn Lions og er í stjórn foreldrafélagsins. Einnig er ég stoltur formaður ungmennafélagsins Ólafs Pá. Ég er varamaður í sveitarstjórn og starfa í umhverfis og skipulagsnefnd.

Áhugi minn á sveitarstjórnarmálum hefur bara aukist á seinustu fjórum árum, málin sem eru ofarlega í huga hjá mér eru. Fyrirhuguð sameining sveitarfélagsins, þar er mikilvæg vinna framundan. Íþróttamiðstöð í Búðardal, við verðum að vanda til verks og koma verkinu af stað sem fyrst.

Húsnæðismál, það sárvantar húsnæði í Dalabyggð. Fyrirtæki og sveitarfélagið eiga erfitt með að ráða fólk vegna húsnæðisskorts. Markaðssetning Dalabyggðar við þurfum að auglýsa hvað við erum frábær og öflug. Við getum laðað til okkar fólk á öllum aldri, við höfum ókeypis skólabíla, líka fyrir leikskólabörn. Eigum oftast leikskólapláss laus fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Höfum góðan tónlistarskóla, ódýr húsnæði en gengur og gerist, þegar það býðst. Ljósleiðari í sveitum, fríar íbúðalóðir og iðnaðarlóðir, aðeins þarf að greiða tengigjöld. Næg vinna í boði í sveitarfélaginu. Dalabyggð er tilvalinn fyrir störf án staðsetningar. Góð heilbrigðisþjónusta. Sækjast eftir opinberum störfum í sveitarfélagið.

Styrkja innviði, leik- grunnskóla og silfurtún. Það er alltaf að aukast kröfurnar í skólakerfinu, gert er ráð fyrir meiri þjónustu eins og þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, félagsliða, aukin sálfræðiþjónusta, sem er of lítil núna. Komið er að viðhaldi á Silfurtúni og þyrfti að fjölga plássum. Efla íþrótta og tómstundastarf fyrir alla, börn og fullorðna. Ný íþróttamiðstöð mun gjörbreyta öllu íþróttastarfi. Hlusta á ungafólkið, við erum með sterkt ungmennaráð sem hefur góða sýn á það sem betur mæti fara í málum ungs fólks og hvaða uppbyggingu þau vilja sjá.

Framsýni er mikilvæg, hugsum fram í tíman og gerum langtíma framkvæmdir og langtíma markmið. Eftir að hafa fylgst með sveitarstjórninni seinustu 4 ár þá sér maður að mikilvægur hluti af því að vera í sveitarstjórn er að takast á við mál sem koma óvænt upp á og leysa þau með eigin sannfæringu. Vera vel upplýstur og leita ráða hjá þeim sem búa að meiri þekkingu til.

Gerum sveitarfélagið okkar enþá öflugra og sterkara, ég yrði stoltur að þjóna íbúum Dalabyggðar.

 

Þuríður Jóney Sigurðardóttir sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ég er fædd 23. júlí 1974, búsett í Búðardal. Fædd og uppalinn á Lyngbrekku á Fellsströnd.

Hef í geng um tíðina unnið hin ýmsu störf, á árunum 2000-2005 starfaði ég hjá Búnaðarbankanum í Búðardal. 2005-2018 sem bókari hjá KM Þjónustunni og starfa núna sem þjónustufulltrúi hjá Dalabyggð.

Hef setið í sveitarstjórn síðan 2018, verið í byggðarráði  og stjórn Dalaveitna allan tímann, félagsmálanefnd og núna síðustu mánuði í fræðslunefnd sem formaður, auk fleiri nefnda svo sem byggingarnefnd íþróttamannvirkja og Eiríksstaðanefnd.

Helstu áskoranir á næsta kjörtímabili eru að mínu mati atvinnumál og uppbygging íbúðarhúsnæðis. Einnig þarf að vinna áfram markvisst í samgöngu-, fjarskipta- og rafmagnsöryggismálum. Sameiningarmál verða líka ofarlega, en sveitarfélagið liggur miðsvæðis og því nokkrir kostir í stöðunni.

Gerum Dalabyggð að enn eftirsóknarverðari stað til að búa á, í jákvæðu og góðu samfélagi.

 

 

 

Ragnheiður Pálsdóttir sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Í Dalabyggð mun fara fram óhlutbundin kosning til sveitarstjórnar 14 maí 2022 og bíð ég fram krafta mína þar til áframhaldandi setu í sveitarstjórn.

Ég heiti Ragnheiður Pálsdóttir er 52 ára, gift Þórarni B. Þórarinssyni og við búum að Kverngrjóti í Dalabyggð ásamt börnum okkar. Við fluttum í Dalina 2007, fyrst að Hvítadal en færðum okkur yfir að Kverngrjóti í sömu sveit árið 2020.

Ég hef starfað við ýmislegt í gegnum árin en fyrstu ár starfsævinnar vann ég við kjúklinga, sauðfjár og stórgripa slátrun. Þá starfaði ég við verslun Hafnar Þríhyrnings á Hellu við innkaup á kæli og frysti vörum, verkstjórn og afgreiðslu svo eitthvað sé nefnt, en frá því við hjónin fluttum í Dalina, hef ég starfað sem verkstjóri heimilishjálpar, heimilishjálp, aðhlynning á Silfurtúni en landbúnaðarstörf eru þau störf sem ég hef unnið hvað mest við í gegnum tíðina ásamt barnauppeldi.

Síðastliðið kjörtímabil hef ég setið í umhverfis og skipulagsnefnd sem varaformaður. Á kjörtímabilinu fór fram endurskoðun aðalskipulags en ég sat einnig í vinnuhóp sem kom að þeirri vinnu. Aðalskipulag er stefnumótun sveitarfélagsins í skipulagsmálum til ársins 2032.

Þá hef ég einnig  farið með formennsku í stjórn Silfurtúns,  formennsku í Öldungaráði og  verið varaoddviti, setið í stjórn Bakkahvamms, setið í undirbúnings nefnd vegna íþróttamannvirkja í Búðardal og í framhaldi af þeirri nefnd setið í byggingarnefnd vegna íþróttamannvirkja og verið varamaður í fleiri nefndum.

Það sem ég tel að sé stóra málið fyrir næsta kjörtímabil eru sameiningar sveitarfélaga.

Lítil og meðalstór sveitarfélög hafa ekki bolmagn til að standa undir þeirri þjónustu sem þeim þó ber að sinna og þar er víða pottur brotinn. Með sameiningu sveitarfélaga ætti að skapast hagræðing og þá um leið geta til að sinna þessum verkefnum betur. Það þarf að gera betur þegar kemur að barnaverndarmálum, sértækri þjónustu í leik og grunnskólum og þjónustu við aldraða og fatlaða. Þessi verkefni krefjast fjármagns sem minni sveitarfélög ráða ekki við. Þá væri hærri starfsprósenta betur til þess fallin að laða að einstaklinga til að sinna þessum störfum en sjaldnast er langur listi umsækjenda í störf með lágu starfshlutfalli. Sitjandi sveitarstjórn hefur ákveðið að samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí 2022 skuli fara fram skoðanakönnun varðandi hug íbúa Dalabyggðar til sameiningarmála. Ég hvet íbúa til að nýta sér þetta tækifæri til að koma sínum skoðunum til næstu sveitarstjórnar.

Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn og þakka það traust sem mér hefur verið sýnt á líðandi kjörtímabili.

 

Guðlaug Kristinsdóttir sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ég er 64 ára, fædd í Saurbænum en bjó á Akureyri í 44 ár með eiginmanni mínum Sigurði Ólafssyni rafvirkja áður en við fluttum aftur í Dalina.

Ég er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og sótti mér viðbótarþekkingu í skattarétti við Háskólann á Bifröst.

Ég rek eigin bókhaldsþjónustu og er að flytja reksturinn í Búðardal núna í vor.

Ég sat í stjórn KEA, stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga og er stjórnarformaður Búfesti hsf. Ég hef starfað að sveitarstjórnarmálum á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn með nefndarsetu og sinnt ýmsum öðrum störfum fyrir Framsókn í kjördæminu og á landsvísu en einnig er ég og hef verið virk í almennu félagsstarfi á Akureyri. Ég sit nú þegar í Byggingarnefnd íþróttamannvirkja í Dalabyggð.

Ég vil að Dalabyggð sé áhugaverður kostur fyrir þá sem vilja búa utan höfuðborgarsvæðisins.  Til þess þarf að tryggja húsnæði  bæði fyrir fólk og ný atvinnutækifæri, betri vegasamgöngur eru kostur en bætt síma- og netsamband er nauðsyn.  Við eigum líka að vera leiðandi í sameiningarviðræðum við sveitarfélögin í nágrenninu og ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum í þessi verkefni og önnur sem koma á borð sveitarstjórnar.

 

Garðar Freyr Vilhjálmsson sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn: 

Garðar Freyr Vilhjálmsson, 32 ára, búsettur á Skarfsstöðum ásamt Heiðrúnu Söndru. Fæddur og uppalinn á Hofsósi í Skagafirði en hef búið í Dalabyggð í að verða 9 ár. Stúdent af Viðskipta og hagfræðibraut við Fjölbrautaskóla norðurlands vestra á Sauðárkróki 2010 og  mjólkurfræðingur frá Kold kolege Odense 2018. Starfa sem framleiðslustjóri hjá MS Búðardal. Gekk í Framsókn þegar ég var 16 ára og hef starfað innan flokksins í hinum ýmsu hlutverkum frá þeim tíma. Átti sæti í Atvinnumálanefnd Dalabyggðar á liðnu kjörtímabili.

Dalabyggð er þeirra gæfu aðnjótandi að hér er mikla vinnu að fá. Mikilvægt er þó að hlúa vel að þeirri starfsemi sem hérna er svo hún fái að dafna. Fyrirtækin skapa þá bæði fleiri störf og meiri verðmæti fyrir svæðið. Ný störf þurfum við svo að skapa með því að laða að minni fyrirtæki og einyrkja sem geta aukið þjónustu við bæði fyrirtæki og einstaklinga. Opinber störf þarf að standa vörð um og sækjast eftir fjölgun þeirra á svæðinu.

Húsnæðismál hafa haldið aftur af framgangi á svæðinu en mikil áhugi er fyrir því að flytja á svæðið. Þennan meðbyr þurfum við að nýta til að stuðla að frekari uppbyggingu, hvort sem er til að gera einkaaðilum auðveldar fyrir að byggja eða skoða uppbyggingu með aðkomu sveitarfélagsins.

Mikil fókus hefur verið á sameiningu smærri sveitarfélaga á síðustu árum. Dalabyggð verður að sýna frumkvæði í þeim efnum og ganga bæði stolt og sterk til viðræðna við þann kost sem okkur þykir vænlegastur til framtíðar. Mikilvægt er að íbúar taki þátt í sameiningarkönnun meðfram sveitarstjórnarkosningunum og sýni hvert íbúar vilji sameinast. Skýr niðurstaða í þeirri könnun styrkir samningsstöðu Dalabyggðar í komandi viðræðum.

Nýsköpun verður mikilvæg til að styrkja búsetu og landnýtingu til sveita. Einnig er mikilvægt  að nýta vel Nýsköpunar- og frumkvöðlasetrið okkar og nota það sem stökkpall í framtíðina. Nýtum þekkinguna og tækifærin á svæðinu til að gera eitthvað einstakt.

Vegamál, rafmagnsmál, heitt vatn, ljósleiðari og símasamband eru allt dæmi um innviði sem virkilega er þörf á að ýtt sé fast á eftir frekari uppbyggingu á og þá gildir það eitt að láta í sér heyra og forgangs röðun okkar sé skýr.

Bygging íþróttamannvirkja verður krefjandi en nauðsynlegt verkefni næstu árin. Í framkvæmdunum þarf að nýta hverja krónu sem best en samt þannig að aðstaðan verði okkur til sóma.

Verkefnin á komandi kjörtímabili eru því mjög krefjandi og vil ég leggja mitt af mörkum að þau verði Dalabyggð til heilla. Ég hef metnað og vil sinna þeim störfum sem mér er treyst fyrir af mikilli ábyrgð.

 

Eyjólfur Ingvi Bjarnason sækist eftir að fá að starfa fyrir íbúa Dalabyggðar í sveitarstjórn:

Ég er 38 ára, búsettur í Ásgarði ásamt Guðbjörtu Lóu og eigum við tvær dætur saman.

Stúdent frá FVA, búfræðingur frá Hvanneyri, með MSc próf í erfða- og kynbótafræði búfjár frá UMB í Noregi og hef sótt ýmis námskeið á undanförnum árum og klára diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við HÍ í vor. Ég er bóndi í Ásgarði, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sinni stundakennslu við LbhÍ ásamt því að vinna lítillega við bókhald.

Ég hef setið í sveitarstjórn Dalabyggðar frá 2018 og verið virkur í nefndarstarfi á vegum sveitarfélagsins frá því árið 2006. Ég er reiðubúinn að sitja áfram í sveitarstjórn og leggja áfram mitt af mörkum til að vinna að eflingu okkar samfélags á komandi misserum. Stóra verkefnið framundan er efling stjórnsýslu Dalabyggðar með sameiningu við annað sveitarfélag en Dalirnir eiga þar mörg tækifæri vegna staðsetningar sinnar.

Ég vil sjá öflugri Dali á komandi árum og vil reyna leggja mitt af mörkum í sveitarstjórn til að skapa þau skilyrði að einstaklingar og fyrirtæki sjái Dalina sem valkost til að setjast hér að.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei