Kosningar 2018

Sveitarstjórnarkosningar 26. maí 2018

Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí rann út kl. 12 á hádegi laugardaginn 5. maí 2018. Enginn framboðslisti barst og verða því óhlutbundnar kosningar (persónukjör).

Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

 Undan endurkjöri hafa skorast

   Halla Sigríður Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal

   Ingveldur Guðmundsdóttir í Stórholti

   Jóhannes Haukur Hauksson í Búðardal

 Þeir sem vilja lýsa yfir áhuga á að starfa í sveitarstjórn Dalabyggðar og nafn sitt hér skulu senda tölvupóst á dalir@dalir.is eða koma bréfi á skrifstofu Dalabyggðar sem fyrst. Stutt kynning á frambjóðanda og ljósmynd mega fylgja.

Einar Jón Geirsson, Lækjarhvammi 3, Búðardal

Ég heiti Einar Jón Geirsson og er fæddur 1975. Ég er í sambúð með Herdísi Ernu Gunnarsdóttur aðstoðarleikskólastjóra og saman eigum við sex börn og tvær tengdadætur. Það er einstaklega gott að búa í Dalabyggð. Hér býr gott fólk og börnin okkar búa við öryggi, góðan skóla og fjölbreytt tómstundastarf. Ég hef búið í Búðardal síðan 2002.

Ég er menntaður íþróttakennari frá Laugarvatni og hef starfað við íþrótta- og sundkennslu í 20 ár. Einnig hef ég unnið hér sem héraðslögreglumaður síðan 2005 og við sjúkraflutninga síðan 2009.

Ég hef smávegis reynslu af sveitarstjórnarstörfum en ég sat sem varamaður í sveitarstjórn Dalabyggðar árin 2006 til 2010. Af félagsstörfum hef ég talsverða reynslu. Ég var formaður UDN og Ungmennasambands Norður Þingeyinga ásamt því að sitja í stjórn UMFÍ í 6 ár.

Ég vil bjóða fram krafta mína til að gera gott samfélag enn betra. Mínar áherslur mun ég kynna betur í dreifibréfi.

Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir, Efri-Múla, Saurbæ

Kæru samsveitungar.

Ég hef ákveðið eftir rúmlega tveggja mánaða umhugsun og framboðsfundinn í Dalabúð að ég ætla að gefa kost á mér í næstu sveitastjórn.

Ég heiti Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir og bý með foreldrum mínum og yngri systkinum á Efri Múla í Saurbæ. Ég er 24 ára gömul og hef fyrst og fremst starfað með börnum og unglingum síðastliðin 5 ár ásamt því að vera reglulega í Samkaup/Kjörbúðinni. Ég hef verið í ungmennaráði UMFÍ og sit núna einnig í menningar- og útgáfunefnd UMFÍ. Með ungmennaráðinu hef ég haldið 5 ráðstefnur, “Ungt fólk og lýðræði”, um ungmennalýðræði og fjallað um málefni sem brenna á ungmennum að hverju sinni s.s. geðheilbrigðis-, mennta-, og samgöngumál. Ráðstefnan er stærsta ráðstefna af sinni gerð sem haldin er á Íslandi. Ég hef einnig sótt ráðstefnur og námskeið erlendis sem beinast að þátttöku ungmenna í lýðræðislegu samfélagi. Málefni og réttindi barna og ungmenna eru mér mjög kær og tek ég þeim málefnum mjög alvarlega.

Frásagnir frambjóðenda sem gefa kost á sér í næstu sveitastjórn eru mjög margar um það sama, söluna á Laugum, nýtt íþróttamannvirki í Búðardal, samgöngu-, umhverfis,íbúðar- og atvinnumál. Ég hef tekið afstöðu til flestra þessara mála en ég vil bjóða mig fram fyrst og fremst fyrir ungmennin í sveitarfélaginu.

Ég vil auka barna og ungmennalýðræði í Dalabyggð og mun allt sem ég geri vera í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem að var lögfestur hér á landi 20. febrúar 2013. Samkvæmt skilyrðum barnasáttmálans er aðeins 1 af 72 íslenskum sveitafélögum barnvænt. Ég vil gera allt sem í mínu standi veldur til þess að hækka þessa tölu og koma Dalabyggð inná lista barnvænna sveitafélaga á Íslandi. Fyrsta skrefið í því ferli væri að gera stjórnsýslu sýnilegri og leitast eftir skoðunum barna og ungmenna t.d. í gegnum ungmennaráð.

Einnig vil ég beita mér fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu í Dölunum og notfæra okkur þann eiginleika að vera miðsvæðis til að þrýsta á stjórnvöld að auka sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu. Það eru stjórnvöldin sem haga því hvernig geðheilbrigðiskerfið á Íslandi fer fram en það þýðir ekki að við getum ekki sett okkar afl á vogarskálarnar og þrýst á stjórnvöld að gera eithvað í málunum. Á Íslandi falla 35-50 einstaklingar fyrir eigin hendi á ári. Meðaltal sýnir að árlega deyja 6 ungir menn á aldrinum 18-25 ára vegna sjálfsvígs. Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök hjá ungum mönnum. Þunglyndi er algengasta ástæða örorku í heiminum. Ár hvert skaðar 1 af hverjum 5 konum sig og 90% þeirra sem stunda sjálfsskaða byrjuðu á unglingsárum. Svona dæmi má lengi telja upp og ég vil vera í þeim hópi sem breytir þessu ástandi. Ég hef sjálf glímt við geðræn vandamál síðastliðin 10 ár og veit af eigin reynslu hvað það getur verið erfitt og dýrt að leita sér hjálpar.

Almenningsgarður er líka eitt af því sem mig langar til að sjá í sveitafélaginu. Þetta þarf ekki að vera flókið og dýrt verkefni og ég tel að garðurinn geti skapað mikla fjölbreytni í félagslífi fyrir alla aldurshópa.

Síðast en ekki síst ætla ég að framleiða sjónvarpsþátt sem er í anda Bachelor þáttaraðanna nema hvað að þessir raunveruleikaþættir yrðu ætlaðir ungum, einstæðum bændum og í staðin fyrir rós þá yrði hverjum keppanda gefinn njóli.

Það er ekki nóg að horfa einungis til kynjahlutfalls í sveitastjórn heldur þarf einnig að gæta aldurshlutfalls svo að sem víðtækust umræða geti skapast.

Ég vona að allir nýti kosningaréttinn sinn og mæti á kjörstað 26. maí n.k.

Takk fyrir mig.

Eva Björk Sigurðardóttir, Dalbraut 6, Búðardal

Sæl öll. Eins og fyrir 4 árum þá langar mig að gefa kost á mér til starfa í sveitastjórn.

Ég er fylgjandi því að hér verði byggt íþróttahús með viðunandi aðstöðu fyrir okkur íbúa Dalabyggðar, og þá sérstaklega vegna skólabarna sem eyða alltof miklum tíma í akstur til að sækja íþróttatíma.

Mig langar líka að sjá hér öflugri endurvinnslu, þá er ég að tala um betri þjónustu við Dalamenn t.d með endurvinnslu gámum í sveitirnar og fl tunnur við heimilin.

Ég vil sjá bætta félagsþjónustu við íbúa.

En um mig. Ég heiti Eva Björk Sigurðardóttir. Ég á 3 stráka, Breka Örn, Bergjón Paul og Kristján Ingva. Ég bý með sonum mínum í Búðardal. Ég vinn sem sjúkraliði á Hjúkrunarheimilinu Fellsenda.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, Ásgarði, Hvammssveit

Ég hef síðustu fjögur ár verið varamaður í sveitarstjórn og setið allmarga sveitarstjórnarfundi. Eins hef ég átt sæti í umhverfis- og skipulagsnefnd Dalabyggðar og verið fulltrúi Dalabyggðar í Breiðafjarðarnefnd frá því í júní 2017. Ég er menntaður búfræðingur frá Hvanneyri með masterspróf í erfða- og kynbótafræði frá NMBU í Noregi. Samhliða búskap er ég í hlutastarfi hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og sinni stundakennslu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég vil standa fyrir heiðarlega, opna og gegnsæja stjórnsýslu og hef kynnt mín helstu stefnumál á íbúasíðu Dalabyggðar á Facebook en eins sendi ég út dreifbréf í Dalabyggð.

Ef kjósendur hafa spurningar til mín er síminn minn 8620384 og eins hægt að senda mér tölvubréf á eyjolduringvi@gmail.com.

Eyþór Jón Gíslason, Brekkuhvammi 10, Búðardal

Ég heiti Eyþór Jón Gíslason og er fæddur 1975 og er menntaður sjúkraflutningamaður. Ég er fæddur og uppalin á Spágilsstöðum í Laxárdal. Ég hef búið í Dölunum alla mína tíð fyrir utan nokkur ár á framhaldsskólaárunum. Foreldrar mínir hafa rekið fjárbú á Spágilsstöðum og gera enn og nú í samstarfi við systir mína mág. Ég er í sambúð með Svölu Svavarsdóttur viðskiptafræðingi sem er einnig ættuð úr Dölunum en foreldrar hennar eru fædd og uppalin í Haukadal. Við eigum 4 börn og tengdason og erum við öll búsett í Búðardal og elsta dóttirin og tengdsonurinn nýlega búin að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Okkur fjölskyldunni líður mjög vel hér og þykir mjög vænt um Dalina. Við Svala eigum og rekum fyrirtækið Gaflfell ehf. sem við stofnuðum í fyrra en starfsemin er þríþætt, þ.e. bókhaldsþjónusta, vertakaþjónusta og ferðaþjónusta. Við höfum fjárfest í eignum hér á svæðinu í kringum atvinnustarfsemina og trúum því að í Dalabyggð séu mörg tækifæri og að hér eigi íbúum eftir að fjölga og atvinnulíf eflast og vil ég setja mitt á vogarskálarnar svo það megi verða að veruleika. Áður en ég hóf eigin atvinnurekstur hef ég meðal annars starfað sem flokkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal,  rekstrarstjóri á Dvalarheimilinu Silfurtúni og við sjúkraflutninga. Ég hef mikinn áhuga á félagsstörfum og var formaður Hestamannafélagsins Glaðs í nokkur ár, sit í stjórn Landssambands hestamanna og er einnig í tölvunefnd fyrir landssambandið. Ég hef starfað sem oddviti í Dalabyggð, formaður byggðaráðs og setið í fjölmörgum nefndum fyrir sveitarfélagið.

Ég hef mikinn áhuga á að starfa fyrir Dalabyggð og óska því eftir kjöri í sveitarstjórn.
Ég hef verið í sveitarstjórn í um 10 ár og þekki því vel til sveitarstjórnarmála. Ég vil hlúa að því sem gengur vel og hefur áunnist á undanförnum árum. Það þarf að reka sveitarfélagið vel bæði fjárhagslega og um leið þannig að það þjóni íbúum sem best.

Dreifibréf er á leiðinni inn á öll heimili í Dalabyggð þar sem fram koma frekari upplýsingar um stefnumál og áherslur.

Hjördís Kvaran Einarsdóttir, Borgarbraut 7, Búðardal

Ég heiti Hjördís Kvaran Einarsdóttir og fæddist á Ísafirði 1970. Ég er gift Guðmundi Stefáni Valdimarssyni, bátsmanni á varðskipinu Tý og eigum við þrjár dætur, þær eru Guðrún Lilja (1994), Þuríður Kvaran (1997) og Jóna Margrét (2002).

Ég er íslenskufræðingur og grunn- og framhaldsskólakennari í íslensku. Ég er með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, með B.A. gráðu í íslensku og miðaldafræði frá HÍ og sérhæfði ég mig í fornsögunum og norrænum miðöldum. Ég er með kennsluréttindi og M.Ed. gráðu í uppeldis- og kennslufræði með áherslu á sérkennslu frá HÍ. Einhvern tíma hyggst ég taka meistarapróf í miðaldafræði en það er ekki á planinu á næstu árum.

Ég er almennt mjög ánægð með það sem fráfarandi sveitarstjórn hefur verið að gera. Þó er tvennt sem ég hef ekki verið alveg sátt við. Annað málanna er nú frá en það var söluferlið sem Laugar voru komnir í en sveitarstjórnin bakkaði út úr nýlega og var ég sátt við það. Svo það sé á hreinu þá er ég fylgjandi sölu á Laugum og uppbyggingu íþróttamannvirkja í þorpinu, mér er bara ekki sama hvernig það er gert og ég tel að við getum gert betur en orðið var. Hitt atriðið tengist vindmylluverinu og hefur það nú þegar verið rætt og ég veit að málið er aðeins á byrjunarreit. Ég er ekki á móti þeirri hugmynd út af fyrir sig, ég er fylgjandi grænni orku og vil vera umhverfisvæn og fagna öllu því tengdu. Ég vil samt að þessi hugmynd verði ígrunduð vel. Til að byrja með þurfa að ríkja reglur í formi laga og reglugerða um svona ver, það er algjört forgangsatriði. Einnig þarf að leggjast yfir hvernig í ósköpunum á að fara að því að byggja upp svona ver með vegakerfið eins og það er og gott sem enga hafnaraðstöðu. Hvernig á að koma efniviðnum á staðinn og hver mun sjá um uppbyggingu t.d. vegakerfisins? Þá þarf að huga að því hve mörg störf verða eftir í sveitarfélaginu eftir að framkvæmdum lýkur, er þetta þess virði til lengri tíma? Mun sveitarfélagið virkilega muna um fasteignagjöldin? Síðast en ekki síst hugnast mér engan veginn að sveitarfélagið komi nálægt nokkru sem er fjármagnað af Gamma, það er nóg að þeir eigi átta íbúðir hér í þorpinu, í gegnum Almenna leigufélagið, og hiki ekki við að kreista leiguverðið upp úr öllu valdi og gera íbúum þessara íbúða þannig óleik. Ég tel að sveitarstjórnin verði að hugsa þann þátt mjög vel, viljum við þessa hræGAMMA í samfélagið frekar en orðið er? Þetta eru allt atriði sem ég vil skoða niður í kjölinn áður en ákvörðun verður tekin.

Enn eitt atriði sem þarf að huga vel að er aðgengi fatlaðra að opinberum stöðum hér í sveitarfélaginu þar sem málefni fatlaðra eru á herðum sveitarfélagsins og þar fyrir utan ber hverri stofnun að sjá um að þessir hlutir séu í lagi. Í dag er afar erfitt fyrir hreyfihamlaða að komast inn í stofnanir bæjarins. Það þarf að huga að þessu.

Það er margt gott að gerast í sveitarfélaginu. Ungt fólk kaupir hér eignir sem sýnir að samfélagið er að endurnýja sig. Það er alltaf merki um vöxt þegar unga fólkið snýr aftur og festir kaup á fasteignum og vill setjast að. Unga fólkinu fylgir börn o.s.frv. Undanfarið rúmt ár hafa a.m.k. fimm fasteignir í þorpinu gengið kaupum og sölum og aðeins ein hefur hlotið þau örlög að verða sumarbústaður. Það er gróskumerki. Aukinheldur við það að eldri hús seljist þá hefur verið tekinn grunnur að nýju húsi hér í bænum, í fyrsta skipti í mörg ár. Hér er allt að gerast og það er frábært!
Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta er neikvæð byggðaþróun, fólk flytur burt úr samfélaginu. Á sama tíma og okkur tekst að halda úti grunnskóla á öllum stigum fækkar börnum í yngstu bekkjunum og það er ekki góð þróun. Ég vona að það muni breytast á næstu árum með tilkomu þessa unga fólks sem ég nefndi fyrr. Ég vil meina að þessi neikvæða byggðaþróun hafi að hluta til orðið vegna þess húsnæðisskorts sem hér hefur verið undanfarin ár. Það þarf því að ráðast í það verk að fjölga íbúðarhúsnæði og er sú vinna nú þegar hafin með nýju deiliskipulagi og lóðaframboði ásamt samræðum við leigufélög. Ígrunda þarf jafnframt mjög vel aðkomu Dalabyggðar og ríkisins að byggingu íbúðarhúsnæðis. Ég hef nefnilega fulla trú á að fólk komi verði til húsnæði fyrir það. Að það sem ég rakti hér að ofan sýni það. Enn fremur þarf að huga að atvinnuuppbyggingu. Eðlilega hefur það verið örðugleikum háð að byggja upp atvinnutækifæri þegar húsnæði vantar. Ég veit að hér er næga vinnu að hafa fyrir þá sem vilja vinna en á sama tíma erum við að missa frá okkur mikilvæg störf og þau störf sem eftir eru verða einsleitari. Það má auka fjölbreytnina og horfi ég til verkefna eins og ferðaþjónustunnar með það í huga en auðvitað þarf að koma til enn frekari fjölbreytni ef vel á að vera.

Í vetur hef ég fylgst nokkuð náið með hugmyndum og þróun verkefnisins um Vínlandssetur og ég get sagt fyrir mig að ég hlakka mikið til að sjá það verða að veruleika. Ég tel að koma þess muni marka upphaf aukinnar ferðamennsku í sveitarfélaginu, uppbygging henni tengdri og þar af leiðir meiri atvinna í þeim geiranum. Ég er einnig mjög spennt fyrir öðrum hugmyndum sem ég hef heyrt viðraðar um ferðamennsku, eins og hugmyndir Svavars Gestssonar um svæðið. Ég tel að Dalamenn þurfi að gera meira í tengslum við ferðamennsku, þar liggi ónýtt tækifæri, við búum einfaldlega á sögufrægasta svæði landsins í svo mörgum skilningi og eigum, að mínu mati, að nýta okkur það. Á sama tíma þurfum við að læra af reynslu annarra svæða á landinu hvað ferðamennskuna varðar svo við keyrum ekki héraðið í kaf. Þarna þarf að vanda til verka.

Ég varð vör við það þegar ég flutti hingað að afar fáir virtust vita hvar Búðardalur er og rugluðu því ítrekað við Bíldudal. Þegar fólk áttaði sig á því hvar bærinn er þá heyrðist oft „Já, ég hef oft ekið þar í gegn. Er einhver alvöru byggð þar?“ og svo hófst söngur á „laginu“!!! Ég held að margir kannist við þetta og þá tilfinnigu sem þessu fylgir að Dalabyggð sé jaðarbyggð og bærinn sjoppa á leiðinni eitthvert annað. Þessu vil ég breyta. Ég vil breyta þessari hugmynd fólks um að Dalirnir séu jaðarbyggð þar sem við erum einmitt í miðjunni. Héðan liggja leiðir til allra átta og við eigum að markaðsetja byggðina sem slíka. Hér þarf að vera eitthvað nógu spennandi í gangi til að fólk vilji koma HINGAÐ og STOPPA hérna um sinn. Við búum á öruggasta svæði landsins. Hér er engin vá sem vofir yfir okkur og jafnvel verstu veður fara mjúkum höndum um okkur miðað við önnur landssvæði. Þess vegna eru okkur allir vegir færir að færa okkur frá jaðrinum inn í miðjuna. Við þurfum ekki að vera jaðarsamfélag sem nær enginn veit hvar er staðsett á landinu, við eigum að vera í miðjunni, miðjan þaðan sem vegir liggja til allra átta því hér er jafnlangt til annarra byggðarlaga í allar áttir. Til þess að þetta sé hægt er frumskilyrði að bæta samgöngur öllum til heilla. En það er bara fyrsta verkefnið, hér þarf að byggja upp eitthvað spennandi til að falast eftir. Ég sé fyrir mér að ferðamenn komi hingað, eigi eins konar „bækistöð“ hérna og fari síðan í dagsferðir héðan í allar áttir. Þannig yrðum við miðjan en ekki jaðarinn með eina sjoppu og pissustop.

Ég vil reyna að efla möguleika barna og unglinga á íþróttaiðkun meira en verið hefur. Það starf sem hefur verið unnið, hefur verið gott en það þarf meira. Ef við getum ekki boðið upp á reglubundnar æfingar hér heima ætti að bjóðast einhverskonar tómstundaávísun eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum, sem hægt væri þá að nota þar sem boðið er upp á æfingar. Nokkuð er um að foreldrar séu að fara með börnin sín í önnur sveitarfélög til æfinga og þetta væri þá til að mæta þeim kostnaði, rétt eins og gert er með ávísuninni í öðrum sveitarfélögum. Ég hef alltaf undrað mig nokkuð á að hér sé ekki boðið upp á frístundaávísun, sérstaklega í ljósi þessara aðstæðna.

Ég met íbúalýðræði mikils og vil búa í samfélagi þar sem almenn sátt ríkir um hlutina og allir geti komið sjónarhorni sínu að. Mér finnst ég hafa búið í þannig samfélagi undanfarin fimm ár og mér finnst það afskaplega dýrmætt. En það verður að halda boltanum á lofti og efla byggðina enn frekar. Til þess eru íbúafundur og önnur aðkoma íbúa að stjórn samfélagsins bráðnauðsynleg. Það sem hefur verið gert hefur verið til fyrirmyndar en ég vil sjá meira af þesslegu.

Jón Egill Jónsson, Lækjarhvammi 4, Búðardal

Ég hef talað um það áður að ég ætla að bjóða mig fram til sveitastjórnar næstu 4 árin. En ég vill endilega kynna mig betur og mínar skoðanir.

Ég heiti Jón Egill Jónsson og er fæddur 1983. Ég er í sambúð með Stefaníu Björg Jónsdóttur. Við eigum tvö yndislegt börn, Alexöndru Öglu(2009) og Sigurjón Egill(2015).
Ég er Dalamaður í húð og hár, ég hef búið í búðardal, Sauðhúsum og Reykjavík. Við flutum vestur í ágúst 2016 og bjuggum á Sauðhúsum meðan við biðum eftir húsi. Við keyptum okkur loksins hús núna í mars og var það mikill hamingja og erum við enþá að koma okkur fyrir, og okkur hlakkar til framtíðarinnar hérna. Við búum að Lækjarhvammi 4.
Ég fór í framhaldskóla á Akranesi og svo vann ég í 10 ár fyrir Securitas í Reykjavík. Árið 2015 var ég ný byrjaður í nýrri vinnu þegar ég lendi inn á spítala í 10 máunuði með slæma sýkingu í mjöðm.
Maður þroskaðist hratt á líkama og sál á öllum þessum tíma og fór að hugsa hvernig maður var að forgangsraða í lífinu.
Þannig að þegar ég útskrifaðist var tekinn sú ákvörðun að breyta til og minnka stressið og koma börninum í betra og frjálsara umhverfi svo við flutum í dalina og erum við rosalega ánægð hérna enda ekki annað hægt.
Það sem maður hefur gert eftir að við flutum vestur er að ég vann í ár hjá Sæfrost ehf, sem er frábært fyrirtæki sem er alltaf að stækka og þróast og það er það sem dalabyggð þarf á að halda.
Svo skipti ég um vinnu í mars og tók við sem íþrótta- og tómstundafulltrúi Dalabyggðar. Það er yndislegt starf sem leyfir mér að vinna með grunnskólanum, börnunum, eldriborgurum og flestum þar á milli.
Ég er einnig í stjórn björgunarsveitarinnar, formaður Ólafs Pá og formaður foreldrafélags Auðarskóla.

Þá getum við farið að tala um stjórnmál .
Ég vill byrja á að segja að ég er rosalega ánægður að það sé einstaklingskjör í dalabyggð, þetta er hreinasta dæmið um gott lýðræði, þú getur kosið ólíkt fólk með ólikar skoðanir sem þú treystir.

Ég hef mikinn áhuga og metnað að vinna í þágu dalabyggðar, ég hef mætt á marga fundi seinnsta árið til að kynna mér starfið, ég hef líka kynnt mér vel þau mál sem eru í gangi og þau sem eru framundan, ég sagði fólki fyrir jól að ég ætlaði framboð og hef bara orðið áhugasamari með tímanum, ég tilkynnti framboðið mitt snemma enda finnst mér það eðlilegt að gera það tímalega að tillitsemi við fólk sem þarf tíma til að kynna sér framboðendur og spyrja þá um sín áherslumál. Margir hafa haft samband seinnustu mánuði og stoppað mann og viljað spjalla og það er hitt besta mál, maður vill að fólk tali við mann og segji sér hvað því finnst betur mega fara.

SAMGÖNGUR eru mikið hitamál enda ekki skrítið þar sem flestir vegnir í dölum eru enþá malarvegir, fólk þarf samt að passa sig í að lofa framkvæmdum þar sem ákvarðanir um svona stórar og dýrar framkvæmdir eru að öllu leiti teknar af ríkisstjórninni,
það er hins vegar á ábyrð sveitastjórnar að þrýsta á framkvæmdir og reyna að koma þeim ofar á forgangslistan og það mun ég svo sanni gera það ef ég hlýt kostningu.

LAUGAR. Ég vill selja eignina, það er ekki hægt að taka ákvörðun í þessu máli eingöngu frá tilfinningalegri ástæðu, ég hef mætt á alla sveitastjórnafundi síðan í haust að undanskildum þeim seinnasta og kynnt mér málið mjög vel.
Peninga hliðin er einföld, laugar er rekið með 7 til 9 milljóna tapi á ári, það þarf að fara i viðhald fyrir lámark 150 milljónir á næstu árum, þetta getur sveitarfélagið ekki rekið.
Að sjálfsögðu á ekki að selja á hvaða verði sem er og það var flott hjá sitjandi sveitastjórn að hafna seinnasta tilboði þegar það var orðið óhagstætt fyrir sveitarfélagið.
Fólk er alltaf að tala um að það séu miklir möguleikar á Laugum og er það alveg rétt, það er bara ekki verkefni sveitarstjórnar að fara í áhættufjármögnun á verkefnum þarna. Þetta er kjörið fyrir fjárfesta ekki sveitarfélag.

ÍÞRÓTTAHÚS í búðardal er að sjálfsögðu það sem ég vill sjá í framtíðinni ef það tekst að selja lauga. Það liggur í augum uppi að það yrði byggt í búðardal því þar er leikskólinn, grunnskólinn og hjúkrunarheimilið. Þeir sem ekki hafa kynnt sér hvað margir krakkar þurfa nú þegar að vera lengi í skólabíl myndu skilja að það væri frábært fyrir krakkana að losna við aukinn akstur inn að laugum og sparar tíma og pening.

SPENNANDI TÍMAR FRAMUNDAN. Það er margt að gerast á næstuni í dalabyggð, það á að stækka leifsbúð og byggja upp vínlandssetur sem lítur mjög vel út, það er mikill uppbygging í Ólafsdal og þar hafa fundist fornminjar og verður það stórt verkefni. Staðarfell er til sölu og verður spennandi hvor það seljist og hvort það verður uppbygging þar og atvinnutækifæri.

FERÐAMENN eru nuna á hverju strái og við þurfum að þjónusta þá og atvinnutækifærin tengd ferðamönnum eru alltaf að aukast.
Við eigum flott tjaldsvæði sem ég vill gera en flottara og styrkja þannig þá þjónustu.
Við þurfum líka að hugsa okkur vel um hvar við getum fjölgað ferðafólki og hvar viljum við ekki fá of mikinn átroðning.

SVEITARFÉLAGIÐ hefur verið að skila hagnaði seinnustu ár og á sitjandi sveitarstjórn hrós skilið fyrir það og er það einmitt mjög mikilvægt að halda áfram að reka dalabyggð með hagnaði og borga niður skuldir.
Það verður eitthvað að gerast í húsnæðismálum, það vantar íbúðir til að anna eftirspurn og til að samfélagið okkar geti stækkað.
Það vantar minni íbúðir, einhverstaðar þarf fólk að geta byrjað að búa, núna eru bara stór einbýlishús í boði og ekkert annað, ungt fólk vill hafa möguleika á að byrja í minna húsnæði og svo líka eldra fólk sem vill geta átt möguleika á litlum íbúðum.
Sveitastjórnin á að hvetja fólk til að taka af skarið í atvinnuuppbyggingu og veita styrki til að hjálpa þeim að koma fótunum undir sig. Allir græða ef það verða ný störf sköpuð.

ENDURVINNSLA er alltaf að verða mikilvægari og við þurfum að fylgja í þeirri þróun, eins og fram hefur komið hjá sveitafélaginu þá eru reglur um flokkun alltaf að verða strangari og förgun að verða dýrari og dýrari. Miklar breitingar eru framundan í flokkun og næsta sveitastjórn hefur mikið verk að vinna að endurskipuleggja endurvinnslu í dalabyggð. Ég sé fyrir mér að setja fleirri tunnur við heimili til að efla endurvinnslun.

VINDORKUGARÐURINN er búinn að vera mikið hita mál sem hefur reyndar verið í dvala seinnipart vetrar, talað er um að þetta sé til athugunar og á algjöru byrjunarstigi. Þetta ferli getur tekið 7 til 10 ár.
Þetta er mál sem mér finnst mjög mikilvægt að sé unnið hægt og í samvinnu við alla dalamenn. Þetta er í það stóri stærðargráðu að þetta kemur okkur öllum við.

Ég myndi hafa opnari stjórnunarhætti, sveitarstjórnin er kosinn af fólkinu og það á að leyfa fólki að fyljast betur með þróun mála og auka aðgang til að koma með spurningar og fyrirspurnir. Alltof mikið af ákvörðunum er tekið án þess að fólk viti af því.

Virðingafyllst
Jón Egill Jónsson

Ragnheiður Pálsdóttir, Hvítadal, Saurbæ

Ég heiti Ragnheiður Pálsdóttir er fædd 1969 og er gift Þórarni B. Þórarinssyni. Við erum bæði Rangæingar. Við eigum 4 börn 2 fósturbörn og eitt barnabarn. Við höfum búið í Hvítadal í Dalabyggð í 11 ár. Við erum sauðfjárbændur og ég starfa einnig sem verkstjóri við heimilishjálp Dalabyggðar.

Ég hef verið í fræðslunefnd Dalabyggðar síðastliðin 8 ár. Þar hefur mikið verið rætt um akstur til og frá Laugum og hvað sum börn þurfa að eiða miklum tíma í bílferðum til viðbótar við langar leiðir milli heimilis og skóla. Á þessum tíma óskaði fræðslunefnd eftir því að það yrði skoðað með að gera upp sundlaugina í Búðardal og að sundkennsla færi fram þar.

Á fundi fræðslunefndar 2 maí 2018 var til umræðu að íþróttir færu fram í Búðardal næsta vetur og hætt yrði akstri að Laugum. Ég styð þessa ákvörðun og er ánægð með að loksins fái börnin okkar þá hreifingu sem þeim er ætlað samkvæmt stundarskrá og verji ekki helming þess tíma í bílferðir milli Lauga og Búðardals.

JÁ ég vil íþróttahús í Búðardal og ég vil selja Laugar og vanda til á báðum stöðum.

Mig langar að efla endurvinnslu og útdeila þar til gerðum tunnum við öll heimili sveitafélagssins.

Mér finnst vanta húsnæði og fjölbreytni í atvinnumálum.

Ég hef ekki setið í sveitastjórn áður og ætla að fara varlega með öll loforð en ég get lofað að gera ávallt mitt besta og hef ákveðið að bjóða mig fram til sveitastjórnarkosninga 26. maí 2018.

Sigríður Huld Skúladóttir, Steintúni, Skógarströnd

Sigríður Huld Skúladóttir heiti ég og bý í Steintúni á Skógarströnd og er sauðfjár- og kúabóndi á Emmubergi. Ég er gift Björgvini S Ragnarssyni pípulagningameistara og eigum við þrjú börn, tvíburana Emblu Dís og Kristeyju Sunnu 11 ára og Guðmund Ara 4 ára. Ég er með BS í viðskiptafræði frá HÍ, útskrifaðist þaðan 2010 af stjórnunarlínu. Við útskrift hóf ég störf hjá Reykjavíkurborg í fjármáladeildinni hjá Leikskólasviði sem kynnti mig töluvert fyrir stjórnsýslunni og skólamálunum. Við fjölskyldan flytjum svo hingað vestur, aftur heim í lok árs 2011 sem er ein okkar besta ákvörðun.

Mín framtíðarsýn fyrir Dalabyggð er að hér verði eftirsóknarvert, fjölskylduvænt og gott að búa, og snúast mínar áherslur að því. Ég hef nefnilega óbilandi trú á sveitinni okkar, hér held ég að leynist fjölmörg tækifæri og langar mig að leggja mitt á vogaskálarnar hvað það varðar.

Það er eitt af mínum meginmarkmiðum að berjast fyrir bættum samgöngum og fjarskiptum því þessir þættir eru algjört lykilatriði til að sveitin okkar geti haldið áfram að styrkjast og dafna. Að hafa þessi mál í lagi getur stuðlað að auknum tækifærum, m.a. í atvinnu, ferðamálum, möguleikum á fjarnámi og jafnvel fjarvinnu, því á þessari tækniöld sem við búum á er möguleikarnir margskonar og getur þar með orðið að fýsilegri kosti að búa í dreifbýlinu, svo ég tali ekki um skólabörnin okkar sem þurfa að fara um þessa vegi, langar leiðir dag hvern. Þessi barátta er sannanlega ekki auðveld en ráðamenn verða að fara opna augun fyrir því hversu gífurlega mikilvægt þetta er orðið fyrir okkar sveit, það er ekki nóg með að yfir 70% vega eru handónýtir malavegir þá erum við með þá sem eru með þeim hættulegri líka.

Ég vil sjá okkur snúa vörn í sókn og markvisst reyna að efla atvinnusköpun í sveitarfélaginu. Virkjanakostir þ.e.a.s vindorkan, ferðamál, gagnaver er allt möguleikar sem vert er að skoða, þó ekki sé nema það, en síðast en ekki síst eigum við að gera landbúnaðinum okkar hátt undir höfði, því við erum jú landbúnaðarhérað og þar eru ýmis tækifæri sé fólk opið fyrir því. Fjölbreyttir atvinnumöguleikar er forsenda fyrir því að hér sé eftirsóknarvert að búa og eflir hag sveitarfélagsins. Skipulagsmál liggja fyrir á komandi tímabili og auka þarf fjölbreytni í lóðaúrvali. Það þarf að vera hvatning í því að byggja húsnæði hér bæði til einkanota og eins leiguhúsnæði, ég hallast þó síður að því að sveitarfélagið eigi að byggja leiguhúsnæði og vil skoða aðrar leiðir. Þessir þættir haldast verulega í hendur.

Skólamálin hafa alltaf verið mér hugleikin eftir að hafa unnið á leikskólasviði hjá borginni. Sterkur og faglegur skóli er stór þáttur í því hvernig fjölskyldufólk sér okkar sveitarfélag og spilar stóran þátt í hversu eftirsóknarvert er að búa hér. Ég er hlynnt því að selja Laugar og skoða það í framhaldinu að byggja íþróttamiðstöð í Búðardal og held að það geti haft mjög góð áhrif á okkar samfélag, enda er góð íþróttaðstaða eitt af því sem skiptir miklu máli í dag. Mín krafa og skoðun er sú að vanda til verka, standa klár á kostnaðargreiningum og hafa hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi þegar farið er í slíka framkvæmd.

Að lokum fái ég kosningu, þá er í grunninn mitt aðaláherslumál að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem eru á borði sveitarstjórnar hverju sinni með það markmið að það verði samfélaginu okkar til hagsbóta, vonandi treystið þið mér til þess. Því miður sé ég mér ekki fært að mæta á framboðsfundinn á fimmtudaginn vegna anna í sauðburði, og verð því að fá að nýta mér internetið til að koma mínu á framfæri.

Sigurður Bjarni Gilbertsson, Borgarbraut 1, Búðardal

Ég heiti Sigurður Bjarni Gilbertsson,  er fæddur árið 1993 og er uppalinn í Búðardal. Ég starfa sem landpóstur hjá Íslandspósti, Sjúkraflutningsmaður hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og er leiðbeinandi á leikskóladeild Auðarskóla. Ég hef verið virkur í félagsstörfum, hef meðal annars átt sæti í stjórn UDN og Ólafs Pá og er formaður Björgunarsveitarinnar Ósk. Síðastliðin 4 ár hef ég átt sæti í sveitarstjórn Dalabyggðar. Ég hef áhuga á að starfa áfram í sveitarstjórn á komandi kjörtímabili og hyggst því sækjast eftir endurkjöri. Ég hef einsett mér að taka upplýstar ákvarðanir eftir minni bestu sannfæringu og hef ávallt hag sveitarfélagsins að leiðarljósi. Núverandi sveitarstjórn er að mínu mati að skila góðu búi sem getur skapað svigrúm/tækifæri vandi menn til verka.

Nýverið var ég að festa kaup á húsnæði í Búðardal sem ég stefni á að flytja í á næstu vikum. Í Dalabyggð líður mér vel, hér er gott að búa og friðsælt, góð þjónusta og gott samfélag. Hér hef ég því hugsað mér að setjast að og vill því láta gott af mér leiða til samfélagsins.

Ég er fylgjandi sölu Lauga í Sælingsdal og uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal. Ég er sannfærður um að mannvirkin munu seljast og vill ég því auglýsa Laugar strax á nýju kjörtímabili.

Það hefur legið fyrir að húsnæðisskortur sé í Dalabyggð líkt og í öðrum sveitarfélögum svo ég held að húsnæðismál verði framarlega á baugi hjá öllum. Ég hef áður talað um að ég sé ekki hrifinn af því að sveitarfélagið fari að byggja leiguhúsnæði fyrir almennan leigumarkað og tel ég að við ættum að leita annarra leiða. Til dæmis getur sveitarfélagið komið til móts við einkaaðila og leigufélög með ýmsu móti sem gæti liðkað fyrir framkvæmdum.

Á næsta ári mun renna út samningur varðandi endurvinnslumál. En það er sífellt að verða meiri vitundarvakning í samfélaginu okkar varðandi flokkun og við verðum að fylgja þeirri þróun.

Annars eru mörg önnur spennandi verkefni fram undan hjá sveitarstjórn Dalabyggðar sem eru mér ofarlega í huga t.d. atvinnumál, ný Aðalskipulagsgerð, samgöngumál og fjarskiptamál.

Einnig langar mig að minnast á íbúaþing, hugmynd sem ég hef nefnt. Mig langar til þess að halda árlega Íbúaþing (vinnufund) til þess að sveitarstjórnarmenn og íbúar eigi samtal og myndi í sameiningu stefnu í sveitarfélaginu og markmið hvernig við ætlum að komast á þann stað sem við viljum vera. Á hverju ári yrði svo farið yfir hvað hafi tekist á árinu, hvað sé í vinnslu og hvað hefur setið á hakanum. Þetta er ein leið til þess að virkja íbúalýðræði. Einnig myndi ég ætla að framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins yrði til umræðu á slíkum fundi svo íbúar hafi meira um það að segja í hvaða verkefni framkvæmdafé sveitarfélagsins er varið.

Að lokum vill ég hvetja alla til þess að nýta sér kosningarrétt sinn þann 26. maí þegar við göngum til kosninga. Kosningarrétturinn er ekki sjálfgefinn!

Sigurður Sigurbjörnsson, Vígholtsstöðum, Laxárdal

Kæru sveitungar.

STUTT er til sveitarstjórnarkosninga en kosið verður laugardaginn 26.maí næstkomandi. Strax í upphafi hér vil ég segja að ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða fram krafta mína til að sitja í sveitarstjórn Dalabyggðar næsta kjörtímabil.

FYRIR þá sem ekki þekkja mig þá heiti ég Sigurður Sigurbjörnsson fæddur árið 1976 og er frá Vígholtsstöðum í Laxárdal.

ÉG bjó á Vígholtsstöðum frá fæðingu en hef verið með búsetu á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1998, ef undanskilið er árið 2014 til 2015 þegar ég og fjölskyldan fluttum vestur í Búðardal í eitt ár.

EINS og margir vita starfaði ég sem lögreglumaður í 10 ár hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og sex ár af þeim tíu starfaði ég sem rannsóknarlögreglumaður í ofbeldis og kynferðisbrotadeild og var virkur í félagsmálum í lögreglunni og var meðal annars varaformaður Félags íslenskra rannsóknarlögreglumanna.

ÉG hef ætíð sótt mikið í Dalina og sótti ég um starf varðstjóra í Búðardal árið 2004 en fékk því miður ekki en hef samt verið svo lánsamur að hafa náð að starfa við afleysingar sem lögreglumaður í Búðardal og víðar.

ÞEGAR ég flutti í Búðardal 2014 starfaði ég hjá verktakafyrirtækinu Kolur ehf og var einnig sjúkraflutningamaður hjá HVE í Búðardal. Undanfarin rúmlega þrjú ár hef ég starfað sem viðskipta og þjónustustjóri hjá Skeljungi en er að hefja störf sem rekstrarstjóri hjá Ökuskólanum í Mjódd um þessar mundir.

ÉG er Dalamaður í báðar ættir og mjög stoltur að getað kallað mig Dalamann. Ég stofnaði vefsíðuna Búðardalur.is veturinn 2010/2011 ásamt vini mínum Þorgeiri Ástvaldssyni Dalamanni en síðan var stofnuð á sínum tíma til að mótmæla fyrirætlunum þess efnis að leggja niður eina stöðugildi lögreglumanns í Dölum.

Í framhaldinu ákváðum við að halda áfram með vefsíðuna og setja upp vefmyndavél í Búðardal og safna menningartengdu efni fyrir Dalamenn á vefinn og skrifa fréttir og þá mest jákvæðar fréttir af svæðinu. Búðardalur.is hefur fest sig í sessi og ekki er óalgengt að stórar fréttaveitur á borð við RÚV.IS,VISIR.IS og MBL.IS vitni í síðuna og tengi fréttir sem þar eru skrifaðar. Ég á einnig lénið dalamenn.is sem ég hef ekki enn ákveðið hvernig ég ráðstafa.

VARÐANDI þau mál sem hafa hvað mest verið í umræðunni undanfarið langar mig til að byrja með að segja að mikið vildi ég óska þess að þegar ég var barn í Grunnskólanum í Búðardal hefðum við haft íþróttahús og sundlaug í Búðardal til afnota. Það var reyndar mjög sérstök tilfinning þegar eldri drengurinn minn var með fyrstu börnunum til að taka þátt í sundkennslu í sundlauginni í Dalabúð haustið 2013 eftir áratuga sundlaugaleysi í Búðardal.

SJÁ frétt: http://budardalur.is/2013/10/14/timamot-i-sundkennslu-i-dalabyggd/

EN ég er gríðarlega fylgjandi byggingu íþróttahúss í Búðardal og mun leggja mitt til leiða til að af þeirri byggingu geti orðið þegar fjármagn hefur verið tryggt og rekstrargrundvöllur tryggður.

HVAÐ varðar Lauga í Sælingsdal þá þarf að vanda gríðarlega til verka þegar kemur að ákvörðun um framtíð þessa merka staðar sem allri Dalamenn og miklu fleiri hafa svo sterkar taugar til, og ef niðurstaðan verður að þennan stað eigi að selja þá þarf verðmiðinn og greiðslufyrirkomulag að vera ásættanlegt.

EINS og allir sem hafa fylgst með undanfarið hef ég ásamt stórum hópi fólks vakið athygli á vinnubrögðum sitjandi sveitarstjórnar í svokölluðu vindmyllumáli. Í kringum þetta mál stofnuðum við vefsíðuna Hagsmunir.is þar sem við komum okkar skoðunum á þessu máli á framfæri. Ég hef ekki sett mig upp á móti virkjun vindorku, en ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að fara varlega í þessum málum á meðan ekki er til regluverk hjá íslenskum stjórnvöldum um þessi mál en vinna við það er í gangi hjá stjórnvöldum. Bíðum eftir að reglur verði settar og tökum svo upplýsta ákvörðun í samvinnu við íbúa, landeigendur og hagsmunaaðila.

ÉG er sammála því að við megum ekki loka á fjárfesta og/eða aðila sem hafa áhuga á að koma með verkefni og mögulega atvinnuuppbyggingu inn í héraðið sem getur skapað tekjur til sveitarfélagsins og mögulega arfleidd störf. En förum eftir reglum og gerum hlutina rétt og í sátt. Ef reglur og fordæmi eru ekki til er varðar málefni líkt og í kringum virkjun vindorku, bíðum þá eftir að reglur hafa verið settar og stígum varlega til jarðar og gerum okkur ekki að tilraunasvæði og fordæmisgefandi svæði áður en reglur og eftirlit eru komin á. Dalirnir eru dýrmætari en það.

ÞETTA eru Dalirnir, okkar land, okkar svæði. Vöndum okkur þegar kemur að stórum ákvörðunum og höldum öllum íbúum upplýstum áður en farið er í svo stórar framkvæmdir. Ég tel að stærstu verkefni næstu fjögurra ára séu meðal annars þau að draga í héraðið opinber störf, uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og eflingu allra þátta er snúa að ferðamennskunni og uppbyggingu vegakerfisins.

SEGJA má að Dalabyggð sé að mörgu leiti í lykilstöðu vegna staðsetningar sinnar þegar kemur að stöðugri aukinni umferð sem liggur um héraðið til og frá Vestfjörðum. Bæði ferðamenn og þeir miklu flutningar sem eiga sér stað þar í gegn ásamt tengingu Dalanna við Snæfellsnes, Vestfirði og Norðurland vestra. Og þarna sannast það sem góður og genginn vinur minn Friðjón Þórðarson fyrrverandi ráðherra sagði við mig eitt sinn. “Dalirnir eru og munu verða miðjan” og það var satt hjá Friðjóni.

OG ég held að nú á tímum séu Dalirnir meira í miðjunni en þeir hafa nokkurn tíman áður verið í sögunni og í þessu hljóta að felast mikil sóknarfæri þar sem umferðin á bara eftir að aukast um Dalina í framtíðinni. Og í ljósi þess er ekki hægt annað en að minnast á samgöngumálin sem eru mér mjög ofarlega í huga. Vegakerfið okkar hér í Dölum er að mínu mati og annara mjög slæmt hvort talað sé um bundið slitlag eða malarvegi en yfir 70% vega í Dölum eru malarvegir. Við þurfum að laga vegin í kringum strandir á Skarðsströnd og Fellsströnd sem og aðra malarvegi í sveitinni og útrýma einbreiðum brúm.

ÉG vil styðja við alla þá gríðarlegu möguleika sem við Dalamenn eigum í formi sögunnar. Dalirnir eru og verða eitt söguríkasta hérað landsins eins og Guðni forseti komst að orði í einstakri opinberri desemberheimsókn sinni í Dalina á liðnum vetri. Má þar helst nefna stórkostleg áform um uppbyggingu í Ólafsdal og verkefnið “Gullni söguhringurinn” sem Svavar Gestsson hefur farið fyrir og kosið að kalla svo.

EN Dalirnir eru, hafa verið og munu verða í grunninn landbúnaðarhérað og þannig á það að vera áfram. En við þurfum að vera víðsýn og opin og efla samstarf við nærliggjandi sveitarfélög og svæði en það mun bara verða öllum til hagsbóta.

NÚ er í gangi langning ljósleiðara um Dali og þrufum við að tryggja það að öll lögheimili í Dölum eigi möguleika á háhraða nettengingu.

Í lokin vil ég segja þetta og vil að það liggi fyrir, að í dag er lögheimili mitt á Vígholtsstöðum þó ég sé búsettur á höfuðborgarsvæðinu sökum minnar vinnu. Til þess að geta búið á svæðinu þarf að hafa atvinnu og húsnæði og vil ég vinna að því eins og ég tók fram hér að framan að sækja opinber störf og færa þau í Dalina og styrkja almenna atvinnuuppbyggingu á svæðinu og þannig fáum við til okkar fólk en þá þurfum við líka að geta boðið uppá húsnæði.

ÉG tel að það geti líka verið styrkur að hafa fulltrúa í sveitarstjórn sem býr fyrir utan svæðið og sér og skynjar hlutina úr fjarlægð. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, Dalirnir eru og verða alltaf fyrsti kostur hjá mér sem dvalarstaður sé þess kostur.

ÉG vil að fundir sveitarstjórnar verði opnir og jafnvel að þeir verði sendir út beint á netinu svo hægt sé að fylgjast með þegar þeir fara fram. Svo er ég með margar hugmyndir sem ég fer ekki nánar út í hér sem ég hef áhuga á að reyna að hrinda í framkvæmd hér í Dölum.

FYRIR þá sem ekki þekkja mig læt ég fylgja hér með slóð á viðtal sem tekið var við mig á sjónvarpsstöðinni N4 síðastlðinn vetur: https://www.youtube.com/watch?time_continue=1&v=thZH73iMmhs

ANNARS læt þetta duga að sinni og þakka fyrir mig og hvet ykkur til að nýta ykkur kosningaréttinn þann 26.maí næstkomandi.

Áfram Dalabyggð.

Með vinsemd og virðingu;
Sigurður Sigurbjörnsson

Sindri Geir Sigurðarson, Geirshlíð, Hörðudal

Ég heiti Sindri Geir Sigurðarson og er fæddur árið 1998, ég hef búið alla mína tíð í Geirshlíð í Hörðudal. Ég gekk í bæði leik- og grunnskóla í Búðardal. Eftir það fór ég í borg óttans til að stunda nám við Fjölbrautaskólan í Garðabæ, ég var þar eitt og hálft ár en þá skipti ég um skóla og byrjaði í Fjölbrautaskólanum á Akranesi þaðan sem ég mun útskrifast á sjálfan kjördag eða 26. maí. Ég er hér með að lýsa yfir áhuga mínum á að starfa í sveitarstjórn Dalabyggðar á næsta kjörtímabili. Ég tel það mikilvægt að í sveitarsjórn sé fulltrúi frá sem flestum kynslóðum.

Skúli Hreinn Guðbjörnsson, Miðskógi, Miðdölum

Góða kvöldið kæru íbúar Dalabyggðar.
Ég hef verið að tjá mig aðeins varðandi umræðu um sveitastjórnakosningar sem fram fara þann 26 maí nk. Virðist ég hafa aðeins aðra sýn en þeir sem hafa gefið kost á sér til setu í sveitastjórn, þá sérstaklega varðandi sölu Lauga og byggingu íþróttamannvirkja í Búðardal.
Til að fylgja eftir minni sýn á þau mál og fleiri hef ég ákveðið að gefa kost á mér til setu í sveitastjórn Dalabyggðar á komandi kjörtímabili. Í upphafi ætla ég að gera aðeins grein fyrir mér þar sem ég er frekar nýr í þessu samfélagi og þekkja mig eflaust ekki Allir.
Skúli Hreinn Guðbjörnsson heiti èg og bý á Miðskógi, ég er giftur Guðrúnu Esther (Esta) Jónsdóttur og eigum við 3 uppkomin börn og 7 barnabörn. Ég er fæddur á Hvammstanga árið 1965 og bjó í sveit til ársins 1988 er við fluttum á Hvammstanga. Þar vann ég við ýmis störf svo sem við afgreiðslu hjá Kaupfélaginu, hjá Steypustöðinni en lengst af vann ég hjá sveitafélaginu Húnaþingi vestra sem Slökkviliðsstjóri í hlutastarfi einnig sem umhverfisfulltrúi Húnaþings vestra þar sem ég vann að gerð Staðardagskrár 21 og  gerðar brunavarnaráætlunar fyrir Húnaþing Vestra, einnig sá ég um skipulagningu unglingavinnunar, jafngramt vann ég náið með bæði byggingafulltrúa og sveitastjóra að ýmsum málum sveitafélagsins. Einnig rákum við tjaldsvæði í Kirkjuhvammi í 7 ár, byggðum þar þjónustuhús og fl.
Árið 2004 þegar elsta dóttir okkar fór í fjölbrautaskóla (sem ekki var í boði á Hvammstanga) tókum við þá ákvörðun að fylgja henni en hún ákvað að fara í Fjölbrautaskólan á Akranesi. Þegar þangað var komið sótti ég um starf i afgreiðslu Húsasmiðjunar sem ég fékk og tæpum mánuði síðar var ég ráðin sem rekstrarstjóri Húsasmiðjunar sem ég gengdi í rúm 10 ár ásamt því að taka að mér rekstur Húsasmiðjunar í Borgarnesi í tvígang samhliða rekstri Húsasmiðjunar á Akranesi, þar til við tókum ákvörðun um að gerast bændur á Miðskógi í maí 2015.
Eftir að við komum í þessa dásamlegu sveit hefur verið mikið gert til hagræðingar og stækkunar á því góða búi sem við tókum við, svo sem breytt básafjósi í lausagöngu með aðstöðu fyrir 70 kýr, sett upp mjaltaþjón auk þess breyttum við hlöðu í kálfaeldi og gjafaaðstöðu fyrir kýr.
En nóg um mig í bili, ef þið viljið frekari upplýsingar er mér sönn ánægja að veita þær hvar og hvenar sem er.
Þá er komið að aðalmálinu en það er mín sýn á Dalabyggð næstu misserin.
Ég er ekki á þvi að það sé forgangsmál að selja Laugar og byggja upp íþróttamannvirki í Búðardal, en þar með er ég heldur ekki að halda því fram að í þóttamannvirki eigi alls ekki að rísa í Búðardal, þau þurfa að koma en mín skoðun er sú að við þurfum að leggja höfuðáherslu á að fjölga störfum með öllum þeim ráðum sem okkur dettur í hug og einnig að vera tilbúin með húsnæði fyrir fólk sem hingað vill flytja.
Varðandi atvinnu er það mín skoðun að hægt er að vinna mun meira úr okkar frábæru afurðum sem framleitt er í sveitafelaginu og gæti sveitafélagið lagt til húsnæði sem dæmi til sliks reksturs. Einnig á sveitafélagið að gera út mann til að laða að ný tækifæri og þá helst að leita eftir störfum sem kalla á háskólamenntað fólk sem skila hærri launum.
Varðandi húsnæðismál er skoðun mín að sveitafélagið eigi að stofna leigufélag og byggja húsnæði til útleigu ef þörf er fyrir slíkt, en í dag er hægt að fá ódýrt fjármagn til 50 ára í slík verkefni ef það er hugsun félagsins að reka það ekki í gróðaskyni. Er ég þá að hugsa um litlar íbúðir fyrir ungt fólk sem vill flytja hingað sem svo stækkar við sig sjálft þegar það hefur fest hér rætur.
Þegar við höfum fjölgað hér fólki og eflt atvinnustigið með fjölbreyttari starfsemi þá skulum við byggja íþróttahús í Búðardal og munum að þegar farið verður í það þá byggjum við ekki kofa með polli Jheldur byggjum við íþróttahús með sundlaug. Tel ég að sveitafélagið eigi samt að fara í að setja upp heita potta í Búðardal bæði fyrir gesti og ekki síður fólk sem langar að slappa aðeins af og hitta nágrannana og taka spjall, „búa til svona pottastemninngu“
Einnig er það mitt mat að við eigum að styðja vel við þær tómstundir sem eru í sveitafélaginu í dag svo sem skátastarfið sem er mjög öflugt, hestamannafélagið þar sem mikið og gott starf er unnið af flottu fólki og fleira i þeim dúr. Jafnframt þarf að auka ánægju fólks með að búa í þessu sveitafélagi með einhverjum ráðum en ný könnun kemur ekki vel út hvað það varðar.
Að endingu eru það umhverfismálin sem ég vil leggja áherslu á, þar þarf að gera átak í að hvetja fólk til að flokka meira og gera það auðveldara fyrir alla, t.d. með þvi að fjölga tunnum við öll heimili í sveitarfélaginu, kostnaður við slíkt er umtalsverður en þetta er eitt af forgangsmálum að ég tel.
Að lokum vil ég segja þetta kæru kjósendur. Það er í ykkar höndum hver verður í sveitastjórn á næsta kjörtímabili og munum einnig að allar skoðanir hafa rétt á sér, svo er það bara ykkar að velja það sem þið teljið rétt. Ef ég verð kjörin til setu í sveitastjórn mun eg vinna eftir minni sannfæringu og virða skoðanir annara. Þetta er allt í ykkar höndum, munum bara að nýta kosningaréttin okkar þann 26 maí nk.
Skúli Hreinn Guðbjörnsson Miðskógi.

Svana Hrönn Jóhannsdóttir, Stekkjarhvammi 5, Búðardal

Kæru Dalamenn
Ég vil gefa kost á mér sem 1. VARAmaður í sveitarstjórn. Ég heiti Svana Hrönn Jóhannsdóttir, er fædd árið 1985 og er uppalin í Hlíð í Hörðudal. Ég bý í Búðardal, með Hlöðveri Inga, skólastjóra Auðarskóla. Ég flutti aftur í Dalina 2016, eftir rúmlega 10 ára á höfuðborgarsvæðinu. Ég útskrifaðist með Bs í íþróttafræði frá HR vorið 2015. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri Glímusambands Íslands, er í 10% starfi á leikskólanum og einnig á Silfurtúni, þar sem ég sé um hreyfistundir og leikfimi. Auk þess vinn ég við þjálfun ýmissa íþrótta.

Ég vil selja Laugar til að fjármagna uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal. Ég tel að með byggingu íþróttamannvirkja munu íþróttir- og tómstundir eflast til muna hér í Dölum. (Ég vona líka að það verði pláss fyrir félagsmiðstöð fyrir unglingana okkar í íþróttamannvirkinu )

Ég vil skoða hvernig sveitarfélagið getur hjálpað áhugasömum með húsnæðismál hér í Dalabyggð.

Ég tel mikilvægt að bæta aðstöðu á Silfurtúni og byggja þar hentug hjúkrunar- og tómstundarými. Svo finnst mér að það þurfi að skoða að byggja fleiri íbúðir fyrir eldri borgara við Silfurtún.

Það eru ýmis tækifæri hér til að byggja upp nýja atvinnustarfsemi, ég tel að núverandi sveitarstjórn hafi tekið skref í rétta átt með því að stofna atvinnumálanefnd. Einnig finnst mér mikilvægt að hlúa vel að fyrirtækjum sem eru þegar á svæðinu.

Endurvinnsla er öllum (vonandi) hjartans mál. Mér finnst mikilvægt að hlusta á íbúa Dalabyggðar og hafa þeirra kröfur í huga þegar samið verður næst um sorphirðu.

Aðgengi fatlaðra þarf einnig að skoða í sveitarfélaginu.

Það þarf einnig að skoða hvernig er hægt að koma í veg fyrir að sveitir leggjast í eyði. Það er sorglegt að horfa upp á öflug býli verða að engu og þ.a.l. er erfitt að taka við þeim búum og byggja þau upp að nýju. Lausnina hef ég ekki í dag.

Að lokum vil ég hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn 26. maí.

Svana Hrönn Jóhannsdóttir, Stekkjarhvammi 5, Búðardal

Valdís Gunnarsdóttir, Ægisbraut 19, Búðardal

Ég er fædd árið 1962 og hef verið búsett í Dölum frá árinu 2012 ásamt sambýlismanni mínum Gísla Sverri Halldórssyni, dýralækni. Ég er myndlistarmenntuð, en hef gegnt fjölbreyttum störfum. Var t.d. yfirþýðandi á Stöð 2 um nokkurra ára skeið, síðar markaðsstjóri Borgarleikhússins og upplýsingafulltrúi Háskóla Íslands. Ég hef búið erlendis stóran hluta ævinnar og kynnst mörgum ólíkum menningarsamfélögum.

Ég gaf kost á mér í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hef átt sæti í sveitarstjórn Dalabyggðar þetta kjörtímabil. Ég hef setið í byggðarráði, umhverfis- og skipulagsnefnd, menningar- og ferðamálanefnd, Eiríksstaðanefnd, verið fulltrúi sveitarfélagsins á landsþingum Sambands sveitarfélaga og samráðsvettvangi Vesturlands og sótt fjölmarga fundi og ráðstefnur sem fulltrúi Dalabyggðar. Þar á meðal sat ég sl. haust Málþing sveitarfélaga um íbúasamráð og þátttöku íbúa, en ég tel mjög brýnt að samráð við íbúa sveitarfélagsins verði aukið og sveitarstjórnin sjálf geri sig sýnilegri.

Hvað varðar atvinnumálin þá er ég á því að meta skuli allar hugmyndir með jákvæðu hugarfari. Við verðum að leita leiða til uppbyggingar og aukinnar tekjuöflunar með opnum huga. Hins vegar ligg ég ekkert á þeirri skoðun minni að ég lít á Dalina fyrst og fremst sem landbúnaðarhérað. Ég hef tröllatrú á framtíð atvinnuvegarins enda fjölmörg fyrirmyndarbú á svæðinu. Þá hefur mikill uppgangur átt sér stað í ferðaþjónustu.  Mín draumsýn er sú að hún muni eflast til muna í sátt við sveitalífið, enda fara þessar atvinnugreinar einkar vel samaan. Mér finnst gagnaver og vindmyllugarðar forljót og betur geymd annars staðar. Sé það hins vegar einlægur vilji meirihluta íbúanna að byggja hér upp slík mannvirki þá virði ég það.

Þó að ég hafi ítrekað setið hjá eða greitt atkvæði gegn sölu eigna sveitarfélagsins á Laugum í því ferli sem átti sér stað í vetur, er ég alls ekki mótfallin sölu. Ég vil hins vegar sanngjarnt verð fyrir eignirnar og ekki neina örvæntingu við samningaborðið.

Ég er ákafur stuðningsmaður þess að byggð verði upp góð íþrótta- og tómstundaaðstaða í þorpinu. Hins vegar vara ég við óðagoti því við verðum að fara yfirvegað í allar fjárfestingar. Rekstur Dalabyggðar hefur verið hallalaus um árabil og er það eitt af baráttumálum mínum að við sníðum okkur stakk eftir vexti.  Engu að síður legg ég ríka áherslu á að vandað verði til verka og að reiturinn þar sem fyrirhugað er að íþróttamannvirkin rísi verði deiliskipulagður áður en lengra er haldið.

Leggjumst öll á eitt, nýtum kosningaréttinn og vinnum saman að því að í Dölum sé eftirsóknarvert að búa, gott að stunda atvinnu og síðast en ekki síst ánægjulegt að sækja okkur heim!

Þorkell Cýrusson, Stekkjarhvammi 10, Búðardal

Ég heiti Þorkell Cýrusson og er fæddur árið 1961 og hef búið hér í Dölum frá árinu 2005 og líkar vel. Ég er kvæntur Sigfríði Andradóttur þjónustufulltrúa hjá Dalabyggð og eigum við tvö uppkomin börn Guðríði og Sigurð Svein sem eru búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Þá er það orðið ljóst að persónukjör verður í Dalabyggð til sveitarstjórnar næsta kjörtímabil. Ég upplýsti ykkur um að ég myndi bjóða mig fram til endurkjörs ef svo yrði og kynna mín áherslumál á þessum vettvangi. Eins stendur til að halda kynningarfund í Dalabúð á þeim frambjóðendum sem bjóða sig fram þar sem þeir geta komið með sín áherslumál og skoðanir. Ekki hafa allir kost á því að sækja þann fund af ýmsum ástæðum t.d. er sauðburður nú hafinn í Dölum og gerir það að verkum að margir geta ekki sótt fundinn. Það er því rétt að koma með sín helstu áherslumál hér til að fólk geti lesið sig til til að mynda sér skoðun.

Það eru 7 aðalmenn í sveitarstjórn og sameina þarf því skoðun þeirra til þess að mynda meirihluta fyrir þeim ákvörðunum sem eru teknar. Nokkur mál erum við sem þegar hafa kynnt sig sammála um, t.d. um sölu eigna á Laugum og uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Búðardal. Staða sveitarfélagsins er góð en það breytir þó ekki því að við þurfum að stíga varlega niður til þess að halda þeirri stöðu. Ég tel því að sala Lauga sé forsenda þess að hægt sé að fara út í byggingu íþróttamannvirkja hér í Búðardal. Ég mun beita mér fyrir því að auglýsa aftur eignirnar á Laugum til sölu og er reynslunni ríkari á því hvað ber að varast í þeim málum. Mörg önnur mál brenna á mér eins og öðrum íbúum í Dalabyggð t.d. er húsnæðisskortur hér í Búðardal sem þarf að leysa. Nokkrir hafa komið að máli við mig hvort að ekki sé rétt að sveitarfélagið byggi leiguhúsnæði. Það hugnast mér ekki en sveitarfélagið getur aftur á móti komið til móts við einkaaðila sem vilja gera þetta með ýmsum aðgerðum til að liðka fyrir. Vinna við nýtt aðalskipulag er hafin og henni þarf að ljúka. Margt annað kemur upp í hugann t.d. er samningur um endurvinnslumál að renna út á næsta ári og það þarf að gera nýjan endurbættan samning. Mörg önnur mál brenna á mér t.d. samgöngumál, fjarskiptamál og atvinnumál, en það væri of langt mál að telja allt upp hér í þessari kynningu. Ég mun áfram reyna að starfa af heilindum í sveitarstjórn eins og ég tel mig hafa gert hingað til með hagsmuni íbúa Dalabyggðar í huga. Íbúalýðræði er mikið í umræðunni um þessar mundir og ekki höfum við farið varhluta af því hér í Dölum. Ég er fylgjandi því að halda reglulega íbúafundi um þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni og að lágmarki einu sinni á ári en ef tilefni er talið til þá oftar. Það er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa í sveitarstjórn að hlusta á það sem þið íbúar góðir hafið að segja um þau verkefni sem eru í gangi  og eru íbúafundir góður vettvangur til þess eins hvet ég ykkur til að halda áfram að hafa samband við sveitarstjórnarmenn með hugðarefni ykkar og skoðanir hvort sem þið eruð sammála ákvörðunum eða ekki.

Ef þið íbúar góðir teljið að ég geti gert gott fyrir sveitarfélagið þá hvet ég ykkur til að skrifa nafn mitt á kjörseðilinn 26. maí og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að starfa fyrir ykkur af heiðarleika og atorkusemi.

Mætum öll á kjörstað og nýtum rétt okkar.

Þuríður Sigurðardóttir, Sunnubraut 3b, Búðardal

Ég heiti Þuríður Sigurðardóttir fædd 1974 bý í Búðardal en er uppalin á Lyngbrekku á Fellsströnd. Ég hef ákveðið eftir miklar vangaveltur að bjóða mig fram til starfa í sveitarstjórn Dalabyggðar næsta kjörtímabil, vegna þess að mér eru málefni og hagsmunir sveitarfélagsins ofarlega í huga.

Ég er fylgjandi sölu eigna á Laugum, en tel að vanda þurfi til verka og gera sem bestan samning fyrir sveitarfélagið. Að sjálfsögðu er ég fylgjandi byggingu íþróttamannvirkja í Búðardal, þegar fjármagn er komið með sölu eigna sveitarfélagsins á móti.

Við þurfum að hugsa vel um eldra fólkið okkar og gera því kleift að minnka við sig húsnæði td með byggingu rað eða parhúsa við Silfurtún. Tryggja þarf áfram uppbyggingu á Dvalar og hjúkrunarheimilinu Silfurtúni og fjölgun hjúkrunarrýma.

Undanfarin ár hafa of mörg störf farið í burtu eða starfshlutafall minnkað, þessu þarf að sporna við. Leita þarf leiða til að fá fleiri störf í Dalabyggð. Standa vörð um stóra og öfluga vinnustaði eins og Mjólkursamlagið og fl. Hagur okkar er að fá unga fólkið okkar heim að námi loknu, því í Dalabyggð er gott að búa. Þá þurfa að vera í boði góð störf, húsnæði, góður leik og grunnskóli.

Þar sem Dalabyggð er rótgróið landbúnaðarhérað þurfum við að standa vörð um landbúnaðinn og halda áfram að efla vinnslu afurða í héraði.

Ég er fylgjandi grænni orku en tel að við þurfum að vanda til verka varðandi allar ákvarðanatakanir. Stjórnvöld eiga eftir að setja lög um vindorku og þá er hægt að skoða hlutina af alvöru.

Fjarskipti, samgöngur og raforka eru undirstaða þróunar og nýsköpunar í nútíma samfélagi. Halda þarf áfram lagningu ljósleiðara og tryggja að öll heimili og fyrirtæki verði tengd. Sveitarstjórn þarf að þrýsta á stjórnvöld um að öllum sé tryggður öruggur flutningur rafmagns um allt sveitarfélagið. Brýnt er að hraða uppbyggingu vega um sveitarfélagið og þrýsta á ríkið að koma með fjármagn í framkvæmdir sem fyrst. Sennilega eru hvergi á landinu keyrð skólabörn um eins langa veg á malarvegum eins og hér í Dalabyggð. Að mörgum fleiri verkefnum þarf að huga.

Ég hvet alla íbúa til að nýta kosningarétt sinn þann 26 maí næstkomandi. Því miður get ég ekki verið á kynningarfundinum í Dalabúð í kvöld.

Munið að í Dalabyggð er gott að búa.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei