Laus störf

Allir þeir sem hafa í boði lögleg störf, innan þess svæðis að íbúar Dalabyggðar geti sótt þau, geta fengið atvinnuauglýsingar birtar hér endurgjaldslaust.

 

Stuðningsfulltrúi í Auðarskóla út skólaárið 2025-2026

Auðarskóli leitar að metnaðarfullum stuðningsfulltrúa sem vilja ná góðum árangri í skólastarfi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf nú þegar í 80-100% starfshlutfalli.

Auðarskóli er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli og er staðsettur í Búðardal sem er eini þéttbýliskjarni sveitarfélagsins. Í grunnskólanum eru um 70 nemendur í 1.-10. bekk grunnskólans og um 20 börn í leikskólanum. Tæplega helmingur nemenda grunnskólans stundar tónlistarnám. Einkunnarorð skólans eru Ábyrgð-Ánægja-Árangur.

Menntastefna Dalabyggðar er höfð að leiðarljósi í starfi skólans og er útgangspunkturinn að stuðla að framsækni og vellíðan barna og ungmenna og um leið alls skólasamfélagsins. Lögð er rík áhersla á að í Dalabyggð sé eftirsóknarvert og fjölskylduvænt samfélag og öflugt menntastarf er veigamikill þáttur þess. Forgangsmál er að byggja upp gott og heilbrigt starfs- og námsumhverfi þar sem komið er til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda í skólasamfélagi sem byggist á lýðræðislegri þátttöku allra.

Í Dölunum gefast mörg tækifæri til útivistar og hreyfingar og í Búðardal er vel búin líkamsræktarstöð. Íþróttahús og sundlaug eru í byggingu sem staðsett eru við grunnskólann og verða tekin í gagnið í byrjun febrúar 2026.

Stuðningsfulltrúi grunnskóla 80-100%

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Formlegt próf af styttri námsbraut er æskilegt, s.s. stuðningsfulltrúanám o.s.frv.
  • Áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum.
  • Geta til að taka leiðsögn.
  • Metnaður til að þróa gæða skólastarf.
  • Framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfni.
  • Frumkvæði, sjálfstæði og skipulögð vinnubrögð.
  • Fagleg framkoma, stundvísi og áreiðanleiki er skilyrði.
  • Góð íslenskukunnátta.

Helstu verkefni stuðningsfulltrúa:

  • Veita nemendum aðstoð í daglegu skólastarfi og í athöfnum daglegs lífs eftir þörfum.
  • Stuðla að sjálfstæði og færni nemenda með hvatningu og skýrri leiðsögn.
  • Aðstoða við framkvæmd einstaklingsnámskrár og markmiða eftir leiðsögn kennara og fagaðila.
  • Aðlaga verkefni að getu nemenda og styðja þá við að taka þátt í námi og félagslífi eftir leiðsögn kennara.
  • Styðja við æskilega hegðun og samskipti ásamt því að bregðast við áskorunum í samráði við kennara.
  • Fylgja nemendum í skólastarfi. S.s. í kennslustundum, frímínútum, ferðum milli húsa og á vettvangsferðum.
  • Sinna gæslu í frímínútum og eftir skólatíma yngri nemenda samkvæmt skipulagi.
  • Vera virkur þátttakandi í samstarfi við kennara, foreldra og sitja í teymum eftir þörfum.
  • Vinna í anda stefnu skólans, sýna sveigjanleika og samstarfsvilja.
  • Annast önnur tilfallandi verkefni samkvæmt fyrirmælum stjórnenda.

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.

Umsækjandi má hvorki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 né hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum.

Umsóknarfrestur: Stefnt er að því að ráða í stöðuna svo fljótt sem verða má.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kári Þorgrímsson, starfandi skólastjóri, í síma 430 4757. Senda má fyrirspurn á netfangið: gummikari@audarskoli.is. Umsóknir skal senda á sama netfang.

Umsókn skal fylgja náms- og starfsferilskrá ásamt afriti af prófskírteinum og/eða starfsleyfi.

Umsókn skal jafnframt fylgja kynningarbréf hvar teknar eru fram ástæður fyrir umsókn og hvernig umsækjandi uppfyllir menntunar- og hæfniskröfur.

Auglýsing birt 06.10.2025

 

Aðhlynning á Fellsenda

Óskum eftir starfsmönnum í sumarafleysingar og fastar stöður við umönnun. Hjúkrunarheimilið sérhæfir sig í þjónustu við geðfatlaða og er staðsett á fallegum stað í Dölunum. Starfið er mjög fjölbreytt og lærdómsríkt. Um er að ræða vaktarvinnu en starfshlutfall getur verið samkomulag.

Áhugasömum er velkomið að hringja eða koma í heimsókn og kynna sér starfið, einnig er hægt að fara á heimsíðu Fellsenda og skoða starfsemina https://fellsendi.is/

Unnið er eftir Betri vinnutíma og er því vinnuvikan 36 stundir að lágmarki. Við erum að leita af einstaklingum sem eru þjónustulundaðir, hafa góða samskiptafærni, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.

Laun eru greidd skv. kjarasamningi Fellsenda við Kjöl stéttarfélag. Nánari upplýsingar veitir Gunnar Bergmann, deildarstjóri hjúkrunar í síma 894-9492
Umsókn ásamt ferilskrá sendist á hjukrun@fellsendi.is

Birt 25.03.2025

 

Félagsleg heimaþjónusta

Starfsmann vantar hjá félagsþjónustu Dalabyggðar við heimaþjónustu.

Í félagslegri heimaþjónustu er veitt aðstoð við þrif, heimilisstörf og/eða félagslegur stuðningur til að gera viðkomandi kleift að búa á eigin heimili við sem eðlilegastar aðstæður.

Umsækjandi þarf að vera stundvís, áreiðanlegur, heiðarlegur og hafa góða samskiptahæfileika. Allir eldri en 17 ára (með bílpróf) hvattir til að sækja um.

Frekari upplýsingar gefur Sigríður í síma 839 1400 á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10–12.

Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið heima.tjonusta@dalir.is.

 

Laus störf í stuðningsþjónustu (liðveislu)

Félagsþjónustan auglýsir eftir einstaklingum til að starfa sem liðveitendur. Við leitum að einstaklingum sem náð hafa 18 ára aldri, óháð kyni.

Um er að ræða hlutastarf, oftast seinnipart dags og er því tilvalið sem aukastarf með námi eða öðru starfi. Laun eru samkvæmt kjarasamningi.

Félagsleg liðveisla er veitt fötluðum börnum frá 6 ára aldri, sem og fullorðnu fötluðu fólki. Félagsleg liðveisla hefur það markmið að rjúfa félagslega einangrun og styrkja fólk til þátttöku í menningar- og félagslífi.

Nánari upplýsingar veitir Sylvía Ósk Rodriguez, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, í síma síma 433-7100 eða  sylvia.rodriguez@borgarbyggd.is

 

 

 

Dalabyggð hlaut jafnlaunavottun í byrjun árs 2021. Vottunin staðfestir að sveitarfélagið hefur komið sér upp jafnlaunakerfi sem tryggir að jafnréttis sé gætt við allar launaákvarðanir og að allir starfsmenn njóti þannig jafnra launa og kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Vottunin er hluti af jafnréttisáætlun Dalabyggðar og því einstaklega gleðilegt að Dalabyggð hafi hlotið þessa staðfestingu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei