Barnavernd

Börn eiga rétt á vernd og umönnun og skulu þau njóta réttinda í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Samkvæmt gildandi barnaverndarlögum nr. 80/2002 ber foreldrum/forsjáraðilum að sína börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag þeirra og þörfum.

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef áhyggjur vakna af velferð barns samkvæmt 16.gr. barnaverndarlaganna. Á það við ef ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, sem dæmi vegna vímuefnaneyslu eða annarrar áhættuhegðunar. Auk þess ber að tilkynna það ef ástæða er til að ætla að lífi, heilsu eða þroska ófædds barns sé stefnt í hættu vegna lífernis, háttsemi eða aðstæðna verðandi foreldra.

Tilkynnandi þarf ávallt að gefa upp nafn og upplýsingar um netfang eða símanúmer ef þörf er á að afla nánari upplýsinga. Tilkynnandi getur óskað eftir nafnleynd og í þeim tilfellum er það einungis viðtakandi tilkynningar og vinnsluaðilar máls sem hafa aðgang að persónuupplýsingum tilkynnanda, nema annað sé tekið fram.

Verkefnastjóri fjölskyldumála, Jóna Björg Guðmundsdóttir, tekur við barnaverndartilkynningum í síma 430-4700 eða í gegnum netfangið jona@dalir.is

Í neyðartilfellum skal ávallt hafa samband við 112.

Í Dalabyggð er í gildi samningur við Samskiptastöðina sem sér um utanumhald og vinnslu barnaverndarmála fyrir Dalabyggð.

Samkvæmt barnaverndarlögum nr.80/2002 er heimilt að skjóta úrskurðum og öðrum stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarþjónustu, umdæmisráðs barnaverndar og Barna- og fjölskyldustofu, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærufrestur er fjórar vikur frá því að aðila máls er tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þá ber að taka fram að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

ÍTAREFNI:

Barnaverndarlög nr. 80/2002

Úrskurðarnefnd velferðarmála

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei