Til bakaPrenta
Umhverfis- og skipulagsnefnd Dalabyggðar - 107

Haldinn í stjórnsýsluhúsinu í Búðardal,
04.09.2020 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Hörður Hjartarson formaður,
Bjarnheiður Jóhannsdóttir ritari,
Ragnheiður Pálsdóttir varaformaður,
Vilhjálmur Arnórsson aðalmaður,
Þórður Már Sigfússon Skipulagsfulltrúi,
Grettir Örn Ásmundsson byggingarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Þórður Már Sigfússon, Skipulagsfulltrúi


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2007004 - Fyrirspurn um lóð
Úr fundargerð 249, fundar byggðarráðs 23.07.2020, dagskrárliður 6:
2007004 - Fyrirspurn um lóð
Skipulagsfulltrúa hefur borist fyrirspurn um lóð fyrir sjálfsafgreiðslustöð.
Byggðarráð vísar málinu til umhverfis- og skipulagsnefndar.
Samþykkt samhljóða.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og óskar eftir frekari gögnum frá umsóknaraðila um umfang og útfærslu á framkvæmdinni.
3. 2008010 - Skógrækt á jörðinni Ásgarði í Hvammssveit
Skugga-Sveinn ehf. áformar að hefja skógrækt í landi Ásgarðs í Hvammssveit og óskar eftir afstöðu Dalabyggðar um hvort krafist verði framkvæmdaleyfis í samræmi við reglugerð nr. 772/2012.
Með vísun í 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er umrædd framkvæmd leyfisskyld sem felur í sér að leita þarf umsagnar viðeigandi stofnana. Auk þess er þörf á samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Afgreiðslu erindisins er frestað þar til niðurstaða úr stjórnsýslukæru liggur fyrir.
4. 1911028 - Undirbúningur íþróttamannvirkja í Dalabyggð
Í undirbúningi er bygging íþróttamannvirkja við Dalabúð og Auðarskóla. Fyrir liggur að taka þarf ákvörðun um næstu skref í ferlinu en ljóst er að vinna þarf nýtt deiliskipulag að svæðinu.
Fyrirhuguð uppbygging á íþróttamannvirkjum (íþróttahús og sundlaug) við Dalabúð og Auðurskóla mun gjörbylta aðstöðu til íþróttaiðkunar í tengslum við skólastarfsemi í Búðardal. Þar sem ekkert deiliskipulag liggur fyrir á svæðinu mælist skipulagsnefnd til að sveitarstjórn samþykki að unnin verði tillaga að deiliskipulagi, í samræmi við 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
5. 2007002 - Deiliskipulag í landi Sólheima
Qair Iceland óskar eftir að hefja vinnu að tillögu að deiliskipulagi fyrir vindorkuver í landi Sólheima í samræmi við áætlanir fyrirtækisins um uppbyggingu vindorkugarðs á jörðinni.

Tillaga að deiliskipulagi yrði unnin í samræmi við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 þar sem afmarkað er iðnaðarsvæði fyrir vindorkuver á jörð Sólheima.

Nefndin leggst ekki gegn því að hafin verði vinna að nýju deiliskipulagi í landi Sólheima en bendir á að nýtt deiliskipulag tekur ekki gildi fyrr en að breyting á aðalskipulagi hefur öðlast gildi.
6. 2008008 - Ný jörð úr landi Sælingsdal, L137739
Í tilefni af fyrirhugaðri sölu á hluta af jörðinni Sælingsdal, ásamt húsakosti jarðarinnar, þá óska Ríkiseignir, f.h. landeiganda, Ríkissjóðs Íslands, eftir samþykki fyrir landskiptum á ríkisjörðinni, Sælingsdal, skv. meðfylgjandi uppdrætti.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við landskiptin skv. 13. gr. jarðalaga.
7. 2002024 - Útivistarskógur í landi Fjósa
Í tengslum við fyrirhugað skógræktarsvæði í landi Fjósa þarf að óska eftir skógræktarráðgjafa frá Skógræktinni. Hans hlutverk yrði að yfrfara fyrirhugað skógræktarsvæði, væntanlega með samningi um 10 ha.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að óskað verði eftir skógræktarráðgjafa frá Skógræktinni í tengslum við fyrirhugaðan útivistarskóg.
8. 2008018 - Afmörkun lóðar Kvennabrekkukirkju 137949 og nýskráning lóðar undir kirkjugarð
Ríkiseignir f.h. ríkissjóðs Íslands óska eftir því að stofna lóðir undir kirkjugarð og kirkju úr landi Kvennabrekku skv. meðfylgjandi uppdráttum.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við stofnun lóðanna.
9. 2009001 - Stækkun á veiðihúsi Veiðifélags Neðri Haukadalsár
Sótt er um leyfi fyrir stækkun á veiðihúsi Veiðifélags Neðri Haukadalsár.
Nefndin felur byggingarfulltrúa að ganga frá málinu.
10. 2009002 - Ólafsdalur - umsókn um byggingarleyfi
Minjavernd hf. sækir um leyfi til að endurbyggja smiðjuna í Ólafsdal sem gistihús með tveimur herbergjum með viðeigandi baðherbergjum.
Nefndin felur byggingarfulltrúa að ganga frá málinu og fer fram á að leitað verði umsagnar hjá MAST vegna miltisbrands á svæðinu.
11. 2005016 - Iðnaðarsvæði við Iðjubraut í Búðardal
Tillaga að deiliskipulagi fyrir athafna- og iðnaðarsvæði við Iðjubraut í Búðardal.
Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 22. júní sl. að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir athafna- og iðnaðarsvæði við Iðjubraut. Tillagan var auglýst frá 2. júlí til 14. ágúst og bárust fimm umsagnir frá Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Minjastofnun gerir ekki athugasemd við tillöguna en bendir á að engin fornleifaskráning liggi fyrir á svæðinu. Skipulagsnefnd áréttar að fyrirhugað er að fullnægja þessum skilyrðum og verði skráningu lokið og minjar skráðar í greinargerð og á uppdrátt þegar sveitarstjórn tekur málið fyrir.

Samgöngustofa gerir engar athugasemdir við tillöguna.

Umhverfisstofnun bendir á að innan skipulagssvæðisins er votlendi sem fellur undir a. lið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Stofnunin bendir á mikilvægi þess að fram komi í greinargerð að innan skipulagssvæðisins er votlendi sem fellur undir 61. gr. náttúruverndarlaga. Þessum skilyrðum hefur verið uppfyllt þó svo að nefndin telji að votlendi innan skipulagssvæðisins sé ekki fyrir hendi. Það sem fram kemur á vistfræðikorti NÍ er ekki í samræmi við raunverulega vistgerð svæðisins í dag.

Nefndin leggur til að skipulagsfulltrúi fái líffræðing/náttúrufræðing til að gera úttekt á svæðinu. Umhverfisstofnun telur að umhverfisáhrif tillögunnar verði staðbundin og líkt og fram kemur í umsögn stofnunarinnar verður ávallt gætt að því að spilla gróðri og þar með vistgerðum sem minnst við framkvæmdir.

Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki athugasemdir við tillöguna.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gerir ekki athugasemd við tillöguna en bendir á að vegna nálægðar athafna- og iðnaðarsvæðis við dvalarheimili aldraðra og íbúðarhús þurfi að huga að því hvers konar starfsemi komi á þær lóðir sem næstar eru. Tekið hefur verið tillit til þessara ábendinga í greinargerð.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að
senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar og auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda að uppfylltum skilyrðum er varða skráningu fornleifa og úttekt á vistgerð svæðsins.
Mál til kynningar
2. 2003042 - Hróðnýjarstaðir - breyting á aðalskipulagi vegna vindlundar
Í samræmi við 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir tillögu Storm Orku að matsáætlun fyrir vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða ásamt þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust stofnuninni og viðbrögðum framkvæmdaraðila við þeim.
Lagt fram til kynningar.
12. 2006009 - Ábending frá Svavari Garðarssyni vegna aðalskipulags.
Í tengslum við endurskoðun aðalskipulags Dalabyggðar var settur á laggirnar hugmynda- og ábendingavefur á heimasíðu sveitarfélagsins fyrir áhugaverðar hugmyndir/ábendingar frá íbúum. Tvær áhugaverðar hugmyndir/ábendingar liggja nú fyrir frá Svavari Garðarsyni en þær lúta að skipulagsmálum í Búðardal.
Nefndin tekur þessum ábendingum fagnandi og telur þær gott innlegg í hugmyndabanka skipulagsvinnunnar í tengslum við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
13. 2007009 - Staðir í Dalabyggð með skráðar miltisbrunasýkingar eða rökstuddan grun um þær
Yfirlit yfir staði í Dalabyggð með skráðar miltisbrunasýkingar eða rökstuddan grun um þær, samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Sigurðarsyni, dýralækni.
Nefndin leggur til að umrædd skráning verði skoðuð í tengslum við vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 15:45 

Til bakaPrenta
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei