Markmið félagsþjónustunnar er að tryggja bæði félagslegt og fjárhagslegt öryggi íbúa sveitarfélaga sem og að stuðla að velferð þeirra á grundvelli samhjálpar.
Samkvæmt 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er reynt að stuðla að velferð með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna og mæta þörfum þeirra fyrir þjónustu um leið og þörf krefur á sem skilvirkastan hátt. Þá skal þeim einstaklingum veitt aðstoð sem þess þurfa við til að þeir geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og búið við sem mest lífsgæði. Einnig skal gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal einstaklingurinn hvattur til að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, hann styrktur til sjálfshjálpar og sjálfsákvörðunarréttur hans virtur.
Félagsmálanefnd Dalabyggðar heldur utan um félagsþjónustu sveitarfélagsins. Undir þann málaflokk falla fjárhagsaðstoð, félagsleg ráðgjöf, félagsleg liðveisla og stuðningur við fatlaða einstaklinga og fjölskyldur fatlaðra barna, sem og leyfisveitingar vegna daggæslu.
Félagsmálanefnd Dalabyggðar tekur ákvörðun um þá aðstoð sem sótt er um. Hægt er að skjóta ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá tilkynningu um ákvörðun.
Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri fjölskyldumála, Jóna Björg Guðmundsdóttir í síma 430-4700 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið jona@dalir.is