Sauðafellshlaupið 2019

DalabyggðFréttir

Sauðafellshlaupið 2019 verður sunnudagskvöldið 16. júní kl. 19 og hefst við brúsapallinn á Erpsstöðum. Þeir sem ætla sér að ganga Sauðafellið hefja gönguna kl. 18:30 frá Fellsenda. Verður þeim keyrt áður frá Erpsstöðum í Fellsenda.

Hlaupið er eftir þjóðvegi 60 að Fellsenda og upp veg 585, á Fellsendabrekkunni er stefnan tekin uppá Sauðafellið, það hlaupið þvert og niður að bænum Sauðafelli, og komið að þjóðvegi 60 á ný og þá er hringnum lokað er komið er að Erpsstöðum á ný. Hlaupaleiðin er rúmir 12 km.

Þetta er skemmtileg leið, ekki mjög erfið þó helmingur hennar sé utanvegar eða eftir slóðum, útsýni er fallegt yfir sveitina og út Hvammsfjörðinn. Þeir sem vilja frekar hlaupa eftir vegi, geta tekið hringinn eftir þjóðvegunum 60 og 585, þá skiljast leiðir hlaupara við Fellsenda, sú leið er um 15 km. Til dæmis tilvalið fyrir þá sem vilja vera með og hjóla.

Boðið verður uppá barnagæslu á Erpsstöðum meðan á hlaupinu stendur, leikir og dýrin á bænum skoðuð. Skrá þarf börn í gæsluna, annað hvort á fb-síðu Rjómabúsins eða með tölvupósti.

 

Þátttökugjald er 1000 kr (sem rennur óskipt til félagasamtaka hér í Dölum). Gott er að mæta tímanlega og ganga frá skráningu.

Yngsti þátttakandinn sem hefur tekið þátt er 9 ára og elsti 80 ára. Þetta er tímalaust hlaup, og hver tekur tíma á sér ef hann vill. Þó ber að geta fyrir þá sem vilja slá metið að Birkir Þór Stefánsson í Tröllatungu hljóp á 58 mínútum sumarið 2017. Besti tíminn sumarið 2018 var 58:20 mín.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei