Átaksdagar í Ólafsdal 4.- 5. júlí og 11.- 12.júlí
Óskað er eftir sjálfboðaliðum.
Markmið: Að safna grjóti til endurhleðslu á tröðinni heim að bænum. Ef margir koma eru ýmis önnur verkefni sem ráðast má í.
Guðjón Kristinsson frá Dröngum á Ströndum hefur verið fenginn til að hlaða tröðina með sínum mönnum. Fengum styrk frá Framleiðnisjóði til verksins. Fáum lánaðar dráttarvélar og vagna frá góðum grönnum í Saurbæ og/eða Reykhólasveit. Félagið býður upp á kaffisopann. Nægt pláss fyrir fellihýsi, hjólhýsi og tjöld í Ólafsdalslandi og gott vatn í ánni.
Hafist verður handa kl. 13.00 laugardaginn 4. júlí og hætt kl.17.00 þann 5 júlí. Og svo sama snið helgina á eftir, þann 11. – 12. júlí.
Fólk kemur og fer eftir hentisemi. Margar hendur vinna létt verk! Þeir sem komast eitthvað þessa daga mega gjarnan senda mér staðfestingu á því.
Þá mun 8 manna hópur erlendra sjálfboðaliða, s.k. „Veraldarvina“,
aðstoða við hleðsluna og önnur störf í Ólafsdal 6.-20. júlí.
Ólafsdalshátíðin 2009
Hátíðin verður haldin sunnudaginn 9. ágúst kl. 13.00-17.00
Áhersla verður lögð á handverksmenningu, kynningu á jarðræktarminjum, og að sinna börnunum. Markmiðið er að eiga skemmtilegan dag í frábæru umhverfi Ólafsdals.
Ef hleðslan við tröðin gengur vel verður hún hugsanlega enduropnuð við þetta tækifæri.
Dalir og Hólar – Myndlistarsýning.
Allan ágúst verður myndlistarsýning í Ólafsdalshúsinu á vegum verkefnisins „Dalir og Hólar – handverk“ sem er samstarfsverkefni listamanna af höfuðborgarsvæðinu og handverks- og listamanna í Dalabyggð, Reykhólasveit og Strandabyggð.