Kynningarfundir: Fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2026-2029

DalabyggðFréttir

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur afgreitt fjárhagsáætlun í fyrri umræðu. Var það gert á 262. fundi sveitarstjórnar þann 13. nóvember sl. 

Samkvæmt samþykkt um stjórn Dalabyggðar  skal sveitarstjórn á hverju ári afgreiða fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og næstu þrjú ár þar á eftir. Byggðarráð leggur samkvæmt sveitarstjórnarlögum tillögu um fjárhagsáætlun fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Sveitarstjórn skal fjalla um hana á tveimur fundum sem fram skulu fara með minnst tveggja vikna millibili. 

Á milli umræða vill Dalabyggð eiga samtal við íbúa, kynna áætlunina og forsendur hennar.

 

Því verða haldnir þrír opnir fundir í Nýsköpunarsetrinu að Miðbraut 11 í Búðardal, til kynningar á fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2026-2029.
Fyrirkomulag þetta er með von um að sem flestir íbúar sjái sér fært um að mæta, kynna sér forsendur áætlunarinnar og taka þátt í umræðum.

Fundirnir verða allir þriðjudaginn 2. desember 2025:

  • Fyrsti fundur kl. 12:00 – 13:00
  • Annar fundur kl. 17:00 – 18:00
  • Þriðji fundur kl. 20:00 – 21:00

Dagskrá allra funda er sú sama:

  • Fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2026 – 2029

Heitt á könnunni og íbúar hvattir til að mæta.

 

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2026 til 2029 var afgreidd frá fyrri umræðu í sveitastjórn Dalabyggðar eins og fyrr segir þann 13. nóvember sl. Miðað er við að útsvarsprósenta verði áfram 14,97% og álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt á milli ára.

Á árinu 2026 er gert ráð fyrir rekstrarafgangi af samstæðunni (A og B hluta) að fjárhæð 8,5 m.kr., veltufé frá rekstri verði 145 m.kr. og veltufjárhlutfallið verði 1,18, skuldaviðmið er áætlað að verði 118,1% á árinu 2026 og fari svo lækkandi á árunum þar á eftir, framlegð er áætluð að verði 13,4% á árinu 2026. Þessar tölur eru í takt við þær áætlanir sem gerðar voru í aðdraganda þess að farið var í framkvæmdir við íþróttamannvirki í Búðardal sem er stærsta einstaka framkvæmd Dalabyggðar frá upphafi.

Áætlað er að varið verði í framkvæmdir á árinu 2026 alls 229 m.kr og þar af fari 170 m.kr. í frágang á Íþróttamannvirkjum í Búðardal sem tekin verða í notkun í febrúar 2026.

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2026 til 2029 fer fram þann 11. desember n.k. en í aðdraganda þess fundar verður fjárhagsáætlunin kynnt á fundunum sem nefndir eru hér ofar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei