Upplýsingar frá heilsugæslustöðvunum í Búðardal og á Reykhólum um móttöku háls-, nef og eyrnalæknis, inflúensubólusetningu, krabbameinsleit og nýtt vaktnúmer utan dagvinnutíma.
Háls-, nef- og nef og eyrnalæknir
Þórir Bergmundsson, háls-, nef og eyrnalæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni í Búðardal mánudaginn 3. október. Tímapantanir eru í síma 432 1450.
Inflúensubólusetning
Bólusetning gegn árlegri inflúensu er hafin á heilsugæslustöðvunum í Búðardal og Reykhólum.
Bóluefnið inniheldur vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009–2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B.
Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:
– Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
– Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
– Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
– Þungaðar konur.
Ofangreindir áhættuhópar fá bóluefnið sér að kostnaðarlausu en greiða komugjald á heilsugæslu.
Vakin er athygli á því að inflúensan virðist vera óvenju snemma á ferðinni þennan veturinn þar sem Veirufræðideild Landspítalans hefur nú þegar greint tilfelli af inflúensu.
Bólusetning gegn inflúensu veitir allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum. Jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur. Nánari upplýsingar er að finna á vef landlæknisembættisins.
Jafnframt er minnt á bólusetningu gegn lungnabólgubakteríu sem ráðlögð er áhættuhópum á ákveðnu árabili.
Krabbameinsskoðun
Eins og áður hefur verið kynnt hefur sú breyting orðið á að nú framkvæma ljósmæður leghálssýnatöku kvenna, bæði á Leitarstöð Krabbameisfélagsins og á heilsugæslustöðvum víðast hvar um landið.
Helga Hreiðarsdóttir ljósmóðir á Hvammstanga kemur öðru hvoru á heilsugæslustöðina í Búðardal og tekur sýni hjá konum á starfssvæði HVE Búðardal /Reykhólum. Það er því hægt að panta tíma á heilsugæslustöðinni hvenær sem er þegar boðsbréf hefur borist.
Gert er ráð fyrir að Helga verði næst með sýnatöku í Búðardal miðvikudaginn 9. nóvember n.k.
Þessi háttur er hafður á í mörgum nágrannalöndum okkar og þar er þátttakan mun meiri. Þátttakan á Íslandi hefur farið minnkandi undanfarin ár, sérstaklega hefur hún dregist saman á landsbyggðinni.
Leghálskrabbameinsleit skilar góðum árangri svo framarlega sem konur mæta. Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 90 % síðan skipulögð leit hófst. Leghálskrabbameinsleit er ein mikilvægasta heilsuvernd sem konum stendur til boða.
Með því að mæta í leghálssýnatöku á þriggja ára fresti, getur þú nánast komið í veg fyrir að þú fáir leghálskrabbamein. Áfram verður komið með brjóstamyndatöku annað hvert ár og reiknað er með að hluti kvenna mæti í sýnatökuna í tengslum við hana.
Tímapantanir vegna inflúensubólusetningar og krabbameinsleitar eru í síma 432 1450. Einnig er hægt að panta tíma í síma 432 1460 á mánudögum (Reykhólar)
Nýtt vaktnúmer
Nýtt vaktnúmer utan dagvinnutíma er 1700. Þegar hringt er í 1700 númerið fæst samband við hjúkrunarfræðing sem veitir ráðgjöf, leiðbeinir um hvert skal leita í heilbrigðiskerfinu eða gefur símann áfram til læknis á viðkomandi heilsugæslustöð þegar tilefni er til. (þetta númer skal ekki nota á dagvinnutíma).
Neyðarnúmer er 112 allan sólarhringinn. Það númer skal nota ef um slys eða bráð veikindi er að ræða.