Fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2016-2019

DalabyggðFréttir

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2016-2019 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 15. desember.
Álagningarhlutfall útsvars á árinu 2016 verður jafnt lögbundnu hámarki eins og það er á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir að lögbundið hámark verði 14,52% frá 1. janúar 2016 samkvæmt nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga til fjármögnunar þjónustu við fatlað fólk.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts og lóðarleiga verður óbreytt frá árinu 2015. Viðmiðunarupphæðir vegna afsláttar aldraðra (af fasteignaskatti og holræsagjaldi) hækkar um 7,9% samkvæmt breytingu á launavísitölu.
Gert er ráð fyrir sölu eigna á árinu 2017 og umtalsverðum nýfjárfestingum á árunum 2017 og 2018. Í þessu felst að stefnt er að sölu á Laugum í Sælingsdal og uppbyggingu íþróttamannvirkja við Auðarskóla.
Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að heildartekjur A- og B- hluta sveitarsjóðs verði um 770 milljónir kr., en heildargjöld án fjármagnsliða um 747 milljónir kr. Fjármagnsliðir verða neikvæðir um 19 milljónir kr. og rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um tæpar 4 milljónir kr.
Gert er ráð fyrir að fjárfesta fyrir um 31 milljónir kr. árið 2016 og að ný lántaka verði allt að 25 milljónir kr. Gert er ráð fyrir að hefja endurnýjun húsnæðis grunnskóla og minni framkvæmdum á lóð leikskóla, í Dalabúð, Tjarnarlundi, Leifsbúð, vatnsveitu og fráveitukerfi.
Sótt verður um framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra til að halda áfram endurbótum á Silfurtúni. Þá þarf að greina húsnæðisþörf Silfurtúns til næstu framtíðar.

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar 2016-2019

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei