Í upphafi árs er rétt að vekja athygli á því að árskort á Héraðsbókasafn Dalasýslu fyrir 1. janúar – 31. desember 2025 er íbúum gjaldfrjálst.
Þannig gefur árskortið íbúum möguleika á fjölbreyttri, takmarkalausri og ókeypis afþreyingu. Svo ekki sé minnst á kosti þess að lesa, bæði fyrir unga sem eldri.
Safnið býr yfir glæsilegum safnkosti sem telur nær 14.000 eintök sem stöðugt er verið að bæta við og endurnýja. Sem dæmi er nær allur núverandi metsölulisti Eymundsson til útláns á safninu og verið er að bæta við barnabókaseríunni „Litla fólkið og stóru draumarnir“.
Útleigutími bóka er ýmist tvær eða fjórar vikur svo það er heldur betur hægt að njóta lestursins.
Fyrir þá sem vilja takast á við áskoranir bendum við m.a. á „52 bækur 2025“ sem má finna á ýmsum miðlum, útgáfum og tungumálum en við höfum sett hérna upp á íslensku að gamni. Annars vegar er listi yfir tillögur til að merkja við á árinu og hins vegar „bókahilla“ sem hægt er að fylla inn í og/eða skreyta eftir því sem fram vindur:
52 bækur 2025 (listi)
52 bækur 2025 (bókahilla)
Á árinu er svo gert ráð fyrir áframhaldi á örsýningum í samstarfi við Byggðasafn Dalamanna, Héraðsskjalasafn Dalasýslu og íbúa sveitarfélagsins. Í janúar er væntanleg örsýning um Jóhönnu Kristínu Andrésdóttur ljósmóður á Stóra-Vatnshorni.
Það eru því fjölmargar ástæður fyrir heimsókn á Héraðsbókasafn Dalasýslu á nýju ári.