Byggðasafn Dalamanna og Héraðsbókasafn Dalasýslu eru með sýningu á leikföngum og fleiru á bókasafninu í tilefni af barnamenningarhátíðinni BARNÓ – BEST MEST VEST á Vesturlandi. Leikföngin eru hluti af safnkosti byggðasafnsins. Þau eru frá mismunandi tímum, bæði aðkeypt og heimagerð. Þá eru ekki alveg nýjustu Andrésar andar blöðin frammi til lestrar, dönskukunnátta er kostur. Taflborð er framan við bókasafnið fyrir áhugasama.
Á sýningarvegg í anddyri stjórnsýsluhússins verður afrakstur sögugerðar barna til sýnis. Á vef Dalabyggðar er að finna skjal fyrir sögugerð, í skjalinu er rammi fyrir myndskreytingu og nokkrar línur fyrir frásögn. Foreldrar mega að sjálfsögðu hjálpa yngstu börnum við að koma frásögn á blað. Skjalið er á vef Dalabyggðar og leiðbeiningar fyrir sögugerð. Framan við sýningarvegginn er bekkur með skeljum sem má leika sér að eftir þörfum.
Á ganginum þar sem afgreiðsla sýslumanns, lögregla og héraðsskjalasafn eru, er sýning á völdum svarthvítum ljósmyndum Lárusar Magnússonar frá Tjaldanesi af börnum í Dölum og mun víðar. Þar er líka að finna nokkra muni frá Byggðasafni Dalamanna tengda börnum.
Barnamenningarhátíðin er kjörið tækifæri fyrir gæða- og samverustundir með börnunum. Ætlast til að fullorðnir aðilar fylgi börnum upp að 12 ára aldri á viðburði.
Á vef Dalabyggðar er hægt að nálgast upplýsingar um viðburði sem komnir eru á dagskrá í Dölum. Allir viðburðir eru ókeypis.