Beiðni sveitarstjórna á Vesturlandi um neyðarfund og skipan viðbragðshóps

DalabyggðFréttir

Fulltrúar sveitarfélaga á Vesturlandi sendu í gær þann 20. febrúar, erindi til forsætisráðherra með ákalli til ríkisstjórnar um neyðarfund og skipan viðbragðshóps stjórnarráðsins um aðgerðir í vegamálum.

Hættustigi var lýst yfir á Vesturlandi þann 13. febrúar sl. vegna bikblæðinga. Stórfelldar bikblæðingar bættust þannig við afar bágborið ástanda á mörgum vegköflum í landshlutanum. Hefur ástandið m.a. verið tilkynnt til Almannavarnanefndar Vesturlands þar sem sveitarstjórnir töldu að neyðarasktri væri stefnt í hættu.

Það má með sanni líkja ástandinu við hamfarir því ástand vega er orðið slíkt að ekki verður lengur við unað. Hættan af óbreyttu ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir íbúa og vegfarendur og því brýnt að valdhafar bregðist við.

Vegna ástandsins hafa því sveitarfélög á Vesturlandi snúið bökum saman og óskað eftir fundi hið fyrsta, með forsætisráðherra og oddvitum ríkisstjórnarinnar, ásamt ráðherra samgöngumála.

Einnig er óskað eftir skipun á „viðbragðshópi stjórnarráðsins“ þar sem tilgangur hópsins væri að vinna að undirbúa aðgerðir til að tryggja öryggi íbúa á Vesturlandi og annarra vegfarenda, svo ekki hljótist skaði á fólki og verðmætum og truflun á atvinnu- og mannlífi, eins og nú blasir við.

Hér fyrir neðan má lesa erindið í heild sinni en undir það rita sveitarstjórar á Vesturlandi og formaður SSV.

Erindi frá Vesturlandi vegna neyðarástands vegamála – til forsætisráðherra 20.02.2025

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei