Björgunarsveitarfólk er Vestlendingar ársins 2019

DalabyggðFréttir

Vestlendingar ársins 2019 eru björgunarsveitarfólk á Vesturlandi.

 

Skessuhorn – fréttaveita Vesturland, stóð nú í 21. skipti fyrir vali á Vestlendingi ársins. Leitað var tilnefninga íbúa og var niðurstaðan afgerarandi. Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns afhenti fulltrúum allra níu björgunarsveitanna á Vesturlandi blóm og viðurkenningarskjal við athöfn í Landnámssetri Íslands síðastliðinn föstudag. Því fylgdu meðfylgjandi orð: „Björgunarsveitarfólk sýndi á liðnu ári sem fyrr hversu mikilvægt starf þess er fyrir samfélagið allt, íbúa jafnt sem gesti. Hinn sanni björgunarsveitarmaður er ávallt reiðubúinn til aðstoðar og leitar, að nóttu sem degi, leggur á sig ómældan fjölda vinnustunda við æfingar, fjáraflanir, leit og björgun á sjó og landi. Fyrir það þakka íbúar á Vesturlandi.“

 

Samkvæmt tölfræði sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur utan um eru á fimmta hundrað virkir björgunarsveitarmenn á Vesturlandi. 469 björgunarsveitarmenn, af svæði 4 og 5, mættu í samtals 5.709 útköll frá 1. janúar 2014 til loka árs 2019. Það gerir að meðaltali 12,2 útköll á hvern einstakling. Fimm hafa mætt í yfir hundrað útköll á þessu sex ára tímabili. Það eru þeir Einar Þór Strand í Stykkishólmi, 169 sinnum, Bragi Jónsson, áður búsettur á Reykhólum, 121 sinni, Ægir Þór Þórsson í Snæfellsbæ, 111 sinnum, Arnar Grétarsson í Borgarfirði, 110 sinnum og Björn Guðmundsson á Akranesi, 108 sinnum.

 

Í Skessuhorni sem kom út í dag er tekið hús á öllum björgunarsveitum á Vesturlandi, rætt við formenn þeirra og fræðst um áherslur og hvað er efst á baugi í starfi björgunarsveitanna. Í viðtali við formenn kemur fram að framan af árinu 2019 var fremur rólegt en það átti eftir að breytast. Undir lok árs fór stór hópur af Vesturlandi til dæmis til leitar- og björgunarstarfa á Norðurlandi í kjölfar óveðursins sem þar gekk yfir. Milli jóla og nýjárs hófst svo leit að manni sem saknað er í Hnappadal

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei