Héraðsbókasafn Dalasýslu stóð fyrir lestrarátaki yfir sumarið í fjórða sinn. Gefin voru út þrjú bingó-spjöld fyrir mismunandi aldur þ.e. 5-7 ára, 8-9 ára og 10-12 ára. Þátttakendur sóttu spjöldin á bókasafnið fyrir sumarlokun en á hverju spjaldi voru nokkrir reitir sem lýstu aðstæðum eða athöfn sem átti að framkvæma á meðan lestri stóð.
Í dag, fimmtudaginn 23. október, var þátttakendum boðið að mæta á bókasafnið og fengu gjafir fyrir að hafa lokið bingóinu. Það voru 8 börn sem tóku þátt í ár og er þeim þakkað fyrir, sem og þeim foreldrum sem sýndu gott fordæmi með því að taka líka þátt í bingóinu.
Einnig er vert að nefna úrval af nýjum bókum, spennandi bókum og fræðandi bókum á bókasafninu, bæði fyrir börn og fullorðna. Ekki síst bleikar bækur sem notalegt er að njóta í bleika mánuðinum.

