Námskeiðið Brautargengi verður haldið í Búðardal nú haust og hefst 9. september. Skráningarfrestur rennur út 3. september 2010.
Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands gengst nú í fimmtánda sinn fyrir svokölluðum Brautargengisnámskeiðum á landsbyggðinni. Haustið 2010 er áætlað að halda námskeiðið á þremur stöðum á landinu, þ.e. í Búðardal, Akureyri og Húsavík. Alls hafa um átta hundrað konur víðs vegar um land lokið Brautargengisnámskeiði frá upphafi.
Brautargengi er 70 kennslustunda námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja. Meðal markmiða námskeiðsins eru að nemendur öðlist hagnýta þekkingu á þáttum er lúta að stofnun og rekstri fyrirtækja, markaðsmálum, fjármálum og stjórnun. Einnig öðlast nemendur tengsl við atvinnulífið í gegnum fyrirlesara, leiðbeinendur og aðra þátttakendur.
Brautargengi er sérsniðið námskeið fyrir athafnakonur sem hafa viðskiptahugmynd sem þær vilja hrinda í framkvæmd með nýju eða starfandi fyrirtæki. Eina inntökuskilyrðið er að þátttakendur hafi viðskiptahugmynd til að vinna með á meðan námskeiðinu stendur.
Kennt er einu sinni í viku í 14 vikna lotu, 4,5 klst. í senn og lýkur með útskrift í desember.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:
-skrifi viðskiptaáætlun
– kynnist grundvallaratriðum varðandi stofnun fyrirtækja
– öðlist hagnýta þekkingu á þeim þáttum sem koma að fyrirtækjarekstri, s.s. stefnumótun, markaðsmálum, fjármálum og stjórnun.
Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum, verkefnavinnu og persónulegri handleiðslu og hentar jafnt konum sem eru að hefja rekstur og konum sem reka nú þegar fyrirtæki.
Kennsla hefst 9. september 2010 í Búðardal. Nánari upplýsingar og skráning má nálgast á vefsíðu Impru eða hjá verkefnisstjóra námskeiðsins Selmu Dögg Sigurjónsdóttur, í síma 522 9434 eða netfangi selma@nmi.is