Breyting á sorphirðu – dreifing nýrra íláta

Kristján IngiFréttir

Fyrirhuguð er breyting á sorphirðu frá heimilum í takt við breytt lög um úrgangsmál. Breytingin fellst í aðgreiningu á þeim úrgangsflokkum sem fara í „græntunnuna“ í dag. Sitt hvort ílátið verður fyrir annars vegar pappír og pappa og hins vegar plast. Málmumbúðum fara ekki lengur í ílát heim við hús. Hægt verður að losa sig við þær ásamt glerumbúðum og textílúrgang í grenndarstöð í Búðardal (lúgurnar við söfnunarstöðina).

Fjórða tunnan bætist við hjá heimilum fyrir plast, 240L í Búðardal og 360L í sveitinni. Græna ílátið sem fyrir er verður endurmerkt fyrir pappír og pappa. Ílátin verða losuð í tveggja hólfa bíl á 4ra vikna frest í Búðardal og 8 vikna fresti í sveitinni. Losað rúmmál frá hverju heimili eykst því um helming í Búðardal en lítillega í sveitinni miðað við núverandi fyrirkomulag.

Brúna tunnan fyrir matarleifar, sem undanfarið hefur verið tæmd samhliða endurvinnslunni, verður losuð samtímis blönduðum úrgangi á 4ra vikna fresti eftir breytingu. Fyrir minni heimili verður hægt að sækja um minni tunnu (140L) fyrir blandaðan úrgang, svokallaða „spartunnu“, sem mun bera minni álagningu þegar gjaldskrá úrgangsmála verður uppfærð um næstu áramót. Áætlaður mismunur verður um 15-18.000 kr/ári. Almennt verður lítill kostnaðarmunur á ílátum fyrir endurvinnslu.

 

Boðið upp á afbrigði frá almennri samsetningu íláta

Hægt er að sækja um aðra samsetningu eða samnýtingu íláta en hér listuð að ofan, en öll heimili/íbúðir þurfa að hafa aðgang að ílátum fyrir alla fjóra flokkana. Samnýting getur t.d. átt við fyrir fjölbýli, tvíbýli í dreifbýli eða þar sem lóðir liggja saman. Breytt samsetning á t.d. við þar sem fáir eða margir eru í heimili (minni/stærri ílát en almennt). Kostnaður samnýttra íláta deilist á þau fasteignanúmer sem deila því. Skilafrestur umsókna um breytingar er 5. nóvember (uppf. 23. okt). Ekki verður hægt að verða við beiðnum sem ekki eru talin uppfylla lágmarks rúmtak miðað við áætlaðan fjölda notenda. Gera er ráð fyrir breytingargjaldi vegna breytinga á tunnustærðum á næsta ári eftir að nýtt kerfi hefur verið innleitt.

Umsóknareyðublað um breytta samsetningu eða samnýtingu íláta

 

Kynningarfundur verður í Dalabúð 21. október kl. 17:30. Þar munu fulltrúar frá Íslenska Gámafélaginu kynna fyrir okkur bæði breytingarnar og þjónustuna og munu ásamt starfsfólki sveitarfélagsins svara spurningum íbúa. Upptaka af kynningum (ekki umræðum) verður gerð aðgengileg eftir fundinn.

Nýjum ílátum verður dreift samhliða losun á grænu tunnunni 4. og 28. nóvember.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei