Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans og honum er fagnað um allan heim.
Starf sjálfboðaliða er ekki sjálfsagt, í raun má segja að án framtaks sjálfboðaliða væri fátæklegt um að líta í byggðum landsins.
Allt frá einstaklingsframtaki upp í heilu félögin og deildirnar, sem taka að sér hin ýmsu hlutverk og vinna ókeypis í sínum frítíma í þágu annarra og samfélagsins alls.
Það er ómetanlegt að búa yfir mannauð líkt og við gerum hér í Dölum. Þar sem íbúar eru tilbúnir að standa vaktina, aðstoða við stór sem smá verkefni, finna lausnir og vinna saman í þá átt að samfélagið bæði gangi og dafni.
Við gleymum því miður oft að þakka sjálfboðaliðum fyrir og stundum er framtak þeirra nær ósýnilegt afl á venjulegum degi, eitthvað sem við jafnvel tökum sem sjálfsögðum hlut.
Því er mikilvægt í dag, á degi sjálfboðaliðans, að þakka öllum fyrir þeirra ómetanlega og óeigingjarna framlag. Takk fyrir ykkur – án ykkar gengi þetta ekki upp!
