Þriðjudaginn 14. nóvember var haldinn íbúafundur í Dalabyggð vegna verkefnisins DalaAuðs.
Íbúafundurinn var vel heppnaður og voru ýmis mál rædd, meðal annars mikilvægi þess að haldið verði áfram uppbyggingu innviða enda samgöngumálin eitt brýnasta verkefnið í Dalabyggð. Rætt var um nýja möguleika varðandi dagvöruverslun á svæðinu, lagðar fram tillögur um félags- og menningarstarf ásamt því að málefni eldri borgara og skólamálin voru rædd.
Sveitarstjóri Dalabyggðar og verkefnisstjóri DalaAuðs tóku til máls og ræddu um framgang DalaAuðs en mikil gróska er um þessar mundir í Dalabyggð, bæði í félagslífi og nýsköpun.
Haldnar voru tvær kynningar á verkefnum sem fengið hafa styrk úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs. Hún Þóra Sigurðardóttir kynnti starfsemina á Nýp og nýja aðstöðu og grafíkpressu sem sett var þar upp í sumar. Berghildur Pálmadóttir sagði svo frá verkefninu Áfangaheimilið á Dunki, sem veitir úrræði fyrir einstaklinga með fjölþættan vanda en þar er unnið að uppbyggingu einstaklingshúss fyrir skjólstæðinga.
Frumkvæðissjóður DalaAuðs er nýsköpunar- og samfélagssjóður sem fylgir verkefninu á meðan á því stendur eða til loka árs 2025. Þegar hefur verið úthlutað tvisvar sinnum úr sjóðnum eða samtals 24,5 milljónum króna. Næst verður opnað fyrir Frumkvæðissjóðinn 15. febrúar 2024.
Verkefnisstjóri vill skila þökkum til allra sem sóttu fundinn. Umræðurnar voru líflegar og margar frábærar hugmyndir sem komu þar fram. Unnið verður úr athugasemdum íbúa og þeim bætt inn í Verkefnisáætlun DalaAuðs sem síðan verður birt á vef Dalabyggðar. Tökum öll höndum saman og höldum áfram að vinna að því að gera frábært samfélag enn betra.
Með kærri þökk og kveðju,
Linda Guðmundsdóttir,
verkefnisstjóri DalaAuðs.