Á hátíðarhöldunum 17. júní var tilkynnt um val á Dalamanni ársins 2024.
Opið var fyrir tilnefningar í tvær vikur og á þeim tíma bárust um 90 tilnefningar.
Það segir mikið um hvað við erum rík af mannauði í Dalabyggð og alltaf jafn ánægjulegt að það sé tekið eftir því jákvæða sem náunginn gerir og leggur til samfélagsins okkar.
Dalamaður ársins að þessu sinni var Guðrún B. Blöndal – hún Rúna okkar.
Í umsögnum með tilnefningunni kom meðal annars fram að Rúna ætti titilinn skilið fyrir ötula uppbyggingu íþróttastarfs í Dalabyggð og fyrir forgöngu um stofnun Íþróttafélagsins Undra. Það leikur enginn vafi á þakklæti íbúa vegna þeirrar þrotlausu vinnu sem Rúna hefur lagt í uppbyggingu Undra, það sást helst á því að það var nefnt á einhvern hátt í annarri hverri umsögn.
Þá kom fram í umsögnum að Rúna væri fyrirmynd fyrir börn og unglinga í Dalabyggð og einstakur drifkraftur sem við hittum í hinum ýmsu hlutverkum. Hún sé móðir sjálf, stuðningur við aðra foreldra, fulltrúi í fræðslunefnd, í stjórn Undra og aðstoð á svo marga vegu, þar sé hún líka á heimavelli og eigi heiður skilið fyrir sína vinnu og framtak. Margir nefndu með réttu það óeigingjarna starf sem hún hefur gefið, fyrir börnin okkar í Dalabyggð.
Að auki voru ýmsir mannkostir hennar nefndir, m.a. að hún væri indæl, góð, skemmtileg, traust, sannur vinur vina sinna, dugleg, drífandi og falleg bæði að innan sem utan.
Þá tökum við hjá Dalabyggð heils hugar undir þær umsagnir sem sögðu okkur heppin að hafa fengið þessa mögnuðu konu til okkar í sveitarfélagið.
Við óskum Rúnu enn og aftur til hamingju með viðurkenninguna með þökk fyrir framlag hennar til samfélagsins.
Mynd: Szymon Bartkowiak