Forgangsröðun Dalabyggðar í vegaframvæmdum og fjarskiptamálum

DalabyggðFréttir

Á 248. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar voru staðfestar tvær skýrslur er varða innviði í sveitarfélaginu.

Annars vegar er um að ræða uppfærslu á forgangsröðun vegaframkvæmda í sveitarfélaginu sem unnin var 2023 og hins vegar nýja forgangsröðun fjarskiptamála. Báðum forgangsröðunum er ætlað að vera lifandi plagg sem tekur breytingum eftir því sem vinnst á áherslum þeirra. Í báðum skýrslum er að finna forgangsröðun sveitarfélagsins á yfirstandandi framkvæmdum, næstu framkvæmdum og aðrar áherslur.

Í uppfærslu á forgangsröðun vegaframkvæmda var m.a. tekið tillit til þeirra vegaframkvæmda sem hafa orðið frá því að skýrslan var unnin 2023 sem og endurheimt malarvega á Vestfjarðarvegi 60 um Dali og Reykhólasveit. Þá er sérstaklega gagnrýnt í skýrslunni eftir uppfærslu að einbreiðar brýr séu látnar halda sér þegar farið er í framkvæmdir í Dalabyggð og þá sérstaklega bent á framkvæmd á Laxárdalsvegi og Klofningsvegi. 

Í forgangsröðun fjarskiptamála er reynt að greina stöðuna í Dalabyggð eftir fremsta megni. Þá má benda á að þegar Fjarskiptastofa endurnýjaði tíðniheimildir Nova, Vodafone og Símans 2023 voru sett skilyrði um tryggt slitlaust samband á stofnvegum á láglendi fyrir árslok 2026 og ákveðnum hálendisvegum fyrir lok árs 2031. Þarna standa yfir 260km vega innan Dalabyggðar fyrir utan þessi skilyrði þar sem ekki er um stofnvegi að ræða. Á þessum rúmlega 260km eru þær kröfur einar settar á fjarskiptafyrirtækin að þjónusta verði ekki lakari en hún var 1. janúar 2023. Þá er engin krafa á að samband hjá t.a.m. heimilum utan stofnvegaleiðar sem eru í lélegu sambandi eða hafa aldrei verið í sambandi, verði betra en það var 1. janúar 2023. Þó ýmislegt megi betur fara ber að fagna því að þegar er hafi vinna hjá Mílu við lagningu ljósleiðara í þéttbýli Dalabyggðar (Búðardal).

Báðar skýrslur hafa þegar verið sendar innviðaráðherra, þingmönnum kjördæmisins og viðeigandi nefndum Alþingis ásamt samtökum sveitarfélaga, hlutaðeigandi stofnunum og sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga.

Skýrslurnar má nálgast hér: Skýrslur

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei