Takk öll sem komuð á íbúafund Dalauðs, síðustu vikur hafa bæði verið annasamar og erfiðar hjá mörgum okkar en þess vegna þótti okkur sérstaklega vænt um að sjá Dalamenn koma saman og ræða verkefnið DalaAuð.
Þetta var fjórði íbúafundurinn sem haldinn er vegna DalaAuðs en ákveðið hefur verið að framlengja verkefnið um eitt ár og verður það því að óbreyttu til loka árs 2026.
Fundurinn var vel heppnaður í alla staði en fyrir lá að íbúar fengju að rýna og koma með athugasemdir við verkefnisáætlun DalaAuðs. Voru umræður bæði gagnlegar og uppbyggilegar og vil ég þakka íbúum fyrir það. Nú mun verkefnisstjórn taka athugasemdirnar til skoðunar og verður uppfærð áætlun birt hér á vef Dalabyggðar og á vef Byggðastofnunar.
Heimsóknir til frumkvöðla
Dagurinn byrjaði þó snemma hjá fulltrúum verkefnisstjórnar sem fóru og heimsótti tvo frumkvöðla í Dölum fyrr um daginn. Fyrst var farið í Rauðbarðarholt þar sem Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Einar Hlöðver Erlingsson tóku á móti hópnum og sögðu frá verkefninu Urði Ull. Urður ull er eitt af fjölmörgum verkefnum sem fengið hafa styrk úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs. Ullarverksmiðjan opnaði í vor og hafa fjölmargir gestir lagt leið sína til Ingu og Einars í sumar. Líklegt er að Ullarvinnslan skapi a.m.k. 1-2 störf í héraði, auk þess sem áhersla er lögð á að auka afurðarverð á ull til bænda. Var afurðarverðið rætt töluvert í heimsókninni og áhugavert að heyra að mislita ullin, sem bændur fá yfirleitt greitt minnst fyrir, er sú sem selst best hjá Urði Ull. Þau hafa sterka sýn varðandi fyrirtækið en að þeirra mati er íslenska ullin gæðavara og mikilvægt að við berum virðingu fyrir henni sem slíkri og að sú virðing skili sér til bænda.

Ingibjörg og Einar sýna Kristjáni Þ. Halldórssyni, fulltrúa Byggðastofnunar, ullarvinnsluna.
Næst var ferðinni heitið í Ásgarð, nánar tiltekið í „litla kaupfélagið í Ásgarði“ eins og sumt heimafólk velur að kalla það. Verkefnið „beint frá skýli“ fékk styrk úr frumkvæðissjóði árið 2023 og í kjölfarið settu Guðbjört Lóa Þorgrímsson og Eyjólfur Ingvi Bjarnason upp sjálfsafgreiðsluskúr, við afleggjarann að Ásgarði. Skúrinn er við Vestfjarðarveg og því einstaklega vel staðsettur fyrir þá sem keyra um Dalina. Eyjólfur og Lóa eru grænmetisbændur og selja afurðir sínar í skúrnum. Lóa hitti fulltrúa verkefnisstjórnar og sagði frá verkefninu en óhætt er að segja að það hafi gengið einstaklega vel í sumar. Skúrinn er orðinn vinsæll viðkomustaður, bæði hjá heimafólki og gestum. Þau áætla að þau hafi selt um 2 tonn af grænmeti úr skúrnum í ár en þau voru með fjölbreytt úrval til sölu í sumar og stefna á að halda því áfram.
Íbúafundur DalaAuðs

Fundur að hefjast og fólk kemur sér fyrir.
Fundurinn sjálfur hófst kl. 17.30 og tóku rúmlega 30 manns þátt í honum. Dalakot sá um veitingarnar og fá góðar þakkir fyrir. Hófst fundurinn á erindi Dr. Vífils Karlssonar, sem bar heitið Dalirnir dafna. Frá andstreymi yfir í meðbyr. Þar fór hann yfir niðurstöður íbúakönnunar, sem sýna að ungu fólki er hætt að fækka og íbúum almennt líka, atvinnulíf er að þróast í átt að meiri fjölbreytni og ánægja með þjónustu sveitarfélagsins hefur aukist. Hér má sjá glærur Vífils: Dalirnir rokka – Vífill Karlsson.
Bjarnheiður Jóhannsdóttir er annar tveggja fulltrúa íbúa í verkefnisstjórn DalaAuðs en hugvekja hennar bar heitir Garðurinn okkar, Dalirnir og leyfum við henni að fylgja fréttinni en ég held að hún hafi hreyft við mörgum. Eins og hún segir í hugvekjunni þá eru Dalirnir eins og garður með margs konar plöntum og nefndi hún það á fundinum að mikilvægt væri að slíta allt illgresi meðan það væri smátt en ekki leyfa því að vaxa og valda skaða í garðinum. Þessi hugvekja minnir okkur á hve mikilvægt er að tala saman, leyfa okkur að vera ósammála og taka á málum í góðum kærleik – og eins og hún segir í hugvekjunni þá er gaman að sjá Dalina blómstra. Hugvekju Bjarnheiðar má lesa hér fyrir neðan.

Kynning um verkefnið í Dagverðarnesi
Tvö frumkvæðisverkefni voru síðan kynnt. Fyrst var það verkefnið í Dagverðarnesi, þar sem Sigurður Rúnar Friðjónsson sagði frá uppbyggingu á kirkjunni og áformum um að byggja þar upp áfangastað í einstakri náttúru. Unnið hefur verið að því að bæta alla aðkomu að kirkjunni, kirkjan sjálf gerð upp og er í bígerð að vinna að því bæði að setja upp söguskilti og jafnvel að þar verði starf í leiðsögn á sumrin. Þórunn M. Ólafsdóttir og Haraldur Guðjónsson sögðu síðan frá Dalahvítlauki sem ræktaður er í Saurbæ í Dölum. Þórunn fræddi gesti um hvítlauk og mikilvægi jarðvegsuppbyggingar og sagði svo frá þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í kringum ræktunina.
Undirrituð kom svo umræðuhópunum af stað, eftir að hafa farið stuttlega yfir þau helstu verkefni sem unnið hefur verið að í tengslum við DalaAuð síðasta árið.
Umræðurnar voru eins og áður sagði bæði góðar og gagnlegar og vil ég fyrir hönd verkefnisins og verkefnisstjórnar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir þeirra innlegg og góðan fund.
Kær kveðja,
Linda Guðmundsdóttir
Verkefnisstjóri DalaAuðs
Garðurinn okkar Dalirnir – erindi Bjarnheiðar Jóhannsdóttir á íbúafundi DalaAuðs þann 8. október 2025.
Kæru Dalamenn, kæru nágrannar og vinir.
Ég sé samfélagið okkar eins og garð. Ekki þennan með sléttu einsleitu grasflötinni, þar sem ekki má blómstra einn einasti fífill, heldur garð með trjám, smáblómum, grænmeti og ávöxtum, allt á sínum stað, með smá illgresi í bland.
Ef við viljum að hann blómstri, gefi af sér og veiti veröldinni og okkur sjálfum gleði þurfum við að hugsa vel um hann og ekki láta hann fara í órækt, visna og fölna. Við þurfum að vökva.
Á síðustu öld vann ég á Norðurlandi vestra, fyrir atvinnuþróunarfélag og það var þá sem ég fór að horfa á hvað gerði samfélög að góðum og næringarríkum jarðvegi fyrir mannlífið. Og ég sá mjög mikinn mun á milli samfélaga.
Mig langar að nefna tvö dæmi. Á Skagaströnd var nýbúið að leggja niður allar konurnar í rækjunni hjá Skagstrendingi og í stað þess að einhvern veginn gefast upp spratt upp allskonar smástarfsemi, snyrtistofa, saumaþjónusta, meira að segja kjólabúð á tímabili. Og ég fór með 60 Skagastrandarkonum á hafnarvigtina eitt haustið og við vigtuðum okkur, fórum svo í átak með sjúkraþjálfara, leikfimigúru og sálfræðing okkur til stuðnings og hresstum upp á líkama og sál. Stigum svo aftur á vigtina og höfðum misst á annað tonn.
Og á Hólum í Hjaltadal. Þar var bændaskóli að komast í eitthvað los. En þá voru tekin upp gleraugun og skoðað hvaða sérstöðu væri hægt að fara í og úr því spratt fiskeldið, hestabrautin og ferðamálin. Þau drógu að sér fólk með þekkingu og þessi kraftur lifir enn í Háskólanum á Hólum.
Þar sem sigrum var fagnað, hugmyndir peppaðar upp, fólk lék sér og prófaði að gera hluti, þótt þeir gætu mistekist, þar var yfirleitt stöðugt og öflugt mannlíf. Þar sem mistökin voru til að skemmta sér yfir, læra af og halda svo bara áfram.
Líka þar sem fólk talaði fallega hvert til annars og leysti málin á meðan þau voru lítil og krúttleg og ekki orðin stórmál. Og þar sem þau voru leyst án átaka, gífuryrða og í bróðerni.
Þið vitið, eins og með illgresið. Ef það fær að vaxa, kæfir það gulræturnar og við fáum enga uppskeru. En sé illgresið rifið upp með offorsi losnar um gulræturnar og þær vaxa hægar, eða rifna upp með illgresinu.
Mér finnst stórkostlegt að sjá Dalina blómstra, eins og þeir hafa gert undanfarið. Menning og mannlíf blómstrar, við gerum þetta saman, hvort sem það er að smala eða byggja upp fyrirtæki og búa okkur samheldnar fjölskyldur. Jafnvel þótt útlitið sé ekkert alltaf æðislegt. Við erum ekkert að bíða eftir að einhverjir aðrir komi á hvítum hesti að bjarga okkur, heldur bara gerum þetta. Og þegar allt gengur vel eigum við að fagna því, njóta og hrósa hvort öðru.
Og þegar vandamálin banka upp á stendur þannig samfélag saman. Miklu betur en hin þar sem allir bíða eftir að einhverjir aðrir geri hlutina, þar sem fólk talar hranalega hvert til annars og stundar átök.
Þessi garður okkar er það sem á að fóstra lífið okkar hér, næra okkur og vaxa með okkur, hvort sem það er bjart eða dimmt. Við eigum að geta gagnrýnt hvert annað án þess að meiða, lagað vandamál án þess að særa og hlúð að því sem gerist, hvort sem við höfum trú á því eða ekki.
Því það gerist þó alltént eitthvað. Allt er betra en að ekkert gerist, allt er betra en illskeytt átök. Því þá fer fólk. Sumt fólkið kemur aldrei aftur. Sumt fólkið sem fór, stendur aldrei aftur með okkur.
Þess vegna þurfum við að velja markvisst og viljandi að tala upp, tala fallega, framkvæma í sátt og samlyndi og skemmta okkur öllum á kostnað einskis annars en okkar sjálfra. Þið vitið, hafa gaman af lífinu saman, með öllum þeim ævintýrum sem við getum gert, ef við bara horfum bjartsýn fram á veginn.
Því hugsunin um að það verði allt gott, eykur líkurnar á að það verði allt gott.