Gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í Dalabyggð árið 2023

SveitarstjóriFréttir

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2023-2026 var lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn og samþykkt einróma fimmtudaginn 15. desember.

Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A og B hluta) árið 2023 er jákvæð um 56,5 milljónir króna sem er breyting til hins betra frá yfirstandandi ári. Nýjasta útkomuspá gerir ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 12 milljónir króna á árinu 2022 þannig að hér er um töluverðan viðsnúning að ræða, heildarvelta Dalabyggðar er áætluð 1,357 milj.kr. á árinu 2023.

Líkt og áður fer stærstur hluti útgjalda sveitarfélagsins til fræðslu- og uppeldismála en 51% skatttekna Dalabyggðar renna til málaflokksins.

Útsvarsprósenta Dalabyggðar er óbreytt á milli ára, er og verður 14,52% miðað við núverandi forsendur.

Gjaldskrár í Dalabyggð hækka almennt um 5,4% á milli ára sem er töluvert undir því sem ríki og sveitarfélög eru að hækka sínar gjaldskrár. Því má segja að um sé að ræða raunlækkanir á gjaldskrám í nokkrum tilvikum. Til viðbótar samþykkti sveitarstjórn að fella niður vistunargjald í leikskóla hjá elsta árgangi í leikskóla hverju sinni, svokölluðum skólahóp. Þessar ráðstafanir sýna fjárhagslega burði Dalabyggðar sem og einbeittan vilja sveitarstjórnar til að skapa sem bestar búsetuaðstæður fyrir íbúa.

Áætlað er að skuldahlutfall sveitarfélagsins í árslok 2023 verði 91% og útlit er fyrir að núverandi langtímaskuldir Dalabyggðar verði upp greiddar að mestu á árinu 2024. Ný lántaka er engu að síður í farvatninu því vonir standa til að langþráðar framkvæmdir við íþróttamannvirki í Búðardal hefjist á árinu 2023 sem mun hafa í för með sér nýja lántöku. Frístundaakstur verður styrktur fram að því að íþróttamannvirki verða tekin í notkun í Búðardal en það tilraunaverkefni hefur fengið afar góðar viðtökur. Áfram verður haldið með LED væðingu götulýsingar í Búðardal og gatnaframkvæmdir eru á dagskrá, bæði hvað varðar íbúðagötur og eins í iðnaðarhverfi. Endurbætur á skólahúsnæði sem og á stjórnsýsluhúsi taka sinn skerf af framkvæmdafé og einnig er gert ráð fyrir áframhaldandi stofnframlögum til bygginga íbúða.

Markmið sveitarstjórnar Dalabyggðar er að íbúum fjölgi á næstu árum því næg eru verkefnin og mikilvægt að fá fleiri hendur til starfa og þátttöku í því blómlega samfélagi sem í Dalabyggð er.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei