Gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í Dalabyggð árin 2025 til 2028

DalabyggðFréttir

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar fyrir árin 2025-2028 var lögð fram til síðari umræðu í sveitarstjórn og samþykkt einróma fimmtudaginn 17. desember 2024.

Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A og B hluta) árið 2025 er jákvæð um 224,6 milljónir króna og þar tekið tillit til uppgjörs á sölu á Laugum í Sælingsdal. Nýjasta útkomuspá fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 37,5 milljónir króna á árinu 2024 þannig að áfram er haldið á sömu braut með sjálfbærni reksturs sveitarfélagsins að leiðarljósi þrátt fyrir metnaðarfulla uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í Búðardal.

Miðað er við óbreytt álagningarhlutfall útsvars og fasteignaskatta og að hækkun gjaldskráa verði í flestum tilfellum 3,9%.

Dalabyggð réðst á árinu 2024 í stærstu einstöku framkvæmd í uppbyggingu mannvirkja sem sveitarfélagið hefur tekist á við í 30 ára sögu þess. Þann 11. júní sl. var skrifað undir samning um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal og ungir íþróttamenn í Dölum tóku við sama tilefni fyrstu skóflustungur að mannvirkinu. Þessi framkvæmd litar rekstur og fjárfestingagetu Dalabyggðar næstu ár og því þarf að vanda mjög til verka í öllum daglegum rekstri og við ákvarðanatöku hvað framkvæmdir og fjárfestingar varðar. Á árinu 2025 er reiknað með að 1000 milljónir, einn milljarður, verði notaður til að greiða fyrir þá verkþætti sem unnir verða á árinu. Lok framkvæmda eru áætluð í febrúar 2026.

Áfram verður unnið á árinu 2025 að undirbúningi á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem stuðningur fékkst til undirbúnings á í gegnum C1 sjóð Byggðastofnunar. Verulega ánægjulegt er að Byggðastofnun ætlar að bæta í svo um munar sbr. bréf það frá Byggðastofnun sem kynnt var á sama sveitarstjórnarfundi og fjárhagsáætlun Dalabyggðar var afgreidd. Einnig verður haldið áfram að hamra járnið varðandi uppbyggingu húsnæðis í Búðardal fyrir viðbragðsaðila svo eitthvað sé nefnt af því sem í pípunum er til styrkingar innviða í Dölunum.

Sveitarstjórn Dalabyggðar ákvað að viðhalda ákvörðun sem tók gildi í ársbyrjun 2023 um að fella niður vistunargjald í leikskóla hjá elsta árgangi í leikskóla hverju sinni, svokölluðum skólahóp, gjaldfrjálst skólamötuneyti í grunnskóladeild Auðarskóla verður áfram líkt og frá hausti 2024, stuðningur við frístundaakstur ungmenna í samstarfi við Íþróttafélagið Undra heldur sér og einnig verður boðið upp á frí afnot af líkamsræktaraðstöðu fyrir elli- og örorkulífeyrisþega í samstarfi við Ungmennafélagið Ólaf Pá líkt og verið hefur frá ársbyrjun 2024. Árskort á Héraðsbókasafn Dalasýslu verður áfram gjaldfrjálst á nýju ári og haldið er inni menningarmálaverkefnasjóði sem styður við menningarverkefni í heimabyggð. Þá hefur Dalabyggð verið að endurnýja ýmsa samstarfssamninga s.s. við Leikklúbb Laxdæla, Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN), Félag eldri borgara í Dölum og Reykhólahreppi og Skátafélagið Stíganda þar sem stutt er við félagsstarf og líflegt mannlíf í sveitarfélaginu. Þessar ráðstafanir m.a. sýna einbeittan vilja sveitarstjórnar Dalabyggðar til að skapa sem bestar búsetuaðstæður fyrir íbúa á öllum aldri.

Markmið sveitarstjórnar Dalabyggðar er að bæta lífsgæði í sveitarfélaginu og að íbúum fjölgi á næstu árum samhliða því að sjálfbær rekstur sveitarsjóðs haldi áfram. Það eru næg verkefnin í Dalabyggð og tækifæri á hverju strái ef svo má segja og því mikilvægt að fá fleiri hendur til starfa og þátttöku í því blómlega og kröftuga samfélagi sem í Dalabyggð er.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei